Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 15:26:56 (7655)


[15:26]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni gamall kunningi þar sem er þetta frv. ríkisstjórnarinnar um að breyta Áburðarverksmiðju ríkisins í hlutafélag.
    Það er nú svo, hæstv. forseti, að eitt af stóru flöggunum sem þessi hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að reisa og einn af minnisvörðunum sem hún ætlaði að hlaða sér á þessu kjörtímabili átti að vera einkavæðing, einkavæðing, einkavæðing. Það var farið geyst af stað og myndarlega og sett inn í fjárlögin á fyrsta ári að sala á eignum ríkisins ætti að skila ríkissjóði 1,5 milljörðum kr., ef ég man rétt. Eitthvað gekk það nú lítið og ætli uppskeran hafi ekki verið á milli 50 og 100 millj. á fyrsta ári. Aðallega einhver hlutabréf í Jarðborunum ríkisins og eitthvað því um líkt. Á næsta ári voru aftur settar líklega 1.200 millj. ef ekki 1,5 milljarðar inn í fjárlögin og aftur átti hæstv. fjmrh. að fá a.m.k. botnhyl í kassann í gegnum sölu á ríkisfyrirtækjum. --- Hver var uppskeran? Jú, hún varð eitthvað um 100 millj.
    Enn er ríkisstjórnin á ferðinni með svipuð áform og enn er í fjárlögunum einhver liður sem á að koma til með sölu á ríkisfyrirtækjum. ( Gripið fram í: Hann er nú alveg að hverfa.) Hann er að vísu alveg að hverfa sá liður og að verða að engu enda hefur reynslan ósköp einfaldlega sýnt það að þetta hefur ekki gengið mjög hönduglega. Við þær sölur, ef sölur skyldi kalla, sem þó hafa farið fram, hefur verðlagningin verið þannig á fyrirtækjunum að það hefur mest lítið skilið eftir sig. (Gripið fram í.) Eins og til að mynda salan á SR-mjöli. Þegar upp er staðið þá kemur nettó í ríkissjóð við söluna á SR-mjöli eitthvað rétt í kringum 100 millj. kr. Þetta er búið að reikna út og sýna með óhrekjandi rökum. Þetta mikla fyrirtæki sem mundi sjálfsagt kosta 4--5 milljarða að byggja upp í dag. Þannig hefur það nú farið.
    En hér er enn verið við sama heygarðshornið og nú er það þetta ágæta fyrirtæki okkar Íslendinga, Áburðarverksmiðja ríkisins í Gufunesi, sem hefur framleitt áburð fyrir landsmenn og fullnægt okkar þörfum á þessu sviði nánast algjörlega undanfarna áratugi, framleitt þarna verðmæti úr innlendri orku sem nemur upp undir milljarði króna á ári á núvirði og jafnvel meiru þegar best lét því þá var áburðarframleiðsla og áburðarnotkun hér talsvert mikið meiri en nú er orðið, því miður, vegna samdráttar í landbúnaði.
    Það er afar athyglisvert, hæstv. forseti, þegar farið er yfir það að í þessu frv. er rökstuðningurinn fyrir breytingunum --- hver er hann? Jú, hann er þessi hefðbundni klassíski einkavæðingarrökstuðningur þar sem m.a. er talað um það, eins og sést hér í grg., að ríkið eigi ekki að stunda atvinnustarfsemi sem keppi við almennan atvinnurekstur. Það er fært fram sem rök í þessu frv. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh.: Hvaða almenni atvinnurekstur er það annar í landinu sem Áburðarverksmiðjan í Gufunesi keppir við? Er það virkilega svoleiðis að hæstv. landbrh. viti um fleiri áburðarverksmiðjur á Íslandi og þá væntanlega reknar af einkaaðilum og ríkið sé þar af leiðandi með einhverjum slíkum hætti í ósanngjarnri samkeppni við einkaframtakið? Ég hef bara ekki heyrt um að það sé nema ein fabrikka hér sem framleiðir það sem kallað er á íslensku tilbúinn áburður og ég veit að hæstv. landbrh. kann muninn á því og hinum áburðinum sem er náttúrlega notaður.
    Nei, þetta er auðvitað alveg furðulegt og ég hvet hv. þingmenn til að lesa þessu kostulegu greinargerð. Það er byrjað á því að vísu að vitna í þessa almennu stefnu ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu. Svo

kemur texti, með leyfi forseta:
    ,,Hin almennu rök, sem hníga að því að breyta ríkisfyrirtæki á borð við Áburðarverksmiðjuna í hlutafélög, hafa flest komið fram.`` --- Hvar hafa þau komið fram, hin almennu rök? Til hvers er verið að vísa? Hvers konar rökstuðningur er þetta í greinargerð með einu frv.? Svo segir áfram: --- ,,Hér á landi jafnt og annars staðar á Vesturlöndum hefur þeirri skoðun vaxið fylgi að eðlilegt sé að ríkið dragi sig sem mest út úr atvinnustarfsemi sem keppir við almennan atvinnurekstur.``
    Í fyrsta lagi bið ég nú um sönnun á því að það sé viðtekin staðreynd að þetta sé einhver stefna sem sé í sókn alls staðar á Vesturlöndum. ( Gripið fram í: Hvar er landbrh.?) Það væri fróðlegt að fá að vita, hæstv. forseti, hvort landbrh. er orðinn svo ókyrr þegar í upphafi þessarar umræðu að hann megi ekki við bindast og æði hér á dyr, svo ekki sé minnst á til að mynda formann hv. landbn., sem ég óska eindregið eftir því að verði í salnum. Hv. þm. Egill Jónsson sem mun hafa setið í stjórn þessa fyrirtækis upp undir hálfan mannsaldur. Það er alveg nauðsynlegt að sá maður sé hérna líka viðstaddur.
    Ég spyr nú: Er það eitthvað sem búið er að sanna, bara Q.E.D., að einkavæðingarstefna sé í sókn alls staðar á Vesturlöndum og það séu engar efasemdir neins staðar uppi um það? Hvernig ætli ætli ástandið sé núna t.d. í því ágæta landi, býsna kært ræðumanni, Nýja-Sjálandi? Ætli það sé ekki þannig að það séu orðnir allnokkrir timburmenn út af því hvernig ýmislegt hefur gengið til í einkavæðingunni þar? Þeir voru svo óheppnir Nýsjálendingar að sitja uppi með svokallaðan verkamannaflokk, svokallaðan jafnaðarmannaflokk sem var langt hægra megin við allt og rauk út í það að einkavæða fyrirtæki með miklum tilþrifum, þar á meðal fyrirtæki jafnvel í fjarskiptum og fákeppnistarfsemi. Reynsla þeirra er alveg hörmuleg. Ástralir til að mynda eru hættir við einkavæðingu margra stórra fyrirtækja hjá sér fyrst og fremst vegna þess að reynsla nágranna þeirra, Nýsjálendinga, er svo vond af þessu brölti. Hvernig er ástandið í Bretlandi? Það er auðvitað þannig að meira að segja breskir íhaldsmenn viðurkenna að Bretar sköpuðu sér stórkostlegt tjón með ofstækinu í einkavæðingarmálunum þegar verst lét. M.a. og alveg sérstaklega þegar í hlut átti starfsemi sem annaðhvort var í eðli sínu einokunarframleiðsla eða einokunarstarfsemi eða því sem næst, fákeppnisgreinar.
