Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:56:18 (7574)


[09:56]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég skildi ræðu hv. þm. á þann veg að hann væri ekki reiðubúinn til þess að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar ( TIO: Ég mun ekki leggja það til.) og hann undirstrikar það úr sæti sínu að hann muni ekki leggja það til. Ég get út af fyrir sig hlýtt á það sjónarmið að það sé hægt að breyta þessu aftur, það vitum við. Það koma dagar og það koma ráð í þeim efnum. En það sérstæða við þetta er líka það að lög standa þó ráðherrar komi og fari og þó að við hefðum trú á því að núv. hæstv. umhvrh. hafi skilning á að beita því valdi sem honum er fengið í þessum lögum með eðlilegum hætti þá höfum við ekki hugmynd um það hvort arftaki hans mundi gera það. Miðstýringaráráttan sem þarna kemur fram er eiginlega öll á þann veg að það er að reyna að koma mönnum alltaf einhvers staðar fyrir í biðröðum með eyðublöð til útfyllingar þar sem þeir eiga það undir náð einhvers á endanum á biðröðinni hvort þetta sé rétt útfyllt og hvort þetta verði samþykkt. Þessi biðraðaárátta inn að miðstýringu landsins er alveg forkostuleg og maður spyr sjálfan sig: Hvenær fékk Sjálfstfl. þessa trú á biðröðum til lausnar á mannlegum vandamálum?