Verkfall meinatækna

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 13:39:25 (7638)


[13:39]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Það er sannarlega ástæða til þess en því miður var nú lítið að græða á svörum hæstv. ráðherra. Mér er auðvitað ljóst að þetta er viðkvæmt mál og flókið og verða ekki rædd hér einstök efni kjarasamninga eða samninga á viðkvæmu stigi í þingsölum. En það er líka til lítils fyrir hæstv. félmrh. að segja það að heilbrrh. hafi verið í góðri trú fyrir einni viku. Það eru 17 dagar síðan hann lýsti því yfir hér í hv. þingi að hann teldi að málið væri að leysast, 17 dagar. Þá hafði verkfallið staðið í 17 daga þannig að það er auðvitað orðinn allt of langur tími sem þetta ástand hefur varað.
    Ég vona að ekki hafi orðið alvarleg slys, áföll eða dauðsföll sem hægt sé að rekja til þessarar deilu en ég hygg að þar hafi líka meinatæknar lagt sig fram um að ræða þannig við sína viðsemjendur og reynt að haga sínum vinnutíma þannig að slíkt gerðist ekki og ber auðvitað að þakka fyrir það og virða en það hlýtur að enda með því eftir sex vikna verkfall að harka færist í deilur af þessu tagi. Það er það sem við hljótum að óttast núna og krefjast þess að stjórnvöld grípi til þeirra leiða sem mögulegar eru, leiti allra leiða til að binda endi á þessa erfiðu deilu. Það eru ákveðin verkefni í hættu. Mér er t.d. sagt það að hugsanlega verði að stöðva hjartaaðgerðir nú um helgina eða í næstu viku ef málið leysist ekki um helgina og þá blasir auðvitað við mjög alvarlegt ástand fyrir utan ýmiss konar önnur sýni sem ekki fá meðferð daglega. Ég nefni sem dæmi að mér er sagt að sýni vegna þungunar séu mál sem séu mjög viðkvæm en það er bara tekið af handahófi. Það er auðvitað fjölmargt annað sem ekki má líða eins og nú gerist og ég legg áherslu á það við hæstv. ráðherra að þeir beiti nú öllum ráðum til að leysa málið í dag. Auðvitað er það svo að deilur af þessu tagi leiða hugann að vinnulöggjöfinni sem slíkri og það er ekki gott ástand að heilbrigðisstofnun sé lömuð kannski allt árið vegna verkfalls einstakra stétta, virðulegur forseti. Það má heldur ekki verða regla að verkföll verði ekki leyst nema með lagasetningu, það er líka óviðunandi. Þannig að nú verða stjórnvöld að bregðast við og semja án frekari tafar.