Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:06:03 (7596)


[11:06]
     Ólafur Þ. Þórðarson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Í forsetastól situr hv. þm. Sjálfstfl. sem hefur stuðning þeirra til þeirra starfa að stjórna fundi, Sturla Böðvarsson. Þá ryðst fram á völlinn hv. 5. þm. Norðurl. e. og telur að forseti hafi stórlega brotið af sér í starfi. Hann hafi ekki stöðvað ræðu sem ekki átti að flytja af því að það mál hafi ekki verið á dagskrá. Tilgangurinn með ræðunni virðist hafa verið að koma í veg fyrir það að menntmrh. svaraði.
    Ég hlustaði á þrjá þingmenn Sjálfstfl. í umræðu um húsaleigubætur tala um skattamál fram og til baka. Fyrir þeim fór hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Umræður um skattamál fram og til baka. Ég flutti hér aðdraganda að spurningu sem ég varpaði fram til menntmrh. Ég vissi ekki að það væri búið að friða ráðherrann. Það er ekki búið að samþykkja þessi friðunarlög um villt dýr á Íslandi mér vitanlega og það væri þá ansi hart fram gengið ef menn litu svo á að þegar ráðherrarnir eru við þá megi ekki spyrja þá. Ég veit ekki til þess að ég hafi farið ókurteislega að hæstv. ráðherra. Það er þá hæstv. ráðherra að gera athugasemdir við það hafi honum þótt ég ryðjast hér fram með offorsi með spurningar sem ekki væri eðlilegt að hann svaraði. En það er merkilegur hlutur og þykir mér stórtíðindi ef Sjálfstfl. hefur skipað hv. 5. þm. Norðurl. e. sem yfirsiðameistara yfir forsetum sínum sem hann hefur falið að stjórna þinginu.