    Hér er á ferðinni fyrirtæki, hið eina sinnar tegundar í landinu, sem keppir ekki við neitt nema innflutning. Er það þá þessi ósanngjarna samkeppni við almennan atvinnurekstur sem verið er að tala um? Er það vegna þess að það sé ósanngjarnt að íslenska ríkið eigi fyrirtæki sem keppi við innfluttar vörur? Er það það sem vakir fyrir mönnum eða hvað? Það verður að tala um þessa hluti eins og þeir eru, þetta er auðvitað della. Rökstuðningurinn í greinargerðinni með frv. er della, gengur ekki upp. Ég veit að vísu af hverju þetta er. Ég er með kenningu um það. Það er vegna þess að einkavæðingarnefndin er með staðlaðan texta, sem er svo bara smellt inn í öll frv. og það er alveg sama hvort verið er að einkavæða Gutenberg eða einokunarfyrirtæki hið eina sinnar tegundar í landinu eins og Áburðarverksmiðjuna, vinnubrögðin eru nú ekki vandaðri en þetta. Þeir snillingarnir í einkavæðingarklúbbnum eru bara með svona staðlaðan texta upp á tvær blaðsíður og honum er skellt hérna inn hvort sem það er Lyfjaverslun ríkisins eða Áburðarverksmiðjan eða hvað það er. Hæstv. landbrh. lætur hafa sig í það, verandi þó maður sem m.a. hefur smekk á íslenskt mál og ann því, hann lætur hafa sig í það að flytja þessa vitleysu. Ég segi við hæstv. landbrh. að ég hefði hent greinargerðinni í hans sporum og frekar sett þar eina stöku en birta þessi ósköp. Það hefði verið miklu betri greinargerð ef hæstv. landbrh. hefði ort eina vísu og sett þarna með og látið það vera að vera að birta þessa þvælu úr þeim hv. einkavæðingarmönnum.
    Það er margt mjög kostulegt í þessu. T.d. er næsta setning, hæstv. forseti, ef ég má halda áfram lestri mínum þá kemur þetta: ,,Jafnframt er talið við hæfi að opinber fyrirtæki, sem þannig háttar um, séu rekin í formi hlutafélaga.`` Jafnframt er talið við hæfi. Við hæfi hvað? Hverjum til hæfis? Mér finnst það alveg kostulegur samsetningur. Svo segir hér neðar á síðunni: ,,Önnur veigamikil rök fyrir því að nýta hlutafélagaformið fyrir ríkisfyrirtæki felast m.a. í því að rekstur fyrirtækisins verður hagfelldari og sveigjanlegri á ýmsa lund.`` Er þetta rökstuðningur? Þetta er fullyrðing, ósönnuð fullyrðing út í loftið. Hvar er það sannað? T.d. í þessu tilviki þegar í hlut á svona fyrirtæki að það sé endilega framför í þessari breytingu sem slíkri. Í hverju liggur það? Ég bið um rök. Bendir rekstur Áburðarverksmiðju ríkisins undanfarin ár til þess að ríkisformið hafi háð fyrirtækinu? Er það eitthvað sérstakt í þróun verksmiðjunnar undanfarin ár sem gefur ástæðu til að ætla að hún hafi ekki getað þrifist af því að hún var ríkisfyrirtæki? Svarið er nei, það er akkúrat öfugt. Rekstur Áburðarverksmiðjunnar undanfarin ár er kannski eitt með betri dæmum sem við höfum um það að það er auvitað hægt að taka vel á málum og myndarlega í rekstri ríkisfyrirtækja eins og annars staðar. Það er nánast glæsilegt hvernig Áburðarverksmiðjan hefur núna á síðustu 7--8 árum eða svo rifið sig upp í raun og veru, upp í að vera firnasterkt fyrirtæki í dag með um 90% eiginfjárhlutfall, þ.e. hlutfall eigin fjár af heildarfjármagni og mjög sterka fjárhagsstöðu. Á sama tíma hefur raunverð áburðar lækkað verulega eða líklega um ein 40% og geri aðrir betur því að ofan í kaupið hefur verksmiðjan orðið að taka á sig samdrátt í sölu vegna samdráttar í landbúnaðinum hér innan lands. Þannig að ég segi hið gagnstæða, hæstv. forseti.
    Reynslan, þróunin í Áburðarverksmiðjunni undanfarin ár, er rífandi gott dæmi um það að auðvitað geta góðir stjórnendur tekið á málum og hagrætt í ríkisfyrirtæki eins og annars staðar. Eða Póstur og sími? Bendir rekstur þess fyrirtækis sem hæstv. landbrh. ætti af vissum ástæðum að þekkja vel og við báðir, bendir rekstur þess fyrirtækis undanfarin ár til þess að ríkisformið hái þeirri stofnun? Hvaða sveigjanleiki kemur til sögunnar? Hvað breytist? Staðreyndin er sú að Póstur og sími er eitthvert allra best rekna fyrirtæki, mér liggur við að segja norðan Alpafjalla. Ég held að það sé leitun að öðru eins. Þetta fyrirtæki hefur byggt upp á Íslandi nútímaleg og þróuð fjarskipti í þessu fámenna landi. Í þessu strjálbýla og að mörgu leyti erfiða landi, þá hefur þetta tekist. Þannig að rekstrarhagnaður Pósts og síma er líklega um 1,5 milljarðar kr. á ári núna. ( JGS: Þökk sé ljósleiðaranum.) Hann er nú smámál í þessu skal ég segja þér, hv. þm. Og m.a. er það nú þannig að Póstur og sími gæti lagt ljósleiðarann fyrir núverandi rekstrarhagnað líklega á svona tveim til þrem árum. Þannig að það er alveg óþarfi að rugla því máli inn í þetta. Mér finnst það einhver minnimáttarkennd af því að Póstur og sími fékk einhverja peninga vegna þjónustu við Kanann inn á þennan ljósleiðara, borgaða sem fyrirframleigu, að það dragi eitthvað úr annars ágæti stofnunarinnar. Það er ekki svo. ( Landbrh.: Það spillir heldur ekki fyrir.) Það spillir auðvitað ekki fyrir, nei, nei, peningar eru auðvitað peningar hvaðan sem þeir koma eins og kunnugt er. En staðreyndin er sú að það hefði ekkert staðið í þessari ágætu stofnun að sinna því verkefni fremur en öðrum. Þetta er auðvitað þannig, hæstv. forseti, þegar maður fer að hugsa um þetta mál, þvílíkt rugl sem veður uppi í sambandi við þetta mál og þessi mál almennt, þessa umræðu um einkavæðingu fyrirtækja, að ég er orðinn alveg hundleiður á því, með leyfi hæstv. forseta, að hlusta á órökstudda þvælu af þessu tagi út í loftið. Auðvitað er það oft þannig að það er hið ágætasta mál að breyta ríkisfyrirtækjum. Ég hef margoft sagt það bæði hér og annars staðar að ég tel t.d. að breytingin, svo dæmi séu tekin á Gutenberg, Ferðaskrifstofu ríkisins sálugu yfir í Ferðaskrifstofu Íslands og þróun þeirra fyrirtækja í skynsamlegum skrefum yfir í einkaform hafi tekist eftir atvikum ágætlega. Sjálfsagt mætti nefna fleiri dæmi, t.d. Jarðboranir ríkisins og Reykjavíkurborgar sem hafa verið svona má segja þar sem eignarforminu hefur verið breytt í áföngum. En á hinn bóginn er það ekki þannig að þó eitthvað takist vel í þessu og þetta geti átt við sums staðar að það geri það alls staðar. Það er auðvitað það sem er að hér, það er að klisjusmiðirnir birta sinn staðlaða texta alveg án tillits til aðstæðna og hafa svo hæstv. landbrh. í það að flytja þessi ósköp hér.
