Lyfjalög

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:39:35 (7610)


[11:39]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan inna hæstv. forseta eftir því hver er starfandi heilbrrh. og óska eftir því að hann verði kallaður til umræðunnar þannig að hægt sé að halda henni áfram. Af því að ég tók þátt í lokaafgreiðslu þessa máls í hv. heilbr.- og trn. fyrir hönd Alþb. hefði ég gjarnan viljað eiga orðastað við hæstv. heilbrrh. í salnum áður en málinu lýkur. Það er því spurning hvort hæstv. forseti væri tilbúinn til þess að gera ráðstafanir til að kalla hæstv. félmrh. hingað núna ef hún væri í húsinu. Annars mundi ég fara fram á að fá að gera hlé á ræðu minni.
    ( Forseti (StB) : Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hæstv. félmrh. verði kallaður í þingsalinn og biður hv. þm. um að doka við.)
    Já, virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi viðbrögð. Þannig háttar til með þetta mál sem hér er á dagskrá að það hefur bersýnilega orðið núna í lokin eitt af stærstu deilumálum þingsins. Í raun og veru er það eðlilegt vegna þess að þetta snertir ríka hagsmuni. Lyfjamarkaðurinn á Íslandi er um 5 milljarðar króna, þar af utan sjúkrahúsa 4,3 milljarðar. Almenningur í landinu borgar núna um 32% af þessum kostnaði, borgaði áður, t.d. í tíð fyrrv. hæstv. ráðherra Guðmundar Bjarnasonar á síðasta ári hans, um 18%. Hér hefur því orðið gríðarlega mikil breyting þannig að almenningur ber meiri og meiri hluta af þessum kostnaði. Ríkið er núna að búa sig undir það að selja helminginn af Lyfjaverslun ríkisins og hér er gert ráð fyrir því að afnema hið gróna apótekarakerfi sem hér hefur verið um áratuga skeið, verið mjög umdeilt, og í staðinn ætla menn að koma á öðru kerfi sem margir óttast að muni hafa í för með sér hærra lyfjaverð. Ég er m.a í þeim hópi sem telur mjög líklegt að samþykkt þessara nýju lyfjalaga muni hafa í för með sér hærra lyfjaverð. Ég tel það eiginlega alveg gefið mál.
    Ég sé reyndar, hæstv. forseti, að það er tvennt sem liggur alveg fyrir að gerist ef þetta verður að lögum. Annars vegar hækkar verð á lyfjum og hins vegar munu menn nota meira af lyfjum. Það finnst mér eiginlega vera það eina sem alveg er klárt eftir þessa afgreiðslu. Það er þess vegna sem ég og fleiri vorum tregir til að standa að þessu þó að ég væri hlynntur ýmsum ákvæðum frv. eins og þeim sem lúta að því að breyta þessu apótekarakerfi.
    En það var ekki tilefni þess að ég fór í ræðustól heldur hitt, hæstv. forseti, að í tengslum við málið var ákveðið að setja sérstaka nefnd niður með aðild þingflokkanna sem áttu að hafa það hlutverk að fylgjast með áhrifum laganna á lyfjaverð m.a. Mér hefur verið tjáð í baksölum að heilbrrn. hafi sent út beiðni til þingflokkanna um að það verði tilnefnt í þessa nefnd. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það ef

nokkur kostur er hvort svo hefur verið gert og segja frá því að ég tel mikilvægt að þessi nefnd verði til og að hún skili skýrslu til Alþingis þannig að Alþingi geti metið hvort við höfum gengið götuna til góðs með því að samþykkja þetta frv. Þess vegna hefði ég viljað inna hæstv. starfandi heilbrrh. eftir því hvort óskað hefur verið eftir tilnefningum í þessa nefnd og hvenær er ætlunin að hún verði skipuð.
    Síðan vil ég almennt segja það, hæstv. forseti, sem heyrir nú kannski ekki undir dagskrármálið en skal ekki taka langan tíma. Mér finnst það sjálfsagður hlutur að þeir ráðherrar sem eiga að passa málaflokkinn og bera ábyrgð á málaflokknum séu viðstaddir þegar verið er að taka málin fyrir núna á síðasta degi þingsins. Ég held að það geti ekki heitið ósanngjörn ósk. Hæstv. menntmrh. var hér t.d. áðan þegar við vorum að fjalla um þau mál. Það var enginn viðstaddur þegar átti að fara að taka fyrir þetta villidýrafrv. sem svo er kallað og það er slæmt. Það er ekki góður svipur á þessu þannig að ég bið hæstv. forseta um að gera það í nafni góðrar samvinnu um þinglokin, ef þau eru fram undan, að ráðherrarnir séu viðstaddir, en erindi mitt upp í stólinn var að beina þessu til hæstv. starfandi heilbrrh.