Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 16:28:48 (7659)


[16:28]

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það fólst ekki í mínum orðum að ég væri að leggja til að taka upp á nýjan leik rekstur Skipaútgerðar ríkisins. Ég var búinn að standa til að mynda í viðræðum við skipafélögin líklega um tveggja ára skeið sem samgrh. um að innanlandssiglingar Eimskipa og Samskipa tækju við þessari þjónustu á ströndinni. Auðvitað var það svo að það hafði fleirum dottið það í hug en hæstv. núv. samgrh. að það væri hægt að leysa þessi mál með öðrum hætti en þeim að reka Skipaútgerð ríkisins. Ég var hins vegar ekki tilbúinn til þess að henda því fyrirtæki í fullkominni óvissu um það hvað mundi taka við, það er alveg ljóst, og taldi það misráðið hvernig hæstv. ráðherra fór í það mál. En af því að Heimdallur veitti hæstv. ráðherra einhverja medalíu fyrir það að hafa einkavætt Skipaútgerðina þá hefur hæstv. ráðherra gengið um eins og heilagur maður í þessum efnum æ síðan og sér greinilega bara ljósið algjörlega í þessum efnum.
    Að öðru leyti vil ég segja, hæstv. ráðherra, ég get ekki túlkað útúrsnúninga og skæting hæstv. landbrh. öðruvísi en sem algjöra höfnun á því að skoða hvort einhver samstaða geti myndast um afgreiðslu þessa máls hér. Ég leyfi mér að halda því hér fram að þó það eigi að heita svo að þrír flokkar standi að nál. þá séu miklar efasemdir um ágæti þeirrar afgreiðslu í röðum a.m.k. þingmanna tveggja úr þeim flokkum og hugsanlega á það eftir að koma fram.
    Eitt vil ég svo segja allra síðast við hæstv. landbrh. Þó það sé auðvitað svo að meiri hluti ræður niðurstöðu mála þá er samt samstaða betri en meiri hluti. Samstaða þingsins um meðferð máls er auðvitað verðmætust alls, sérstaklega þegar í hlut á viðkvæmt og viðamikið hagsmunamál af þessu tagi eins og það er að reyna að standa vörð um rekstur Áburðarverksmiðju ríkisins hér eftir sem hingað til. Það sem ég var sérstaklega að undirstrika og leggja áherslu á og bjóða upp á var að menn settust niður og reyndu að kanna hvort ekki væri hægt að mynda þverpólitíska samstöðu um það hvernig með málefni þessa fyrirtækis verður farið á næstu árum. Ég verð því miður að segja að mér heyrist hæstv. landbrh. vera að hafna því og þá ber hann ábyrgð á því.