    Það er nefnilega þannig að það gegnir allt öðru máli um þá stöðu sem Áburðarverksmiðja ríkisins er í núna heldur en til að mynda fyrirtæki eins og Ferðaskrifstofa Íslands eða Gutenberg eða einhver önnur slík. Þetta er í fyrsta lagi mikilvægasta efnaiðnaðarfyrirtæki Íslendinga. Og auðvitað verða menn að gæta sín þegar þeir eru með í höndunum fyrirtæki af þessu mikilvægi. Þetta er stærsta og mikilvægasta og verðmætasta efnaiðnaðarfyrirtæki landsmanna. Þetta er fyrirtæki sem sparar þjóðarbúinu gífurlegan gjaldeyri, þetta er fyrirtæki sem munar um í orkunotkun landsmanna og ætli henni Landsvirkjun blessaðri veiti af krónunum, m.a. frá Áburðarverksmiðjunni. Nóg er víst umframorkan samt úr Blöndu þó það bættist ekki við að Áburðarverksmiðjan mundi hrynja hér á nokkrum árum og þar bættist við ónotuð orka sem því næmi. En menn verða að horfast í augu við að það gæti gerst vegna þess að menn sömdu þetta af sér í samningunum um EES. Af einhverjum ástæðum var ekki hægt að fá undanþágu fyrir þessa starfsemi þótt það væri hægt að troða inn undanþágu eða heimildum vegna Reykvískrar húsatryggingar eða eitthvað því um líkt af því þar voru einhverjir tilteknir menn á vaktinni. En hæstv. landbrh. hefur greinilega ekki tommað inn með Áburðarverksmiðju ríkisins. Því auðvitað hefðum við þurft að fá undanþágu ef vel ætti að vera til að verja þetta mikilvæga efnaiðnaðarfyrirtæki. Við gátum m.a. vísað til þess að áburðarframleiðslan hér væri hluti af tilvist sjálfstætt rekins landbúnaðar í landinu. Nú er það eins og kunnugt er þannig að landbúnaðurinn, þ.e. landbúnaðarstefnan í grófum dráttum, var utan við samninginn um EES og ég tel að það hafi verið meiri og minni bjálfagangur að reyna ekki einhvern veginn þannig að ná þessu þannig fram og slys að það ekki tókst. En þetta gerist þannig að það er allt í einu ákveðið að henda út öllum fyrirvörum eins og kunnugt er og eftir sitja menn með öryggisákvæði sem þarna er meingallað. Ef þannig færi að þetta EES-svæði yrði skammlífara en til stóð í upphafi, eins og reyndar hefur oft verið haldið fram, þá væri auðvitað grátlegt að geta ekki einhvern veginn náð þessu í land með Áburðarverksmiðjunni. Og ég vil segja eitt við hæstv. landbrh., af því að hann er að þröngva áfarm þessu máli hér sem mér þykir miður. Ég held að það sé alveg ákaflega óheppilegt, hæstv. landbrh., að reyna ekki að ná einhverri samstöðu um málefni þessa fyrirtækis á þessum viðkvæma tíma sem það er að ganga í gegnum. Það er mjög óheppilegt að vera að knýja þetta hér áfram í svona ágreiningi. Ég vil þar til að mynda nefna eitt atriði sérstaklega sem ég tel að hefði verið útlátalaust og meira en útlátalaust fyrir hæstv. ríkisstjórn að koma með og það er stjórnarform fyrirtækisins ef því yrði breytt í hlutafélag. Nú er ég ekki að segja að þar með væri ég að mæla með því en ég hefði fyrir mitt leyti gert talsvert með það og svo held ég að sé um marga fleiri ef hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin hefði til samkomulags um þetta mál boðið upp á það að yfir fyrirtækinu yrði áfram þingkjörin stjórn þannig að fulltrúar allra flokka hér á þingi sem til þess hefðu þá þingstyrk gætu átt aðild að stjórn fyrirtækisins. Væri það nú ekki skynsamlegra og væri það ekki gæfulegra fyrir Áburðarverksmiðjuna gagnvart þeim erfiðu tímum sem hún getur átt fram undan að hafa bakstuðning af þingkjörinni stjórn með fulltrúum allra flokka í? Ég held það. Út af fyrir sig getur vel verið að hæstv. landbrh. muni finna einhvers staðar fimm nothæfa sjálfstæðismenn til að setja í stjórn hlutafélagsins, ef það verður stofnað, sem hann svo fer að handvelja í. En ég leyfi mér að fullyrða að það væri betra veganesti fyrir fyrirtækið inn í framtíðina að búa við þann bakstuðning sem þingkjörin stjórn með fulltrúum allra flokka gæti verið því. Það er auðvitað mjög slæmt, hæstv. forseti, að vera að þröngva máli af þessu tagi áfram hér í ágreiningi.
