Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 10:35:05 (7586)


[10:35]
     Petrína Baldursdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vegna brtt. sem kemur fram á þskj. 1271 frá Guðrúnu J. Halldórsdóttur og hún

var hér að ræða, þá vil ég benda á að þetta frv. til laga um leikskóla fjallar á engan hátt um menntun starfsfólks sem vinnur á leikskólanum. Það segir að vísu í 1. gr. að við leikskólann skuli starfa sérmenntað fólk í leikskólauppeldi, leikskólakennarar. Það er það sem við göngum út frá í þessum lögum. Við tökum ekki á neinu t.d. varðandi menntun leikskólakennara. Þess vegna sé ég kannski ekki ástæðu til að vera að taka akkúrat á þessu eða samþykkja þessa brtt. varðandi þetta frv.
    Það hefur verið þannig og auðvitað get ég alveg viðurkennt að við verðum að horfast í augu við það að á mörgum leikskólum hefur ekki tekist að manna leikskólana með sérmenntuðum leikskólakennurum, en starfsmennafélög víðs vegar um landið hafa séð um hagnýta uppeldisfræði fyrir ófaglært starfsfólk og þau hafa sinnt því ágætlega. Þessi námskeið hafa, að ég tel, verið ágæt og verið mikil fræðsla og mikil viðbót fyrir það ófaglærða starfsfólk sem hefur starfað á leikskólum. Það hefur líka verið hvetjandi fyrir það starfsfólk að fara á þessi námskeið vegna launahækkunar. Starfsfólk hefur fengið launahækkun.
    En ég vil ítreka að ég get ekki alveg séð samhengið af því að við erum ekkert að fjalla um menntun leikskólakennara í þessu frv. Ég tel ekki að þessi brtt. eigi nokkuð við. Og varðandi það sem hún kom inn á vegna tillögunnar sem felld var í gær frá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni þá er það nú þannig að innan leikskólans er ekki kennt trúboð heldur kristilegt siðgæði og með umburðarlyndi og víðsýni eru leikskólakennarar að kenna börnum að bera virðingu fyrir trú og lífsskoðunum annarra.