Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 16:47:50 (7668)


[16:47]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Við höfum verið að fara fram á að það yrði tekið til vinsamlegrar skoðunar og afgreiðslu af hæstv. forseta að gera hlé á þessu fundarhaldi og segja þetta gott í bili. Það er kominn laugardagur og kl. er að verða fimm og hér hefur verið farið yfir það að við erum líklega búin að vera samtals á fundum eitthvað um 70 klst. í þessari viku. Þar fyrir utan er auðvitað öll önnur vinna þingmanna eins og að ganga frá nál., undirbúa ræður og þar fram eftir götunum, þannig að þetta er orðin bara þokkalegasta vinnuvika á allan venjulegan mælikvarða hygg ég. Og þó það sé ýmislegt sagt um störf okkar þingmanna og frammistöðu eins og kunnugt er þá efast ég þó um að við mundum liggja undir miklu ámæli fyrir leti eða að hafa ekki sinnt þokkalega vinnuskyldu þessa vikuna. ( Landbrh.: Þingmanninum leiðist nú ekki að standa í ræðustól.) Nei, það er alveg hárrétt, hæstv. landbrh., ég tel ekki eftir mér að sinna skyldum mínum sem þingmaður og þar á meðal að flytja stundum eina og eina smáræðu ef á þarf að halda. Það er hárrétt.
    En, hæstv. forseti, í alvöru talað er þetta þannig að hér er orðin gífurlega löng vinnulota og því

miður hefur ekki tekist neitt samkomulag um hvernig ljúka skuli þinghaldinu. Hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt fullkomna óbilgirni í þeim efnum öllum saman og okkur þingmönnum er því ekki annar kostur á höndum en að fara eindregið fram á það að fundarhaldið fari þá í venjulegan farveg. Ég segi fyrir mitt leyti að ég mun ekki samþykkja nein frávik frá venjubundnum fundarhöldum svo sem því að við höfum alla þessa viku byrjað fundi kl. hálfellefu á morgnana en ekki í eftirmiðdaginn eins og venja er. Ég tel að stjórnarandstaðan hafi þessa viku sýnt mikla lipurð og þolinmæði og að hér hafi verið afgreidd mál svo tugum skiptir. Ég óska því eindregið eftir því, hæstv. forseti, að forseti taki sér nú tíma, ef ekki er hægt að verða við því strax, að hugleiða þessar óskir okkar og hætta nú fundarhaldinu í dag.