Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 10:03:46 (7581)


[10:03]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég kem upp til að taka undir ósk hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar um að umræðu verði frestað þangað til hæstv. starfandi umhvrh. kemur til fundarins. Það er alveg makalaust að það mál sem hér er til umræðu og á að heita forgangsmál hjá hæstv. ríkisstjórn skuli fá þá meðferð og þá meðhöndlun af hálfu ríkisstjórnarinnar sem raun ber vitni. Þannig er að hinn eiginlegi hæstv. umhvrh. sem leggur svona mikið ofurkapp á þetta mál ber nú ekki meiri virðingu fyrir málinu en það að hann rýkur beint úr landi á þessari miklu örlagastundu í málinu og skilur málið eftir í höndum hæstv. heilbrrh. sem á þá að sjá um að fylgja málinu í höfn. En nú bregður svo við að hæstv. heilbrrh. er líka farinn úr landi og þá er kominn þriðji umhvrh. í þetta mikla forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Nú er þessi þriðji hæstv. umhvrh. ekki einu sinni til staðar þegar á að fara að ræða þetta mál í 3. umr. þannig að nú er spurningin: Hver tekur við af þeim hæstv. ráðherra og verður fjórði umhvrh. í einni umræðu um þetta mál? Ég tel að það sé alveg skýr og mjög eðlileg krafa að einhver af ráðherrum Alþfl., sem mun þá fá að bera þessa nafnbót í einhverjar mínútur áður en hann hleypur úr landi, verði í það minnsta viðstaddur þessa umræðu.