Málefni aldraðra

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:54:21 (7617)

[11:54]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 260 er frv. til laga um breyting á lögum um málefni aldraðra sem hefur aðallega þann tilgang eins og segir í 2. gr., með leyfi forseta:
    ,,Óheimilt er í auglýsingum, sölumennsku eða kynningu að nota heiti úr lögum þessum yfir þá þjónustu sem ætlunin er að veita nema að fengnu samþykki samstarfsnefndar um málefni aldraðra.``
    Heilbr.- og trn. fjallaði um þetta mál og studdist við umfjöllun sína við umsagnir frá bæjarstjórnum Akraness, Borgarness, Egilsstaðabæjar, Húsavíkur, Keflavíkur, Selfoss og Stykkishólms, Félagi eldri borgara, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, Framkvæmdasjóði aldraðra, Húsnæðisstofnun ríkisins, Landssambandi aldraðra, Rangárvallahreppi og Öldrunarráði Íslands.
    Í nál. segir:
    ,,Fram hefur komið að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lýsir sig reiðubúinn til að setja efnisatriði 2. gr. frumvarpsins, sem fjallar um að óheimilt sé að auglýsa eða kynna íbúðir sem ,,þjónustuíbúðir fyrir aldraða`` nema að fengnu samþykki samstarfsnefndar um málefni aldraðra, í reglugerð. Nefndin telur því rétt að leggja til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir nál. rita auk mín hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ingibjörg Pálmadóttir, Sturla Böðvarsson, Finnur Ingólfsson, Sigríður Anna Þórðardóttir og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
    Ég tel sem flm. þessa máls að þetta sé prýðileg afgreiðsla á málinu þar sem fyrir liggur að efnisatriði þess er kleift að taka inn í reglugerð um málefni aldraðra og fagna þess vegna þessari niðurstöðu og þeirri yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. sem fram kom í viðtölum við flm. og formann nefndarinnar.