Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 12:07:35 (7621)


[12:07]
     Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Frv. sem er til umræðu var flutt af meiri hluta hv. sjútvn. og tengist afgreiðslu sjávarútvegsmála og frumvarpa sem hér eru til umfjöllunar. Þetta frv. er í tengslum við þær deilur sem verið hafa milli sjómanna og útvegsmanna um viðskipti með aflaheimildir og óþarft er að rifja hér upp og hv. þm. þekkja. Nefndin fékk á sinn fund í tengslum við þetta mál fulltrúa allra helstu hagsmunaaðila Farmanna- og fiskimannasambandsins, Sjómannasambandsins, Vélstjórafélags Íslands og síðan fulltrúa frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Hlutverk þessarar samstarfsnefndar sem hér á að setja á laggirnar er, eins og áður sagði, að fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi uppgjör á aflahlut sjómanna í tengslum við viðskipti með aflaheimildir.
    Það er ljóst og þarf ekki að rekja það að um þessi mál hefur verið ágreiningur og leitt til harðvítugra átaka og þar á meðal verkfalls á sl. vetri.
    Það er mat sjútvn. eftir að hafa farið yfir þetta mál við viðkomandi deiluaðila að það sé til bóta að afgreiða þetta frv., koma þessum samstarfsvettvangi á laggirnar, og síðan verði náttúrlega að reyna á hvernig til tekst í þeim störfum sem þar verða unnin.
    En nefndin stendur sameiginlega að því áliti að þetta sé tvímælalaust jákvætt innlegg í þessa deilu sem staðið hefur.
    Það er rétt að það komi fram að í umfjöllun nefndarinnar og viðtölum við málsaðila kom fram að það gætir nokkurrar tilhneigingar til að túlka ákvæði laganna sem hér er verið að lögfesta með mismunandi hætti. Er þá sérstaklega átt við áhrifin af lögfestingu ákvæða 10. gr. frv. en það er eftir sem áður skoðun nefndarinnar að lögfestingin sé spor í rétta átt og það verði svo að ráðast í störfum nefndarinnar hvernig til tekst.
    Það er rétt að leggja áherslu á það að þetta mál er flutt í tengslum við þær yfirlýsingar sjómannasamtakanna annars vegar og útvegsmanna hins vegar sem eru birtar sem fylgiskjöl með frv. og vísa þá til sameiginlegrar yfirlýsingar samningsaðila í kjarasamningum milli Sjómannasambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins frá 1992.
    Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að fjölyrða frekar um þetta frv. Efni þess og tilefni þess að það er flutt er vel kunnugt og hefur verið til umræðu og það er niðurstaða sjútvn. að mæla með samþykkt þessa máls.