Eftirlit með skipum

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 12:03:43 (7620)


[12:03]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Herra forseti. Frv. þetta er flutt af samgn. að ósk hv. sjútvn. en einnig að höfðu samráði við hæstv. samgrh. og hæstv. sjútvrh.
    Frv. er í nokkrum tengslum við frv. til laga sem nú liggja fyrir Alþingi um stjórn fiskveiða. Í frv. er gert ráð fyrir því í fyrsta lagi að heimilað verði að taka inn á skipaskrá að nýju skip sem afskráð hafa verið samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða frá og með 1. sept. 1992 til og með gildistöku nýrra laga, enda þótt þau skip séu 15 ára eða eldri.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir í frv. að heimilað verði að taka inn á íslenska skipaskrá fiskiskip sem keypt hafa verið erlendis frá til veiða utan íslensku efnahagslögsögunnar eftir 1. sept. 1992 til 30. apríl 1994.
    Á þessu tímabili hafa, eins og kunnugt er, nokkrir íslenskir aðilar keypt skip til veiða utan efnahagslögsögunnar og eru í því fólgin tækifæri fyrir okkur til úthafsveiða umfram það sem ella hefði verið.
    Að sjálfsögðu þurfa skip af þessum toga að standast þær kröfur sem eru gerðar til þess að um skráningu þeirra geti verið að ræða samkvæmt lögum um eftirlit með skipum.
    Rétt er að taka það fram að einstakir nefndarmenn í samgn. áskilja sér rétt til að hafa frjálsar hendur um afstöðu til málsins. Er það m.a. gert í ljósi þess að tveir fulltrúar í hv. sjútvn. telja í bréfi til samgn. að einhverjir þættir málsins þurfi betri umfjöllun en þegar hefur orðið.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að skýra þetta mál frekar en gert hefur verið, það liggur ljóst fyrir, og legg til að því verði vísað til 2. umr. Ég sé ekki ástæðu til að óska eftir því að frv. verði vísað til nefndar.