Fjáröflun til varna gegn ofanflóðum

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:35:39 (7608)


[11:35]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með það að tekist hefur að afgreiða þetta frv. með ákveðinni tillögu frá félmn. Eins og hv. formaður nefndarinnar sagði áðan þá hefur þetta frv. legið fyrir á tveimur þingum og má e.t.v. segja að alltaf þurfum við að hrökkva við af einhverju til að láta til skarar skríða í ákveðnum málum. Það koma einnig fram í nefndaráliti frá félmn. þeir atburðir sem skeðu á Vestfjörðum nýlega.
    Ég vil bara ítreka það að ég er ánægð með að frv. er vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem hún hefur gert ákveðna samþykkt um þetta mál sem er mjög nauðsynlegt að skoða. Við höfum séð það við umfjöllun fjárlaga á undanförnum árum að ofanflóðasjóður er engan veginn í stakk búinn til að sinna því hlutverki sem hann hefur lögum samkvæmt og sem mjög nauðsynlegt er þess vegna að endurskoða, bæði lögin um sjóðinn og fjármögnun í hann.
    Annað hef ég ekki að segja um þetta mál en lýsi ánægju með það og vona að það verði afgreitt á þennan veg.