    Nú er það svo, hæstv. forseti, að það er ekkert gaman í sjálfu sér að standa hér í deilum um mál

af þessu tagi vegna þess að maður veit að fyrir fyrirtækið og starfsfólk þess og stjórnendur er þetta óþægilegt. Þar eru menn orðnir svo mæddir og þreyttir á þessu að þeir segja: Í guðs bænum bara klárið þið þetta einhvern veginn, við erum orðin svo leið á að hafa þetta svona hangandi yfir okkur í óvissu. Við erum orðin svo leið á að hafa þetta svona hangandi yfir okkur í óvissu. Það er sjónarmið sem maður skilur alveg fullkomlega. En það breytir ekki hinu að maður hlýtur að flytja mál sitt hér gagnvart alvörumáli af þessu tagi og þessari stærðargráðu. Við munum eftir því að við erum að tala hér um yfir hundrað manna vinnustað og hefur þó reyndar fækkað þar mikið síðustu árin. Við erum að tala um í reynd útflutningstekjur svo nemur hátt í milljarði króna því það er auðvitað það sem Áburðarverksmiðjan er. Hún er útflutningsfyrirtæki upp á milljarð vegna þess að ef við ættum hana ekki þá þyrftum við annaðhvort að leggja niður landbúnaðinn eða flytja inn vörur sem þessu næmi. Þar með er Áburðarverksmiðjan auðvitað útflutningsfyrirtæki og á að meðhöndlast sem slík. Staðreyndin er sú að það er alveg til skammar ræktarleysið sem við höfum sýnt þeim fyrirtækjum af þessu tagi sem eru gulls ígildi fyrir okkar þjóðarbúskap. Menn hafa mikla tilhneigingu til að mæna á útflutningstölurnar og ekki er verið að draga úr því hér, þær eru mikilvægar. En gleymum ekki hinu að við erum með í höndunum borðleggjandi dæmi af þessu tagi þar sem verður til hátt í milljarður gjörsamlega sprottinn upp úr innlendri verðmætasköpum því aðföng verksmiðjunnar eru tiltölulega lítil eins og kunnugt er, fyrirtækið að mestu leyti afskrifað og notar innlenda orku. Því eins og þeir vita sem þekkja framleiðsluferlið þá er þetta nokkuð sérstök framleiðsla sem þarna á sér stað þar sem í raun og veru er búinn til áburður úr innlendri orku og loftinu. Ég held að hæstv. landbrh. gerði nú slag í því af því að málið er hér ekki nema til 2. umr. enn þá að brjóta odd af oflæti sínu og taka upp viðræður við menn um þetta mál. Gáfulegast væri náttúrlega hjá hæstv. ráðherra að óska eftir því að forseti frestaði þessari umræðu. ( Gripið fram í: Draga hana bara til baka.) Menn drægju bara málið til baka, já, eða þá settust a.m.k. niður yfir það og reyndu að breyta því. Ég fullyrði að það má halda því fram með ekki síður þungum rökum heldur en hinu að þeir sem eru að baka verksmiðjunni ógagn um þessar mundir séu ekki stjórnarandstæðingar hér sem vilja efnislega umfjöllun um þetta mál heldur hæstv. ráðherra sem er í ágreiningi, bullandi ágreiningi, að knýja fram þessar vafasömu breytingar. Það er ekki gott veganesti fyrir þetta fyrirtæki inn í framtíðina, óvissa framtíð sem það stendur frammi fyrir. Það er slæmt og væri miklum mun best fyrir okkur öll og líka fyrir fyrirtækið ef við gætum sest niður, náð samkomulagi um meðferð málsins og afgreitt það hér á þessu þingi því það er vont að láta þetta þvælast svona fyrir. Það er betri kostur en ráðast út í illa undirbúnar og vanhugsaðar breytingar og gallaðar að forminu til eins og þessi er, m.a. vegna þess að ég held að það sé afar ógæfulegt að gera þessa breytingu á stjórnarformi fyrirtækisins eins og ég hef hér farið yfir.
    Það kemur fram í nál. minni hluta landbn., á þskj. 946, að í raun og veru er það þannig að að öllu leyti nema einu er staða Áburðarverksmiðjunnar góð í dag, að öllu leyti nema einu. Reksturinn gengur vel, það hefur verið hagrætt mikið í fyrirtækinu, fjárhagur þess hefur verið að styrkjast og þarna eru greinilega á ferðinni menn sem halda um stjórnvölinn sem kunna með hann að fara og hafa gert þarna góða hluti undanfarin ár. Það er ekki nokkur vafi á því. Manni hefur að vísu þótt sárt á köflum að sjá þá miklu fækkun starfsmanna sem þarna hefur orðið en auðvitað þýðir ekki annað en horfast í augu við það að tæknivæðing og breytt þróun, að nokkru leyti samdráttur í áburðarsölu, hefur kallað á það og óhjákvæmilegt að því væri mætt. En fyrirtækið stendur sem sagt vel og þetta lítur vel út og er í góðu lagi að öllu leyti nema þessu eina að það skellur yfir fyrirtækið óheft samkeppni við innflutta vöru sem afleiðing af EES-samningnum núna 1. jan. 1995. Og það er hætta á því, veruleg hætta á því, að Áburðarverksmiðjan missi einhverja markaðshlutdeild. Hún er nánast berskjölduð fyrir því t.d. ef einhver stór og sterkur aðili, segjum Norsk Hydro, risi á þessum markaði, ákveður að hirða íslenska markaðinn og gerir það með því að koma með hagstætt áburðarverð í nokkur ár. Ná 20--30% markaðshlutdeild, 40% af Áburðarverksmiðjunni og þá er sá rekstur orðinn svo erfiður og óhagkvæmur að hann mundi ekki ganga. Hún þarf nánast á allri sinni markaðshlutdeild að halda til þess að skila þeim árangri í rekstri sem hér er á ferðinni. Aðstæður eru þannig í þessari grein víða úti í löndum að framleiðslan hefur verið að færast saman víðast hvar í mjög stórar einingar þar sem hagkvæmnin er mikil og lágt orkuverð í heiminum á síðustu árum, í raun og veru allt frá síðustu olíukreppu, hefur gert það að verkum að samkeppnin við þessa framleiðslu erlendis verður mjög erfið.
    Ég er þó þeirrar skoðunar að ef rétt væri að málum staðið þá væri hægt að nýta styrk þessa fyrirtækis með góðum bakstuðningi til þess að verja íslenska markaðinn og auðvitað á það að vera keppikefli. Þannig að ef hér væri á ferðinni frv. frá hæstv. ríkisstjórn sem samstaða hefði tekist um við stjórnarandstöðuna um aðgerðir til þess að styrkja verksmiðjuna beinlínis gagnvart því sem fram undan er þá væri þarna ólíku til að dreifa. En það er ekki. Þvert á móti tel ég að hægt sé að sýna fram á það að í raun og veru veiki þessi aðgerð fyrirtækið og kannski aðallega af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að það að velja henni stjórn með þessum hætti er óskynsamlegt og veldur ágreiningi um málefni hennar en einnig vegna þess að ég óttast það að um leið og þetta fyrirtæki er orðið hlutafélag --- og ég tala nú ekki um ef hæstv. fjmrh. snýr svo upp á hendurnar á hæstv. landbrh. og fer að selja eitthvað af þessu eða hálfgefa það í burtu --- þá muni traust fyrirtækisins minnka. Því auðvitað er það þannig að ríkisfyrirtæki nýtur þess í lánskjörum og með ýmsum öðrum hætti að eigandinn og sá sem bak við það stendur er ríki, er fjárhagslega sterkt ríki sem við eftir atvikum getum víst talist enn þá Íslendingar, a.m.k. flokkumst við enn þá

svona þokkalega á erlendum lántökumörkuðum. Það er alveg viðurkennt, það vita allir að slíkir aðilar búa við hagstæðari lánskjör. Ef það gerist á næstu árum að Áburðarverksmiðjan þarf á því að halda að ráðast í einhverjar aðgerðir, fjárfestingar eða breytingar eða eitthvað til að búa sig undir harðnandi samkeppni þá er jafnvel verið að vísa henni inn í það að þau kjör geti orðið óhagstæðari en þau yrði í dag á meðan eigandinn er ríkið og ríkisábyrgðin er bein á bak við fyrirtækið, þ.e. ekki takmörkuð við hlutafjárábyrgðina eða hlutafé sem tryggingu í fyrstu umferð. En það er ekki verið að kanna þetta, þetta er ekki mergurinn málsins hér, það er ekki þetta sem er á ferðinni.
