Verkfall meinatækna

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 13:47:48 (7642)


[13:47]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég held að þessi meinatæknadeila sem við höfum nú fylgst með í hartnær sex vikur sé til marks um þá kraumandi óánægju sem er í raun hjá ýmsum starfsstéttum hér í þjóðfélaginu. Þetta er óánægja sem hlýtur að koma upp á yfirborðið fyrr en síðar og ég spái því að það verði fyrr.
    Ástæðan fyrir þessu er kannski ekki síst sú að nú um alllangt skeið, líklega nærri áratug hafa tíðkast hér í kjaramálum hin svokölluðu stóru samflot sem áttu að verða til að lyfta lægst launaða fólkinu í landinu en því miður hefur ekki gengið sem skyldi með það. Þessi stóru samflot urðu til þess að samningsréttur einstakra stéttarfélaga var í raun afnuminn. Og fjölmennir hópar og starfsstéttir hafa ekki getað fengið leiðréttingu á sínum málum vegna þess að það hefur allt verið lagt á ís og óréttlætið í launamálunum hefur í raun verið fryst. Þetta hefur ekki síst komið niður á ýmsum kvennastéttum vegna þess að við vitum um þennan launamun sem er á milli karla og kvenna og hefur verið hér um langt árabil að þegar samflotin komust á þá var allt saman sett á ís og óréttlætið í raun fryst. Það er búið, með öðrum orðum, að festa kyrr kjör hjá fólki og óánægjan er orðin mjög megn og ég held að hún hljóti að koma upp á yfirborðið fyrr eða síðar og það verði með einhverjum hætti að taka á því. Starfshópar eins og t.d. meinatæknar verða að fá samningsstöðu gagnvart opinberum aðilum, gagnvart sínum viðsemjendum og ákveðna leiðréttingu. Ég held að hjá því verði ekkert komist. Hver hún á síðan að vera og hvar menn ætla að mætast, það er önnur saga. En það eru margir hópar sem bíða eftir því að fá ákveðnar viðræður um sín mál og fá leiðréttingu á sínum sérkjaramálum og ég held að það verði ekkert hjá því komist að taka á því. Það verður ekki stöðvað eins og hæstv. fjmrh. virtist gefa hér í skyn að þyrfti að gerast. Hann sagði að það sé engum til góðs að samið verði við eina stétt og verðbólguskriðan fari af stað. Það þarf ekki að hafa í för með sér að verðbólguskriðan fari af stað þó tekið sé á málum einstakra stétta.