Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 10:37:57 (7587)


[10:37]
     Guðrún J. Halldórsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við hv. 11. þm. Reykn. erum auðvitað ekkert mjög fjarri í skoðunum, eins og gefur að skilja, því við þekkjum báðar leikskólann ansi vel og vitum hvernig staðan er. Það eina sem við erum að deila um er það hvort það eigi að standa hérna að börnin sem á leikskólunum eru eigi rétt á því að allt það starfslið sem á leikskólunum starfar njóti uppeldisfræðimenntunar þó mismunandi sé. Mín skoðun er sú að þetta eigi að standa þarna og ég stend við hana alveg endalaust. Það kemur ekki annað til mála en að það eigi að standa þarna að börnin eigi rétt á þessu.
    Hvað viðkemur hinu atriðinu, að kristilegt siðgæði eða lífsviðhorf kenni víðsýni og umburðarlyndi fyrir trúarskoðunum annarra, það finnst mér sjálfsagt og rétt, en það er tvennt að kenna umburðarlyndi fyrir trúarskoðunum annarra og að kynna trúarskoðanir annarra og kenna um það. Í þessu er mismunurinn fólginn.