    Ef t.d. ríkisstjórnin hefði verið svo kröftug og myndarleg að hún hefði samið um það við stjórnarandstöðuna að breyta þessu að vísu í hlutafélag sem ég er ekki að útiloka að við hefðum getað staðið að ef rétt hefði verið að því staðið. Það hefði jafnframt verið ákveðið og um það samkomulag að ríkið yrði áfram eigandi fyrirtækisins. Það hefði í þriðja lagi verið ákveðið að hafa yfir því þingkjörna stjórn og það hefði í fjórða lagi verið ákveðið að setja t.d. 500 millj. kr. inn í fyrirtækið í auknu hlutafé á nokkrum árum, sem að vísu fyrirtækið þarf ekki á að halda í dag vegna núverandi rekstrar, en þessi aðili hefði e.t.v. getað notað til fjárfestinga til að fara út í fjölbreyttari framleiðslu þannig að menn hefðu stefnt að því að eiga þarna öflugt efnaiðnaðarfyrirtæki sem hefði kraft til þess að nýta sér jafnvel fleiri möguleika en það gerir í dag og hefði til að mynda þannig getað mætt samdrætti í áburðarsölu, ef slíkt kæmi til, með því að færa út kvíarnar í annarri starfsemi, annarri framleiðslu. Fyrir einhverjum slíkum aðgerðum sem væru einhverjar samstæðar aðgerðir gætu verið rök. Ég ætla síður en svo að útiloka það að a.m.k. við þingmenn Alþb. hefðum getað tekið þátt í því að skoða slíkar aðgerðir ef þær hefðu verið í einhverju slíku samhengi. En eins og þetta er hér fram borið þá er því miður ekki nokkur leið að standa að því. Það er ekki hægt. Því þarna er í raun og veru verið að fara aftur á bak í flestum greinum. Nema að þessu eina leyti til ef menn taka þá yfirleitt eitthvert mark á því að hlutafélag sem slíkt sé á einhvern hátt af því bara betur í stakk búið til að glíma við verkefni. Órökstutt. Af því bara, það er svona. Það eru bara ekki rök í málinu þó að einhver fimm manna einkavæðingarhópur semji svona klisjutexta sem hæstv. landbrh. er píndur hér til að flytja. Þvílík ósköp.
    Svo er það þannig, hæstv. forseti, að það er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá því að þetta mál er náttúrlega í samhengi við framgöngu hæstv. ríkisstjórnar í þessum einkavæðingarmálum. ( Gripið fram í: SR.) SR er hér sagt úti í salnum, skáhallt á hægri hönd. Það er auðvitað alveg rétt. Það þýðir ekkert annað en að fara yfir þessa hluti eins og þeir eru. Þessari ríkisstjórn er ekki treystandi fyrir nokkrum hlut, allra síst því . . .   ( ÓÞÞ: Allra síst eigum ríkisins.) allra síst eigum ríkisins, hárrétt, hv. þm. Það hefur rækilega sannast. Því er klúðrað svoleiðis með endemum. Þær meira og minna gefnar og afhentar á silfurfati út og suður enda er þessi ríkisstjórn með þeim endemum samansett að í henni er m.a. hæstv. fjmrh. sem gamnaði sér við það á einhverjum fundi úti í bæ að velta vöngum yfir því að selja Búnaðarbankann á hálfvirði, bara svona af því bara. Hann vildi losna við Búnaðarbankann og þess vegna á hálfvirði heldur en að vera að sitja uppi með hann. Hugsunarháttur af þessu tagi veit náttúrlega ekki á gott.
    Ég hef sagt það áður að ég tel verðþáttinn í SR-málinu ekki vera stærsta ágreiningsefnið. Orð mín voru að vísu rangtúlkuð þannig að þar með væri ég að segja að það skipti ekki máli hvað hefði fengist fyrir fyrirtækið og auðvitað er það ekki svo. Það skiptir jú máli. Það er margt sem bendir til þess og flest reyndar að það hafi verið allt of lágt verð. Ég held að langljótasti þáttur þess máls sé málsmeðferðin, sé hvernig ríkisstjórnin stóð að því og öllu sem í kringum það var, þessi brunaútsöluhugsunarháttur að drífa þetta af á fáeinum sólarhringum. Maður spyr náttúrlega: Yrði farið eins með Áburðarverksmiðju ríkisins? Yrði hún bara afhent einhverjum á silfurfati? Mundi fjmrh. rjúka upp frá skötunni á næstu Þorláksmessu og taka sér kortér í að pína landbrh. til að láta verksmiðjuna fara á spottprís? Auðvitað gætu ýmsir haft áhuga á þessari verksmiðju, það er ljóst. Þar á meðal útlendingar. Þarna er verðmæt lóð, þarna eru mikil húsakynni. Það getur margt fleira hangið á spýtunni heldur en það eitt að reka þarna áburðarverksmiðju. T.d. það að hirða markaðinn og leggja hann undir einhvern stóran hring sem er að framleiða milljónir tonna af áburði kannski í einni ,,fabrikku``.
    Hér er sagt í 1. gr. að hæstv. landbrh. skipi nefnd. Nú er það ekki fjmrh. lengur. Nei, nú á hæstv. landbrh. að spreyta sig og þá væntanlega að prófa hvort honum tekst betur en sjútvrh. eða fjmrh. Og landbrh. á að skipa nefnd til að selja fyrirtækið. Sami hæstv. ráðherrann og á svo síðan að handvelja stjórnina þegar búið er að gera þetta að hlutafélagi. Ég held að þetta séu gjörsamlega alveg ótæk vinnubrögð.
    Hvað segir hv. 2. þm. Norðurl. v. sem á sæti í yfirskoðunarnefnd ríkisreikninga? Finnst honum þetta vera skynsamleg vinnubrögð við þetta? ( PJ: Reikningurinn er ekki kominn.) Það er rétt, reikningurinn er ekki kominn og guð forði okkur frá því að sjá nokkurn tíma þann ríkisreikning sem opinberar það hvernig Áburðarverksmiðjan var seld ef svo skyldi fara. En er það virkilega gáfulegt að fara þannig með eignir ríkisins að ráðherrarnir séu út og suður hver fyrir sig í sínu horni að skipa einhverja menn í þetta? Af hverju er þetta ekki gert á einhverjum faglegum grundvelli? Af hverju er t.d. ekki einhverjum aðila sem ríkið hefur þá á sínum vegum falið að gera þetta undir eftirliti t.d. fjárln.? Af hverju er hv. fjárln. að sitja yfir því daginn út og daginn inn frá því í september og fram að jólum að velta vöngum yfir 50 þúsundum hér og 100 þúsundum þar? En svo er bara eignum ríkisins, milljarða verðmætum, sullað út í einhverjum nefndum sem ráðherrarnir handvelja og látið ráðast hvort eitthvað fæst fyrir fyrirtækið. Þetta eru auðvitað alveg gjörsamlega ómöguleg vinnubrögð.

