Fjáraukalög 1993

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 15:10:48 (7652)


[15:10]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson lýsti hér að ástæðan fyrir því að frv. um aukagreiðslur úr ríkissjóði hefði ekki verið flutt á þessu þingi væri sú að ríkisreikningsnefnd væri að fjalla um þessi mál og ætlunin væri að ná einhverju samkomulagi við hana. Það eru, ef ég man rétt, fimm ár síðan hafist var handa við þetta mál og frv. um aukagreiðslur úr ríkissjóði kom fyrst fram. Ríkisreikningsnefnd hefur þess vegna haft allan þann tíma, að mínum dómi, til þess að taka á þessu máli. Ég man ekki betur, ég fer með það að vísu eftir minni, en á síðasta ári mínu í fjmrn. hafi verið gengið frá brtt. við þetta frv. sem fjmrn. gat sætt sig við. Fjmrn. var þá, a.m.k. veturinn 1990--1991, búið að ná niðurstöðu í þessu máli og ég held að ég fari líka rétt með það að sú niðurstaða hafi verið byggð á því að kanna viðhorf fulltrúa í ríkisreikningsnefnd, a.m.k. mun ráðuneytisstjóri fjmrn. sem vann að þessum málum hafa haft samráð við ýmsa í þeim efnum.
    Staðreyndin er líka sú að ég held að engin meiri háttar breyting í meðferð ríkisfjármála á síðustu árum hafi átt uppruna sinn í ríkisreikningsnefnd. Allar meiri háttar breytingar í meðferð ríkisfjármála hafa annaðhvort komið til vegna ákvarðana eða áhuga fjmrh. eða fjárln., þ.e. þingmanna. Ég minnist þess ekki að hafa fengið frá ríkisfjármálanefnd neina ábendingu um endurskipulagningu ríkisfjármála. Ríkisendurskoðun mun einnig hafa komið ábendingum á framfæri, en ríkisreikningsnefnd ekki. Þess vegna virkar það frekar á mig sem ávísun á hina dauðu hönd að segja að það sé verið að bíða eftir því að ríkisreikningsnefnd nái einhverri niðurstöðu í málinu. Ríkisreikningsnefnd er í margra ára þjálfun að gera ekki neitt, a.m.k. að fara sér hægt í þessum málum. Við töldum þingið 1990--1991, þeir sem önnuðust viðræður fjárln. og fjmrn. um þessi mál, að niðurstaða væri komin, án þess að það þyrfti að fara svo náið með það í ríkisreikningsnefnd.
    Og hverjir skipa ríkisreikningsnefnd? Ef ég man það rétt eru það ráðuneytisstjórinn í fjmrn., fulltrúi Seðlabankans, fulltrúi Hagstofu Íslands og fulltrúi Ríkisendurskoðunar. Bæði fulltrúi fjmrn. og Ríkisendurskoðunar voru búnir að sætta sig við ( Gripið fram í: Og ríkisbókhalds.) --- já og svo auðvitað ríkisbókhalds --- voru búnir að sætta sig við þær breytingar sem gerðar voru á frv. veturinn 1990--1991 og mér er til efs að einhverjir snillingar í Seðlabankanum eða öðrum stofnunum sem þarna eiga fulltrúa hefðu getað bætt þar um betur vegna þess að frv. um aukagreiðslur úr ríkissjóði er í eðli sínu fyrst og fremst aðhaldssáttmáli sem framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið komu sér saman um. Frv. um aukagreiðslur úr ríkissjóði er lögbinding þeirra starfsreglna sem sem betur fer vaxandi fylgi hefur verið við af hálfu þingmanna og ráðherra.
    Ef ætlunin er hins vegar að flytja þetta frv. að nýju í haust þá fagna ég því og í sjálfu sér þarf ekki mikið meira að segja um það. Ég vara menn hins vegar við því að telja að einhver umfjöllun ríkisreikningsnefndar sé svo mikið atriði í þessu máli í ljósi alls þess sem á undan er gengið að það réttlæti margra missira töf á því að þingið taki málið til umfjöllunar.