Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 16:41:08 (7665)


[16:41]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þær óskir manna að nú verði látið staðar numið. Þetta er búin að vera hreint út sagt yfirgengileg vika. Við höfum unnið hér að meðaltali fjórtán stundir á dag þegar lögleg vinnuvika er átta stundir á dag. Við erum komnir í yfir 70 tíma í þessari viku. Maður hlýtur að spyrja sjálfan sig á löggjafarþinginu hvort það sé við hæfi að sjálft löggjafarþingið þverbrjóti svo lög sem raun ber vitni án þess að láta staðar numið og hugsa málið.
    Ég vil mótmæla því að við höldum áfram. Það hefur legið í loftinu mikil óvissa um fundarhaldið í dag. Nú loksins er það að skýrast. Einhverjir virðast hafa haft pata af því og eru farnir en nú er það komið í ljós að það er ætlun forsn. að taka til umræðu tvö mál. Bæði málin kalla á mjög mikla umræðu þannig að það er ljóst að ef fram á að fara með slíku ofbeldi sem hér er boðað þá mun fundur standa langt fram eftir nóttu. Það tel ég ekki ráðlegt og ég tel að það mundi stytta umræður verulega ef hér yrði látið staðar numið og fram haldið á mánudaginn. Ef við þeirri sjálfsögðu ósk verður ekki orðið þá tek ég undir þær kröfur sem gerðar hafa verið um viðveru ákveðinna þingmanna en vil bæta því við að ég tel að það

sé algert lágmark að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu viðstaddir alla vega seinna málið. Það kemur inn á svið flestra þeirra og alla vega ég sem er á mælendaskrá --- ég þarf að eiga orðastað við þá alla. Þannig að ef það er meiningin að halda áfram þá er það mín ósk að öll ríkisstjórnin sem er á landinu verði viðstödd umræðuna.
    Þar fyrir utan skilst mér að í húsinu séu nú 23 þingmenn. Mig langar að inna forseta eftir því: Hversu margir hafa fjarvistarleyfi þessa stundina?
    ( Forseti (GHelg) : Forseti getur raunar ekki svarað því öðruvísi en svo að það er ljóst að það er rétt að 24 hv. þm. eru í húsinu. Aðrir hafa farið heim þar sem þeir hafa ekki ætlað sér að taka þátt í þeim umræðum sem hér eru fyrirhugaðar.)
    Samkvæmt þingsköpum þá ber þingmönnum að vera viðstaddir þingfundi þannig að ef það á að þvinga einhvern lítinn hluta þingsins til að sitja hér á laugardagskvöldi og hugsanlega fram á nótt þá vil ég að eitt gangi yfir alla og það verði hringt út og allir þingmenn boðaðir til fundar þannig að eitt skuli yfir alla ganga.