    Þess vegna er það, hæstv. forseti, að eftir það sem á undan er gengið í ljósi frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum og í ljósi þess hvernig um þetta er búið í 1., 3. og 6. gr. frv., einkum og sér í lagi, þá er ekki nokkur leið að standa svona að þessu. Það er ekki hægt. Í 3. gr. er þetta þannig að landbrh., það er ekki fjmrh. sem fer þarna með eignir ríkisins, það er hæstv. landbrh. Honum er heimilt að selja öll hlutabréf í félaginu eða hluta þeirra. Honum er selt algjört sjálfdæmi í því hvernig hann fer með þessa eign. Það er engin stjórn sett yfir fyrirtækið fyrir utan þá sem landbrh. sjálfur handvelur og þetta er allt á einni hendi. Ég tel þetta alveg gjörsamlega óásættanlegt. Hvar er metnaður hv. þm. fjárln. að láta fara svona með sig? Hvernig nennir það lið, hæstv. forseti, það má víst ekki taka svona til orða, hvernig nenna hv. þm. í fjárln. að vera að sitja þar yfir verkum og horfa svo upp á svona meðferð á eignum ríkisins? Svona valdaframsal? Að hæstv. ráðherra fái bara sjálfdæmi um það hvernig þeir ráðstafa milljarða verðmætum. Ég verð að segja alveg eins og er ég er gjörsamlega gáttaður á þessu. Auðvitað er það þannig að ef það ætti að fá einhvern botn í þessi mál þá ætti að fresta núna öllum þessum einkavæðingarmálum. Þau eru öll meira og minna í klúðri og hafa öll verið í klúðri og það á að gera tvennt. Það á í fyrsta lagi, og það er mikilvægast alls, að taka upp viðræður við heildarsamtök þess starfsfólks sem á í hlut, opinberra starfsmanna einkum og sér í lagi, og ná samningum þar um það hvernig með málefni starfsmannanna skuli farið. Það á að byrja á því og það átti auðvitað alltaf að byrja á því að ganga frá þeim málum. En að vera með þetta í bullandi málaferlum og látum eins og hér hefur orðið afleiðingin t.d. af því að svipta fólk, í hverju frv. á fætur öðru með lagaákvæðum, þeim réttindum sem það nýtur samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem er auðvitað ekki hægt og er della og dómstólar munu dæma ómerkt. Því það eru þau lög sem tryggja fólki þessi réttindi.
    Þetta átti að gera, hæstv. forseti, og á að gera. Það á að fresta þessum málum öllum og fara í þessar viðræður. Nú er það svo að það er upplýst að samtök opinberra starfsmanna eru búin að ná í gang viðræðum við fjmrn. og það var heilmikið átak að sögn og tók marga mánuði að snúa þá í gang í fjmrn., þeir voru gjörsamlega rafmagnslausir. Nú eru þó loksins komnar í gang viðræður þannig að það hillir undir það að t.d. í haust gætu menn staðið upp frá borðinu með heildarsamkomulag um það við starfsmenn hvernig farið yrði með biðlauna- og eftirlaunarétt, hvernig farið yrði með aðild þessara hópa að stéttarfélögum þó að fyrirtækin breyttu um eignarform og eignaraðila, gætu þess vegna verið komin inn í Vinnuveitendasambandið og verið farin að borga þangað eftir einhverja stund og reyndar er fróðlegt að spyrja hæstv. landbrh. að því í leiðinni hvort hann sé kannski farinn að láta Áburðarverksmiðjuna borga til Vinnuveitendasambandsins. Ég fékk þær fréttir í gærkvöldi sem ég hafði ekki heyrt áður að Póstur og sími væri kominn í þann klúbb og farinn að borga þangað iðgjöld og munar sennilega um minna. Er þetta að gerast svona hægt og hljótt úti í ríkiskerfinu að það sé farið að láta þessi félög allra landsmanna borga iðgjöld í ýmsar áttir? Það væri fróðlegt að fá svar við því, hæstv. forseti. --- Ég vek athygli forseta á því að ég legg þessa spurningu fyrir hæstv. landbrh. hvort Áburðarverksmiðjan sé komin í þennan hóp.
    Nei, þetta er náttúrlega svona, hæstv. forseti, og hitt sem hefði svo átt að gera og þarf að gera er að það á að setja nefnd í það í sumar að semja lög, gera drög að frv. um meðferð eigna ríkisins í svona tilvikum, hvort sem menn kalla það sölu eigna ríkisins eða eitthvað annað af því tagi. Það er bersýnilega alveg óhjákvæmilegt að Alþingi setji lög, ramma utan um það hvernig með þessi mál sé farið þannig að þvílík ósköp endurtaki sig ekki eins og málsmeðferðin í kringum SR. Ég sé enga aðra leið en að gera það með lögum. Ef metnaðarleysi manna er þvílíkt hér, t.d. þeirra sem standa að ríkisstjórninni eða fulltrúar stjórnarflokkanna í fjárln. eru svo metnaðarlitlir að þeir láta svona yfir sig ganga trekk í trekk þá er engin önnur leið eftir held ég til þess að verja sig fyrir þessu en sú að reyna að setja tiltölulega ítarleg lagaákvæði um þetta atriði. Setja það í lög hvernig, ef til þess kemur að um er að ræða sölu á einhverjum eignum ríkisins, hvernig þær eru metnar, nákvæmlega hvernig að því er staðið, hverjir fara með það verkefni, í samráði við hverja, hvernig er háttað samskiptum þeirra sem annast þetta fyrir hönd framkvæmdarvaldsins við til að mynda fjárln. og Alþingi eða á þar bara að ríkja sambandsleysi og það vera undir duttlungum komið hvort til að mynda yfir höfuð er talað við Alþingi um það hvernig með þessi mál er farið.
    Ég held að Alþingi geti ekki staðið svona að þessu að afgreiða frá sér galopnar heimildir um að það megi selja milljarða verðmæti ríkisins og setja það á einu bretti allt í hendur eins ráðherra og selja honum algjört alræðisvald í þeim efnum, um verðið, um framkvæmdina, ( ÓÞÞ: Um hendurnar.) um það hver kaupir og hvernig og svo framvegis og svo framvegis. Þetta er þannig að ef menn gera þetta svona þá gæti hæstv. ráðherra þess vegna selt Áburðarverksmiðjuna daginn eftir á eina krónu, bara einhverjum kunningja sínum með því að vera að skipta. Það er þannig. Þetta er gjörsamlega galopið. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Það er auðvitað alveg ljóst eins og þetta er allt saman orðað þó að þarna sé talað um einhverja nefnd þá er það auðvitað allt saman meira og minna loppið því hæstv. ráðherra hefur þetta allt saman í höndum sínum. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er það ráðherrann en það er svona til málamynda sett í textann að ráðherra eigi að búa til einhverja nefnd en hann ræður hverjir eru í henni, hve margir, hvernig erindisbréf hennar hljóðar og hvað hún í raun og veru gerir. Hann getur sett hana af ef hún gerir eitthvað sem honum líkar ekki, þá bara hendir hann henni o.s.frv. Þetta er auðvitað alveg gjörsamlega ótækt, hæstv. forseti.
    Enn verður líka að minna á það og ítreka það að þessi aðferð sem hæstv. ríkisstjórn hefur ástundað gagnvart réttindum og samskiptunum við starfsfólk og starfsmenn er alveg óþolandi, gjörsamlega hreint.

