Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 10:55:45 (7591)


[10:55]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Við hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sitjum saman í tveimur nefndum, annars vegar allshn. og hins vegar menntmn. Í allshn. hefur verið fjallað um mannréttindasáttmála Evrópu í vetur og þar er í 14. gr. mælt fyrir um að ekki megi mismuna mönnum, m.a. með hliðsjón af trúarbrögðum. Þetta eru almenn ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu sem að sjálfsögðu gilda nú orðið sem lög hér á landi því við samþykktum þetta sem lög hér á Alþingi í gær.
    Ég gerði mér ekki grein fyrir því að með leikskólalögunum væri verið að hrófla við þessari 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo að það sé verið að gera það er full ástæða til þess að þetta mál verði tekið aftur til umræðu í nefndinni og það nái þá ekki fram að ganga hér á þessu þingi. Ég tel hins vegar að svo sé ekki. En þetta eru svo alvarlegar ásakanir sem hv. þm. er með um það að með leikskólalögunum sé verið að brjóta gegn mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu að haldi hann fast við það þá á hann auðvitað að krefjast þess að þetta mál verði tekið aftur og það verði ekki afgreitt hér á þessu þingi. Ég lít hins vegar ekki þannig á að við séum að brjóta í bága við mannréttindayfirlýsinguna eða mannréttindasáttmála Evrópu með þessum lögum og það hefði verið fróðlegt að heyra þessi sjónarmið hv. þm. í nefndinni og að hann hefði rætt þetta málefnalega í nefndinni en tæki þetta ekki upp hér á þessu stigi málsins í því skyni að spilla fyrir framgangi málsins í þinginu.