Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 16:44:26 (7667)


[16:44]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst geta þess af því að ég veit að forseti sem nú situr á forsetastól hefur ekki aðstöðu til þess að taka ákvörðun um þær óskir sem hér . . .   ( Gripið fram í: Nú, hvað, hvað?) Ég var ekki búinn að ljúka setningu minni. Vegna þess að forseti þingsins Salome Þorkelsdóttir er í húsinu þá tel ég æskilegt að hún sé viðstödd þessar umræður nema forseti þingsins, Salome Þorkelsdóttir, ætli að framfylgja þeirri reglu sem hún tjáði mér að ætti að gilda fyrr á þinginu að sá forseti sem sæti í forsetastól væri með fullt umboð.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill upplýsa hv. þm. um að sá forseti sem hverju sinni situr á forsetastól hefur auðvitað allan rétt sem forseti.)
    Ef svo er þá treysti ég sanngirni þess forseta sem á forsetastól situr því að ljóst er að það er varla hægt að finna nokkra viku mörg ár aftur í tímann þar sem þingi hefur verið haldið fram með þeim hætti sem gert hefur verið í þessari viku. Hér hafa staðið fundir ekki bara fram til miðnættis heldur langt fram á morgun dag eftir dag í þessari viku. Kvöld- og næturfundir á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Á fimmtudag stóð fundur til kl. hálfsex um morguninn og menn komu saman til fundar um hádegi og síðan komu menn saman kl. níu í morgun. Það eru því engin efnisleg rök fyrir að halda áfram fundi á laugardegi eftir að klukkan er að verða fimm.
    Þar að auki er það þannig að hér er nú til umræðu frv. um að selja Áburðarverksmiðju ríkisins. Í því máli er alveg ljóst að það eru að minnsta kosti þrír þingmenn, þar með talinn einn ráðherra, sem verða að vera við þá umræðu, þ.e. formaður fjárln., formaður landbn. og hæstv. fjmrh. Þar að auki er það þannig að eftir ásakanir sem hæstv. landbrh. flutti áðan í andsvörum þá er það alveg ljóst að þeirri umræðu verður með engu móti lokið hér á næstunni. Þegar þeir þingmenn sem hlut eiga að máli um sölu ríkiseigna, formaður fjárln., fjmrh. og formaður í nefndinni sem málið heyrir undir eru ekki viðstaddir umræðuna þá veit ég að ég þarf ekki að útskýra fyrir þeim reynda þingmanni sem situr á forsetastól að það er ekki hægt að halda umræðunni áfram. Það er ekki ætlast til þess að þingmenn sem taka starf sitt alvarlega geti talað við þær kringumstæður. Ég fer þess vegna eindregið fram á það að þessum umræðum verði frestað hér og nú þar til búið er að skapa aðstæður með þeim hætti að þær geti átt sér stað við eðlilegar kringumstæður.