Ég skil í raun og veru ekki þessa þráhyggju eða nauðhyggju í hæstv. ríkisstjórn að nudda hér með hvert málið á fætur öðru í þessu sama fari í gegnum þingið með harmkvælum, illindum og látum í staðinn fyrir að reyna að einfalda sér þá verkin og ná í eitt skipti fyrir öll utan um þessi mál og auðvitað helst með samkomulagi við samtök starfsmanna. Ætli það væri ekki þannig að hæstv. ríkisstjórn hefði þá frekar orðið eitthvað ágengt af viti í þessum málum ef hún hefði byrjað á því að taka fyrsta árið í að undirbúa þetta verkefni, þessar þá einkavæðingar eða breytingar sem hún hugðist gera með svona aðgerðum, með viðræðum við starfsmenn og þess vegna með lagasetningu um það hvernig í þetta yrði farið. Það má segja til að mynda breskum íhaldsmönnum til hróss, þó að sá sem hér talar hafi kannski ekki beinlínis verið í hópi aðdáenda þeirra, frú Margrétar Thatcher & Co., eitt skal þó tekið fram og þar skal frú Thatcher og hennar lið njóta sannmælis að Bretar gerðu margvíslegar ráðstafanir m.a. í löggjöf til undirbúnings einkavæðingunni. Þeir voru þó sem þessu nemur þroskaðri heldur en hæstv. ríkisstjórn á Íslandi. Til að mynda voru unnin í Bretlandi og afgreidd tvö mjög viðamikil lagafrumvörp sem tengdust beinlínis breytingunum. Það voru bresku samkeppnislögin og bresku viðskiptahindrunarlögin, sem ég kýs að þýða svo, það sem heitir á enskunni Fair Trading Act og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gæti kannski þýtt fyrir okkur því hann hefur gefið út bækur um þessa hluti eins og kunnugt er. ( EKJ: Ekki á ensku.) Nei, á íslensku náttúrlega.
    Þetta gerðu þeir og segja þó eftir 10--15 ára reynslu á þessu sviði að þeir hafi gert mörg mistök og ofstækið hafi hlaupið með þá í gönur á köflum. Einn af talsmönnum breska Íhaldsflokksins sagði þetta í ágætri ræðu sem hann hélt á Íslandi fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég hefði gaman að sjá einhvern tímann sambærilega hreinskilni hjá íslenskum einkavæðingarmönnum. Það hefur alla vega ekki bólað á henni enn þá og hefði þó verið ástæða til fyrir þá að iðrast mistaka sinna, t.d. í sambandi við SR. Auðvitað er það þannig þegar maður lítur til baka og horfir t.d. yfir hremmingarnar sem menn hafa lent í með Bifreiðaskoðun Íslands hf. og SR að það er með ólíkindum að menn skuli ekki vera hættir þessu. Að menn skuli ekki vera búnir að átta sig á því að þeir ættu betur að hætta þessu í bili og reyna að átta sig og hugsa sinn gang áður en þeir halda áfram að nudda með þetta. En það er sem sagt ekki nóg fyrir menn að hafa einkavætt einokunarfyrirtækið Bifreiðaskoðun ríkisins með þeim glæsilega árangri auðvitað að verðið hækkaði upp úr öllu valdi og það var lagt í hundruð milljóna króna fjárfestingar sem kúnninn getur ekkert annað en borgað því ef hann mætir ekki til leiks þá sækir lögreglan hann og færir hann. Það eru viðskiptahættirnir þar. Það er náttúrlega ekki nema von að menn geri það sæmilega gott í svoleiðis bisness.
    Nei, hæstv. forseti, þetta er náttúrlega dæmalaust að menn skuli þurfa að vera að eyða tíma sínum á Alþingi í svona málatilbúnað eins og þennan sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn. Það er dapurlegt.
    Að lokum, hæstv. forseti, ítreka ég í fyrsta lagi spurningar mínar til hæstv. ráðherra um þetta efni og í öðru lagi þá ósk mína að hæstv. ráðherra velti því fyrir sér alvarlega og vandlega, helst núna í þessari umræðu og ætti náttúrlega að óska eftir því að henni yrði frestað en ef ekki þá á milli 2. og 3. umr., hvort hann er tilbúinn til þess að menn setjist aftur niður yfir málið og kanni það hvort einhver samkomulagsflötur getur orðið um afgreiðslu þess. Hæstv. fjmrh. náði þó að litlu leyti áttum í sambandi við Lyfjaverslun ríkisins og féllst á þau rök og þann málflutning sem uppi var m.a. í efh.- og viðskn. Eins og hann hugðist í upphafi standa að breytingum á því fyrirtæki þá væri það ekki gæfulegt og afleiðingin var sú að það var ákveðið að það yrði a.m.k. ekki seldur meiri en helmingur af fyrirtækinu í byrjun og ef lengra ætti að halda síðar þá mundi málið koma aftur fyrir Alþingi. Jafnframt varð samkomulag um tiltekna vinnu sem mundi tengjast breytingum fyrirtækisins og farið yrði í sem lýtur að ýmsum viðkvæmum þáttum sem tengjast tilvist þess fyrirtækis. Er hæstv. landbrh. tilbúinn til að fylgja þessu fordæmi hæstv. fjmrh. og opna á að það verði a.m.k. leitað eftir samkomulagi um einhverjar breytingar á þessu máli?
    Og ef það mætti verða til samkomulags, sem ég mun ekki útiloka að gæti orðið, að gerðar yrðu þær tvær breytingar á málinu að í fyrsta lagi yrði þingkjörin stjórn sett inn í frv. og í öðru lagi yrði ákveðið að ríkið mundi ekki án sérstakrar heimildar Alþingis selja meira en allt að helminginn af hlutafénu. Ég segi fyrir mitt leyti, það má kallast tilboð af minni hálfu til hæstv. ráðherra, að ég vil setjast niður og skoða svona breytingu og fara rækilega í gegnum það og ræða það m.a. í mínum flokki hvort við gætum hugsanlega staðið að því til samkomulags þó það sé mér ekkert keppikefli og ekki nema síður sé að vera yfir höfuð að hrófla við þessu fyrirtæki við þessar aðstæður. Finnst hæstv. landbrh. það skynsamlegt að hlusta ekki einu sinni á svona lagað? --- Ég vona að hæstv. ráðherra sé ekki svo upptekinn að lesa Dagblaðið að hann heyri ekki það sem ég er að segja og svari því svo. Sennilega er leiðarinn svona góður hjá Jónasi Kristjánssyni, og er sjálfsagt um landbúnaðinn, að hæstv. ráðherra er alveg negldur niður í Dagblaðið.
    Nei, hæstv. forseti. Það getur svo sem vel verið að það sé þannig núna þegar klukkan er að ganga fimm á þessum ágæta laugardegi og ekki er orðið ýkja margt eftir á staðnum, greinilega talsvert úthaldsleysi í mönnum, að það sé meira og minna tilgangslaust að vera að reyna að ræða um þetta mál með einhverjum rökum. En ég geri það nú samt og hvort sem hæstv. ráðherra heyrir eitt einasta orð sem við hann er sagt sökum áhuga síns á Dagblaðinu eða ekki þá fer það a.m.k. í þingtíðindin að við í stjórnarandstöðunni, a.m.k. við í Alþb., hefðum viljað fá tækifæri til þess að reyna að ná einhverju samkomulagi og einhverri vitlegri niðurstöðu í þetta mál. Við hefðum viljað það.
