Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 16:25:56 (7657)


[16:25]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta var dapurlegt. Fyrstu spurningunni gat hæstv. ráðherra ekki svarað af því að hann vissi ekki hvort fyrirtæki sem undir hann heyrir, stórt og mikið fyrirtæki, væri að borga í Vinnuveitendasambandið eða ekki. Vonandi veit það á að það hafi ekki orðið enn að Áburðarverksmiðjan sé komin í þann klúbb.
    Í öðru lagi er það náttúrlega útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra að stilla þessu upp í einhverja grundvallar pólitíska afstöðu sem hér sé á ferðinni og skipti sköpum í málinu. Það er auðvitað bara eins og hver annar þvættingur. Það kom m.a. fram í þessari ræðu ef hæstv. ráðherra hefði nennt að hlusta á það. Ég var að gera grein fyrir því að við alþýðubandalagsmenn höfum staðið að því að einkavæða fyrirtæki og getum stutt það þegar og þar sem það á við. Þannig að þetta á að fara eftir aðstæðum en ekki einhverjum kreddum, hæstv. ráðherra. Munurinn er sá að íhaldið og einkavæðingarliðið er með kreddurnar. Það segir bara: Alltaf einkavæða. En við segjum: Þar sem það á við og þar sem það er heppilegt á að gera það en ekki annars staðar. Hér er á ferðinni starfsemi sem orkar tvímælis að breyta með þessum hætti og sérstaklega þetta form sem hér er gert ráð fyrir.
    Varðandi afstöðu mína svo til rekstrar almennt og Skipaútgerðar ríkisins þá getum við, ég og hæstv. ráðherra, rætt það mál við tækifæri. Ég veit að hæstv. ráðherra segir þetta örugglega alveg eins á Raufarhöfn þar sem menn fá skip einu sinni í mánuði og eru komnir 50 ár aftur í tímann hvað samgöngur á sjó snertir eða hvað snertir tengsl Norðurlands og Austurlands á sjó. Nú þarf vara að fara frá Akureyri til Reykjavíkur umskipast þar og í annað skip til að komast til Austfjarða. Áður var hringtenging landsins á sjó. Ætli það sé ekki þannig að það sé að ýmsu leyti eftirsjá í þeim samgöngum sem fengust með rekstri Skipaútgerðar ríkisins þó það hefði vissulega verið rétt að það var dýr rekstur enda höfðu staðið áralangar tilraunir til þess að ná utan um það mál og ráðherrann veit vel að hann var ekki einn um það að vilja reyna að ná árangri í því. En menn voru að leita og höfðu verið að leita annarra aðferða en þeirra að sitja uppi með stórkostlega skertar samgöngur þó þeir gætu sparað á því peninga. En það varð niðurstaðan og hæstv. ráðherra ætti að muna eftir því um leið og hann er að hæla sér af því að hafa lagt niður Skipaútgerð ríkisins að það kostaði líka verri samgöngur fyrir fjölmörg byggðarlög í landinu.