Fjáraukalög 1993

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 14:54:51 (7650)

[14:54]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Frv. það til fjáraukalaga fyrir árið 1993 sem hér er til umræðu þarfnast ekki langra ræðuhalda og er ekki ástæða til þess að lengja þessar umræður með því. Eins og fram kemur ber frv. með sér að það hefur vissulega tekist að ná verulegum árangri í stjórn ríkisfjármála sérstaklega og ég held að það hafi allflestir þingmenn viðurkennt að hægt og bítandi hefur tekist að ná betri stjórn á útgjöldum ríkisins, útgjöldum einstakra stofnana. Ég held að það beri að þakka, bæði fyrrv. og núv. hæstv. fjmrh. og það er nauðsynlegt að hver eigi það sem hann á í þeim efnum. Það hefur verið svo að menn hafa lagt meiri rækt við það að gera einstakar stofnanir og ráðuneyti ábyrgari og ég held að það komi m.a. fram í þeim fjáraukalögum sem hér eru til afgreiðslu.
    Varðandi athugasemdir hv. 8. þm. Reykn. sem vakti athygli á því, sem er alveg hárrétt, að frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði hefur ekki verið lagt fram aftur. Hv. þm. rakti það til einhvers áhugaleysis okkar sjálfstæðismanna í þinginu. Það er ekki þannig og vil ég að það komi skýrt fram að á þessum vetri hefur ekki komið fram nein ósk af hálfu hv. þm. í fjárln. um að þetta frv. yrði flutt. Við þáv. formaður fjárln., hv. þm. Karl Steinar Guðnason sem nú er horfinn af þingi, beittum okkur fyrir því að frv. væri flutt í fyrra, en ástæðurnar fyrir því að þetta mál hefur ekki verið flutt á þessu þingi eiga tilteknar skýringar sem eru þær að nefnd sem kölluð er ríkisreikningsnefnd hefur verið að störfum. Þessari ríkisreikningsnefnd hefur verið sett það hlutverk að gera tillögur um úrbætur í framsetningu ríkisreikningsins og ég veit það að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson þekkir þetta vel sem fyrrv. fjmrh. Það er ástæðan. Ástæðan fyrir því að þetta frv. hefur ekki verið lagt fram á þessu þingi er sú að við gerðum ráð fyrir því að ríkisreikningsnefndin hefði lokið störfum þannig að það mætti vera eðlilegt samhengi á milli þess frv. sem var flutt og verður vonandi flutt í haust, frv. um greiðslur úr ríkissjóði, og þess sem hin svokallaða ríkisreikningsnefnd leggur til um framkvæmd og útfærslu á ríkisreikningi.
    Þetta vildi ég að kæmi fram hér, virðulegi forseti, við þessa umræðu, en ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að það er afar mikilvægt að samþykkt verði hér lög um greiðslur úr ríkissjóði. Með því mundum við fá enn betri tæki til þess að fást við ríkisútgjöldin, fást við það erfiða viðfangsefni fjmrh. og að sjálfsögðu fjárln. að ráða við hina miklu tilhneigingu sem er til aukinna ríkisútgjalda og jafnvel ríkisútgjalda sem ekki er gert ráð fyrir í ýtrasta skilningi þess orðs að eigi sér

stað á tilteknu og viðkomandi ári með tilliti til fjárlaga.
    Þetta vildi ég að kæmi fram hér, virðulegi forseti. Að öðru leyti get ég tekið undir athugasemdir hv. þm. og vænti þess að í haust njótum við stuðnings hans við það að frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði verði hér að lögum. Sjálfstæðismenn hafa hins vegar ekki beitt sér gegn því að þetta frv. yrði lagt fram núna og skýringarnar liggja í því sem ég hef hér nefnt.