Endurskoðun slysabóta sjómanna

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 12:11:41 (7622)


[12:11]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :

     Virðulegi forseti. Samgn. hefur fjallað um till. til þál. um endurskoðun á slysabótum sjómanna sem flutt var af hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Nefndin hefur kvatt á sinn fund ráðuneytisstjórann í samgrn., Jón Birgi Jónsson, og Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í sama ráðuneyti.
    Nefndin mælir með því að tillagan sé samþykkt með nokkuð breyttu orðalagi sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingin sem gerð er tillaga um felur aðallega í sér að það sé afdráttarlaust að átt sé við líftjón sem ekki kemur skýrt fram í tillögunni sjálfri eins og hún var lögð fyrir. Enn fremur að það sé átt við þann hluta af slysabótum sem eru samkvæmt siglingalögum, en lífeyrisbætur eru þar fyrir utan eins og kunnugt er.
    Nefndin mælir sem sagt með að tillagan sé samþykkt með breyttu orðalagi eins og hún gerir tillögu um á sérstöku þingskjali.