Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 10:41:09 (7590)


[10:41]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er nú svo að litlir hlutir geta stundum orðið til þess að menn verði að ræða á ögn breiðari grundvelli um málið.
    Þessa stundina sakna ég hæstv. utanrrh. vegna þess að hæstv. utanrrh. brá til þess í rökræðu fyrir stuttu síðan að vitna til manns sem var neyddur til þess að neita því sem hann vissi sannast og réttast. Hann var neyddur til að neita því að jörðin snerist. Lög landsins voru á þann veg að ef þessi ítalski maður hefði ekki neitað því að jörðin snerist þá hefði verið heimilt að drepa hann. Það var hið kristilega umburðarlyndi þess tíma í nágrenni við páfastól og eitthvað veldur því að mannkynssagan hefur haldið þessu mjög á lofti og þetta er hæstv. utanrrh. minnisstætt.
    Nú er það svo að Íslendingar hafa verið að samþykkja frv. til laga um mannréttindasáttmála Evrópu og ég held að það sé óhjákvæmilegt að rekja örlítið upphafið að þeim sáttmála í örfáum orðum, víkja

að því á hverju hann er grundvallaður. Mannréttindasáttmáli Evrópu segir svo í skýringum í fskj. I, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnir þær sem undirritað hafa samning þennan og aðilar eru að Evrópuráðinu hafa í huga hina almennu mannréttindayfirlýsingu sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti hinn 10. des. 1948.``
    Þau atriði sem þar eru mjög vel skilgreind eru þess vegna ekki öll tekin inn í þennan sáttmála vegna þess að hann er byggður sem viðauki við mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þó er það svo að á nokkrum stöðum er vikið að mannréttindum sem tengjast trúmálum og þar er að sjálfsögðu trúfrelsið virt. Í 9. gr. þessa samnings segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu, svo og til að rækta trú sína eða sannfæringu hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.``
    Svo mörg eru þau orð. Nú er það svo að mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar er kristinn og það er vel. En það breytir ekki því að kristin trú hefur í áranna rás ekki haft jafnafgerandi áhrif á mótun allrar lagasetningar í löndum kristinna manna eins og hún hafði á miðöldum. Það er nóg að vísa til Stóradóms í þeim efnum og þegar kristilegt umburðarlyndi var á þann veg að bestu pyntingartækin sem til voru í Evrópu voru í eigu kirkjunnar og þau óspart notuð til að halda mönnum til réttra skoðana. Það var hið kristilega siðgæði sem þá ríkti.
    Í dag er það svo að múhameðstrúarmenn hafa mjög sótt á um það að geta mótað með trú sinni alla lagasetningu sinna landa. Það má segja sem svo að þar sem það hefur tekist þá hefur verið ólíft fyrir aðra af öðrum trúarbrögðum að vera á viðkomandi landsvæðum.
    Ég er þeirrar skoðunar að það stríð sem verið hefur á milli kristinna aðila á Írlandi sé vissulega að stórum hluta tilkomið vegna afstöðu Breta, en það er líka mismunandi skilningur á kristilegu siðgæði sem liggur þar á bak við. Mismunandi skilningur sem kemur fram í ýmsu, m.a. viðhorfi til fóstureyðinga og slíku.
    Kristilegt siðgæði er ekki hugtak sem allir túlka á sama veg. Kristilegt siðgæði hefur trúlega mjög fjölbreytta túlkun. Það vill svo til að þessa stundina hefur það verið rætt líka að þeir sem eiga að fara að kenna þetta kristilega siðgæði á leikskólunum hafa mjög misjafnan bakgrunn þekkingarlega séð til að standa að því verki. Ég held þess vegna að sú ákvörðun að halda því fram að kristilegt siðgæði hafi ekkert með kristna trú að gera, eins og hér sé um tvær andstæður að ræða, sé fyrst og fremst aumur útúrsnúningur.
    Ég verð að segja eins og er að þetta mál hélt ég að mundi renna nokkuð greiðlega í gegnum þingið. Ég fór fram á það í menntmn. að það kæmu fram hugmyndir um það hvernig ætti að gæta jafnræðis í þessum efnum. Það er nú svo að það er orðin allmikil yfirstjórn yfir þessum nefndum. Það virðist þessa stundina að formenn, sumir hverjir, séu mjög bundnir af ráðuneytum, hvað þeir megi gera. Ég taldi að það væri nægur tími til að skoða þetta og þetta þyrfti alls ekki að vera deiluefni því að ég hef ekki vitað til þess að núv. hæstv. menntmrh. hefði einhvern sérstakan áhuga á því að efna til deilna í leikskólum í landinu vegna þess að foreldrar sem tryðu á aðra guði væru ekki velkomnir með börn sín í skólana, án þess að þurfa að beygja sig undir það að þar skyldi kristilegt siðgæði eitt ríkja.
    Ég boðaði að ég mundi flytja brtt., sem ég gerði, og sú brtt. hefur verið felld. Auðvitað er ekki um annað að gera en að taka því. En ég tel mig eiga rétt á skýringum frá hæstv. menntmrh. á því hvernig hann hyggist tryggja það, fyrst þessi tillaga var felld, að jafnræðis verði gætt, hverjum hann ætli að fela eftirlitið með því. Og til þess að undirstrika þetta hef ég hugsað mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa innganginn í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna:
    ,,Það ber að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda er eigi verði af honum tekin og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum. Hafi mannréttindi verið fyrir borð borin og lítilsvirt hefur slíkt haft í för með sér siðlausar athafnir sem ofboðið hafa samvisku mannkynsins, enda hefur því verið lýst að æðsta markmið mannkynsins um heim allan sé að skapa veröld þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu. Mannréttindi á að vernda með lögum, að öðrum kosti hljóta menn að grípa til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn kúgun og ofbeldi.``
    Hérna er trúfrelsið sett inn sem eitt aðalmálið í þessum efnum. Og ef rökin eru þau að þetta sé allt tryggt með því að hafa samþykkt þennan sáttmála eða þetta sé tryggt með því að þetta sé í stjórnarskránni þá má benda á að það eru líka ákvæði inni í stjórnarskránni sem tryggja það að evangelísk-lútersk kirkja skuli hafa vissa stöðu í landinu. Þetta tengist því óneitanlega saman.
    Mér er ljóst að sumir láta sér detta í hug að það sé af einhverjum fjandskap við kirkjuna sem þetta er flutt. Það er fjarri mér að taka undir slíka hluti. Ég hefði treyst mörgum kirkjunnar mönnum betur en öðrum til þess að halda þannig á svona máli að til fyrirmyndar væri. Ég tel aftur á móti að það sé gersamlega út í hött fyrst krafan um að kristilegt siðgæði skuli eflt er inni að þá sé ekki jafnframt sú réttarstaða tryggð sem þeir aðilar hafa sem ekki aðhyllast kristna trú, greiða skatta og skyldur til þessa þjóðfélags, eiga fullan rétt á jafnrétti, eiga samkvæmt íslensku stjórnarskránni rétt á því að þeirra trú sé virt, eiga samkvæmt samþykktum Alþingis á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þeim sáttmála sem

samþykktur var í gær þennan sama rétt. Hvers vegna er þá ekki hægt að ganga frá því í lagatextanum sjálfum? Mín fyrirspurn til hæstv. ráðherra er: Mun hann beita sér fyrir því að þegar verið er að efla kristið siðgæði í leikskólanum þá verði þess gætt að foreldrar sem önnur viðhorf hafa hafi þar sama rétt til þess að þeirra börn séu frædd á hlutlausan hátt um það siðgæði sem liggur á bak við þeirra trúarbrögð?