Fjáraukalög 1993

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 15:15:32 (7653)


[15:15]
     Sturla Böðvarsson :

    Virðulegi forseti. Frv. um fjáraukalög fyrir árið 1993 hefur orðið til þess að koma af stað umræðum um frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði og það er ekki óeðlilegt út af fyrir sig. Vegna ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar vil ég segja að það er alveg rétt hjá honum að ríkisreikningsnefndin hefur ekki komið frá sér, því miður, þeim tillögum sem ætlast var til að hún gerði. Þau tíðindi hafa hins vegar gerst að nú hefur nefndin lokið við að gera tillögur, loksins, og seinna mátti það kannski ekki vera, hefur reyndar ekki gengið frá þeim að fullu og hefur ekki kynnt þær fyrir fjárln. En við vitum að þessar tillögur eru í lokafrágangi og þess vegna er ég bjartsýnni en áður og get væntanlega glatt hv. þm. með því að segja að ég tel miklar líkur á því að þessar tillögur líti dagsins ljós og fjárln. fái færi á að fjalla um þær mjög fljótlega. Þannig að það á ekki að vera hægt að skáka í neinu því skjóli sem áður var hægt að gera og vissulega með fullum rökum að flytja ekki þetta frv. um greiðslur úr ríkissjóði.
    Við höfðum satt að segja vænst þess þegar við fluttum frv. á síðasta þingi að þessar tillögur ríkisreikningsnefndar mundu liggja fyrir og í þeirri trú og vissu að um þetta tækist samkomulag við fjmrh. mætti ljúka þessu máli.
    Ég vildi bara að þetta kæmi fram og ég ítreka það og vænti þess að við þingmenn fjárln., sem munum væntanlega flytja þetta frv., njótum góðs stuðnings bæði núv. hæstv. fjmrh. og þess fyrrverandi, sem hefur sýnt þessu máli í umræðunni í dag þann áhuga sem eðlilegt er.