    Mér finnst það satt best að segja, hæstv. forseti, ég má ekki segja það sem var komið fram á varir mínar, mjög hart ef ekki er hægt að fá a.m.k. í gang einhver samtöl um afgreiðslu á máli af þessu tagi undir þinglokin þegar menn ættu að reyna að sýna einhvern samkomulags- og sáttavilja í báðar áttir. Mjög

hart. Hæstv. ríkisstjórn er svo heillum horfin að hún heimtar afgreiðslu á hverju málinu á fætur öðru á ótæku formi þannig að það hefur ekki getað náðst nokkurt samkomulag auðvitað um þinglokin við þær aðstæður því það er ekki hægt að ætla mönnum það og bjóða mönnum það að láta hvað eina vitleysu sem er yfir sig ganga bara vegna þess að það sé tímaskortur og Alþingi verði að fara að komast heim. Ég segi: Alþingi verður að ljúka störfum sínum með sómasamlegum hætti. Kosti það hvað vill. Kosti það að við verðum einhverja daga í viðbót, ekki er það mér að vanbúnaði. Ég tel að vísu að ef við þurfum mjög marga daga í viðbót þá ættum við að gera hlé á fundum Alþingis fram yfir sveitarstjórnarkosningar til þess að það fólk sem í þeirri baráttu stendur fái vinnufrið í þeim kosningum. En við getum hist aftur í júní, það er alveg sjálfsagt mál að koma hér aftur í júní og halda áfram að ræða þetta við hæstv. landbrh. Ég var hér til 21. júní 1985, ég man það vel, þegar við vorum á Jónsmessunni að ræða m.a. um búvörulög og fleira og mér er ekkert að vanbúnaði að gera það aftur ef því er að skipta. Ég hef þann metnað fyrir hönd starfa Alþingis að ég segi þetta: Alþingi getur ekki farið heim nema það ljúki störfum sínum með sómasamlegum hætti og það verður að vera ríkisstjórnarinnar val ef hún vill ekki vera til samkomulags um lagfæringar á nokkrum hlut að störfin dragast hér á langinn. Þannig liggur það.
    Nú er það þannig með hæstv. landbrh. að ýmsum þykir að hann hafi staðið sig bara allsæmilega í embætti. Framan af a.m.k. urðu ýmsir hissa á því að hæstv. landbrh. stóð sig bara nokkuð vel og það er út af fyrir sig saga hvers vegna menn urðu hissa á því. En það er samt þannig og það er auðvitað gott og gleðilegt. Hæstv. ráðherra hefur að mörgu leyti tekist allfarsællega. Ég skal gefa honum þá einkunn að honum hefur að mörgu leyti tekist allsæmilega, sérstaklega framan af. Ég held að það sé ein skýring á því öðrum fremur. Framan af störfum sínum fór hæstv. ráðherra sæmilega gætilega og var eftir atvikum þokkalega samvinnufús og samstarfslipur við menn og svona sigldi í gegnum sína embættisfærslu þannig að hann var ekkert óskaplega hornóttur. Og af því að hæstv. ráðherra var svo heppinn að hafa t.d. til samanburðar í sömu ríkisstjórn hæstv. fyrrv. heilbrrh., sem gjarnan var líkt við fíl í glervörubúð, þá varð þetta að lokum allhagstæður samanburður. ( ÓRG: Að ógleymdum fyrrv. iðnrh.) Að ógleymdum fyrrv. hæstv. iðnrh., núverandi heimsbankastjóra í Finnlandi. Þá var samanburðurinn orðinn enn þá hagstæðari fyrir hæstv. landbrh. þegar hann gat mælt sig saman við þessa tvo starfsbræður sína. ( Gripið fram í: Báðir hættir.) Nú eru þeir að vísu báðir hættir, annar farinn í önnur störf og hinn farinn til útlanda þannig að e.t.v. hefur samanburðurinn aftur versnað hjá hæstv. ráðherra.
    En mér þykir hins vegar, hæstv. forseti, ég verð að segja það, hafa sigið heldur á ógæfuhliðina núna hjá hæstv. landbrh. svona síðustu eitt, tvö missiri að ýmsu leyti. Það er eins og hæstv. ráðherra sé að verða dálítið kantaður aftur og hornóttur og málin eru farin að ganga svona verr í kringum hann. Það er farinn að verða meiri núningur að ýmsu leyti í kringum hans embættisfærslu. Við þetta verður maður talsvert var hér og þar úti í þjóðfélaginu.
    Og því er ég að fara yfir þetta, hæstv. forseti, að mér finnst að hæstv. landbrh. eigi hérna tækifæri sem gæti verið dálítið táknrænt fyrir það hvaða stefnu hann vill taka á síðustu vikunum í embætti sínu sem við vonum að verði, mesta lagi mánuðum. Vill hæstv. ráðherra taka því tilboði sem ég hef komið með um að málið verði sett niður í skoðun? Auðvitað væri gáfulegast að fresta því til haustsins því það verður enginn héraðsbrestur við það og er miklu betra en að afgreiða málið óbreytt. En ef við höfum til þess, sem allt bendir til, einhverja daga, yfir helgina og fram í næstu viku, að skoða þetta mál að við skoðum mögulegar breytingar á því í þá veru sem ég bauð upp á áðan. Það verður fróðlegt að heyra hverju hæstv. ráðherra svarar í þessum efnum. Ég treysti því að hann muni gefa einhver svör eða kom með einhver viðbrögð við þessu og þá segi ég það að mér finnst hæstv. ráðherra eiga þarna pínulítið tækifæri til þess að velja hvora leiðina hann vill fara, ágreinings- og núnings- og átaka- og áflogaleiðina, það er leið fílsins í glervörubúðinni eins og ýmsir hæstv. ráðherrar hafa valið eða svona sigla lygnari sjó og reyna að ná sínu fram að einhverju leyti með góðu, eins og hæstv. ráðherra reyndi pínulítið að gera á fyrstu mánuðum eða missirum í starfi. Hæstv. ráðherra var að vísu svo heppinn að það var búið að búa vel í haginn fyrir hann, hann tók við mjög góðu búi og þurfti lítið að gera, einkum og sér í lagi í landbúnaðarmálunum því þar var búið að ganga frá stefnu til langs tíma þannig að það var auðvitað visst skjól sem hæstv. ráðherra hafði af því. En eftir sem áður stendur það að hæstv. ráðherra að mínu mati lagði sig allþokkalega fram um það að vera eins og venjulegur maður í þessu starfi og sinna því bara af alúð og hógværð og standa ekki í átökum og illindum og ágreiningi um mál umfram það sem tilefni væru til eða óhjákvæmilegt væri eins og ýmsir af kollegum hans í hæstv. ríkisstjórn hafa gert og reyndar ríkisstjórnin meira og minna, svo ekki sé minnst á ósköpin hæstv. forsrh. eins og hann byrjaði hér og frægt varð. Alþingi logaði í deilum í heilan vetur af því að hæstv. forsrh. ætlaði að kenna okkur mannasiði sem höfðum verið hér lengur en hann mörg og flest. En hann hefur gjörbreyst náttúrlega eins og allir sjá, hæstv. forsrh. er orðinn tiltölulega dagfarsprúður í þinginu borið saman við þau ósköp sem fyrst var.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá ekki að hafa þetta lengra að sinni, læt þessa stuttu ræðu mína nægja. Ég vona að hæstv. ráðherra bregðist við og svari því sem ég hef spurt hann um og komi inn á það sem ég hef verið að reifa og það væri fróðlegt að heyra hvort það opnast hér einhver möguleiki á samkomulagi um þetta mál eða a.m.k. hvort tilraun verður gerð til þess, hæstv. ráðherra, liggur mér við að segja, leyfi þinginu að láta á það reyna hvort það geti náð einhverju samkomulagi um þetta mál eða ekki.