Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 15:18:44 (7654)


[15:18]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Einkavæðing Áburðarverksmiðjunnar er á dagskrá. Út af fyrir sig ætla ég ekki að lýsa neinni andstöðu við það að slík verksmiðja verði einkavædd og jafnvel seld en ég lýsi samt fullri andstöðu við það að þetta mál hljóti framgang á Alþingi einfaldlega vegna þess að þetta fyrirtæki er í slíkri óvissu að það er gjörsamlega út í hött að láta sér detta í hug að selja það á næstunni á markaði. Samþykktin á EES-samningunum og þær skyldur sem fylgdu þeim samningum hefur orðið til þess að rekstrargrundvöllur fyrirtækisins er horfinn og það er ekkert sem bendir til að verksmiðjan geti keppt við innfluttar sambærilegar vörur. Því miður er þetta staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá og því skyldi þá ríkið sem á þessa verksmiðju fara að hlaupa til og breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag?
    Ég held að það eina sem er hægt að gera núna í þessari stöðu sé að láta reyna á það hvort rekstrargrundvöllur er fyrir fyrirtækinu, kanna möguleika á breyttu rekstrarformi, alla möguleika sem hugsanlegir eru í því efni að breyta rekstri fyrirtækisins og þær tillögur verði síðan skoðaðar vandlega. Komi út úr þeim einhverjar hugmyndir sem menn geta orðið sammála um að séu skynsamlegar þá á auðvitað að framkvæma þær og koma þessu fyrirtæki í eitthvert rekstrarlegt horf þannig að það eigi framtíð. Þegar þessum aðgerðum er lokið þá er hægt að huga að því að selja þetta fyrirtæki, einkavæða það og selja það. En þetta sem menn eru nú að gera er gjörsamlega skot út í óvissuna. Það veit ekki nokkur lifandi maður hvað verður um þetta fyrirtæki eftir að innflutningur á áburði verður orðinn frjáls.
    Ég tel að það sé full ástæða til þess að benda á þessi atriði og lýsi furðu minni yfir því að ríkisstjórnin skuli vera að leggja af stað í þennan leiðangur í þeirri óvissu sem fyrirtækið er í núna. Ég held að ef það væri einhver meining á bak við stóru orðin um það að menn vildu tryggja framtíðarrekstur þessa fyrirtækis þá ætti hún að birtast í því að vinna að málinu eins og ég var að lýsa hér áðan og láta það bíða framtíðarinnar að einkavæða þetta fyrirtæki og selja, ef þessi rekstrargrundvöllur verður fyrir hendi, sem vonandi verður. Ekki skal ég draga úr því að menn hafi vilja til þess að leita leiða til að hægt verði að reka þetta fyrirtæki, en þær leiðir eru ófundnar enn og á meðan svo er þá tel ég að það sé ekki rétt að fara í það að einkavæða þetta fyrirtæki með það fyrir augum að selja það.
    Síðan eru auðvitað á lagafrv. sömu gallar og hafa verið á öllum þeim lagafrv. um einkavæðingu sem við höfum séð í þinginu frá hæstv. ríkisstjórn. Þar hefur verið gengið gegn hagsmunum starfsmannanna. Af þeim eru tekin réttindi sem þeir hafa samkvæmt sínum samningum og í staðinn eru sett málamyndaákvæði um réttindi þeirra til atvinnu hjá þessum fyrirtækjum. Það er alveg sama sagan í þessu lagafrv. eins og hinum lagafrumvörpunum. Það stendur hér, með leyfi forseta, í 4. gr.:
    ,,Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum, gilda ekki um tölu stofnenda að hlutafélaginu. Ákvæði 1. mgr. 17. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 115. gr. sömu laga gilda ekki um tölu hluthafa. Að öðru leyti skulu ákvæði hlutafélagalaga gilda um félagið.``
    Þetta er út af fyrir sig allt saman í lagi en það kemur síðar í ljós það sem ég var að segja áðan og það var það ákvæði sem ég ætlaði að vitna til, það er í 6. gr. laganna. Þar segir að ákvæði 14. gr. laga

nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eigi ekki við um þessa starfsmenn. Það þýðir að sama daginn og þetta fyrirtæki verður að hlutafélagi þá er hægt að segja upp þessum mönnum með þeim almenna fyrirvara sem er í ráðningarsamningunum. Þar með eru réttindi þeirra sem ríkisstarfsmanna og réttindi til þess að fá greitt vegna þess að starf er lagt niður horfin. Þetta höfum við gagnrýnt í öllum þeim lagafrumvörpum sem hafa verið lögð fram um þetta efni og við höfum sagt, og ég endurtek það hér, að það er óeðlilegt að ganga ekki til enda þessarar deilu við ríkisstarfsmenn áður en svona er gengið frá málum eins og hér er lagt til.
    Ég ætla ekki út af fyrir sig að hafa um þetta langt mál. Ég vil eingöngu segja það að ég tel að það sé ástæða til þess að samþykkja tillögu minni hlutans um að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar og ég hvet til þess að menn vinni að málinu með líkum hætti og ég var að lýsa áðan og hugsi sér síðan til hreyfings með það að koma þessu fyrirtæki í hlutafélagaform og selja það þá þegar framtíð þess er orðin trygg og menn vita hver hún verður.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að orðlengja um þetta lagafrv. Mér finnst sporin hræða í því efni sem hér er á ferðinni. Við höfum nýlega séð hvernig staðið var að sölunni á SR-mjöli. Við höfum líka séð hvernig stjórnendur Sementsverksmiðjunnar hafa unnið að málum eftir að það fyrirtæki varð að hlutafélagi og það er full ástæða til að vekja athygli á því að framkoman við starfsmenn þessara hlutafélaga sem fyrrum voru starfsmenn ríkisins er ekki með þeim hætti sem ætti að vera. Ég hef komið þeim athugasemdum á framfæri hér áður og ég tel að hv. Alþingi eigi að ganga þannig frá málum þegar fyrirtæki í eigu þess eru gerð að hlutafélagi að starfsmenn missi ekki þau réttindi sem þeir eiga. Ef það er ekki hægt að tryggja það með viðunandi hætti með lagasetningunni þá á að bæta þessum starfsmönnum þennan réttindamissi á eðlilegan og venjulegan hátt, en eins og er þá ýtir ríkið frá sér öllum kröfum um það efni. Það er óeðlilegt og það hefði auðvitað átt að taka á þessum málum strax.