Verkfall meinatækna

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 13:32:35 (7636)


[13:32]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að hv. þm. lýsi áhyggjum sínum af þeirri deilu sem staðið hefur jafnlengi og deilan um kjör meinatækna en deilan stendur á milli meinatækna og viðsemjenda þeirra sem er ríkið og reyndar sveitarstjórnirnar, sveitarstjórn hér í Reykjavík.
    Ég tek undir það með hv. þm. að það er einnig rétt að kanna það hvort ekki eigi að breyta fyrirkomulagi kjarasamninga og gera ákveðnar stofnanir ríkisins ábyrgari fyrir kjarasamningum. En því miður er nú enn langt í land að það geti tekist af ýmsum ástæðum sem ekki er hægt að fara út í hér. Ég vil taka fram að það er búið að semja við langflesta félagsmenn í BSRB og BHMR. Þetta er fjöldi félaga, þau skipta tugum og það eru örfá félög sem eftir eru aðallega félög sem starfa í heilbrigðisgeiranum.
    Fundir í deilu meinatækna og ríkisins hafa frá því í lok mars verið yfir 30 talsins. Ég tel að allt hafi verið gert til að koma í veg fyrir að deilan stofnaði lífi sjúklinga í hættu og að það hafi verið reynt að koma í veg fyrir að hættuástand skapist enda er það lögbundið að meinatæknum er skylt eins og öðrum stéttum í heilbrigðisþjónustu að stunda sitt starf að ákveðnu marki. Sem betur fer og það ber að þakka fyrir það þá hefur samkomulag orðið í langflestum tilvikum um það hvaða störf eigi að vinna. Það hefur orðið smáárekstur en ég held að báðir aðilar hafi reynt það sem þeir hafa getað til að koma í veg fyrir að hættuástand skapist á spítölunum.
    Við verðum að hafa í huga þegar talað er um þessa deilu að það er ekki hægt að líta á hana einangraða eða bundna eingöngu við meinatækna. Við vitum að hér á landi hefur atvinnuleysi vaxið og það er stefna ríkisstjórnarinnar að halda góðu jafnvægi. Það er engum til góðs ef samið er þannig við eina stétt að þeir samningar kynnu að leiða af sér að aðrir samningar eða kröfur annarra stétta leiddu til þess að laun hækkuðu almennt í landinu og niðurstaðan yrði sú að verðbólgan færi af stað og hún étur upp launin þannig að niðurstaðan gæti orðið verri en hún er í dag. Verðbólgan étur upp launin vegna þess að það vita það allir að ef laun hækka og verðlag hækkar síðan í kjölfar launahækkunar eins og við þekkjum frá fyrri árum, þekkjum frá stjórnarárum fyrri ríkisstjórna, þá kemur það engum til góðs. Það sem skiptir máli er það hvað við fáum fyrir hverja krónu.
    Nú er það svo að þessir samningar sem verið er að gera eru aðeins gerðir til næstu áramóta. Báðir aðilar eru sammála um það að leysa eigi þessa deilu með því að meinatæknar fái sambærileg kjör við aðrar háskólamenntaðar stéttir sem starfa í heilbrigðisgeiranum. Vandamálið er hins vegar að það er ekki alveg einfalt að svara þeirri spurningu hvað sé fullt samræmi í þeim efnum. Við töldum í síðustu viku að það væri komið að lokum deilunnar. Ríkisvaldið spilaði út sínu ýtrasta boði. Það var haldinn fundur en því miður reyndist það vera þannig að einhvers misskilnings gætti um það út á hvað þetta boð gekk. Það eru vandamál í stöðunni sem ég get ekki rætt hér í einstökum dráttum. Það er fyrst og fremst vegna þess að meinatæknar úti á landi hafa haft hærri laun en þeir sem starfa í Reykjavík. Það er líka vegna þess að í

ráðningarsamningum við meinatækna hafa sjúkrahúsin í Reykjavík haft þann háttinn á að vinnutími er styttri en hjá öðrum stéttum. Ég fer ekki frekar í þetta.
    Það er fundur, sem boðaður er af sáttasemjara ríkisins, í dag kl. 17. Það er von mín eins og allra annarra að þessi deila leysist sem allra fyrst og ég bind miklar vonir við það. Núna kl. 13 vissi ég að það var boðaður fundur hjá Meinatæknafélaginu, ég sé að sá fundur hefur færst hingað niður í Alþingi og það er ekkert nema gott um það að segja.
    Forustumenn meinatækna hafa rætt bæði við heilbrrh. og mig um sín mál og ég veit að það hefur öllum skilaboðum verið komið til réttra aðila og það eina sem ég get sagt hér er það að ég vonast eins og allir aðrir til þess að deilan leysist sem allra fyrst.