Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 16:51:46 (7670)


[16:51]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða frv. til laga um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins síðdegis á laugardegi og ég vil ítreka þá skoðun mína að mér finnst meira en nóg komið af fundarhöldum þessa vikuna en ég verð að sjálfsögðu við þeim tilmælum að halda mína ræðu.
    Eins og menn minnast var þetta mál til umræðu og meðferðar í landbn. á sl. vetri og þá hafði nefndin afgreitt málið frá sér og það lá hér tilbúið til afgreiðslu sl. vor þegar sá atburður gerðist að hæstv. forsrh. greip sína bláu bók og fór í pontu og sleit þinginu fyrirvaralaust. Þar með var þetta mál um Áburðarverksmiðju ríkisins eitt af þeim sem ekki var afgreitt á síðasta þingi. Þegar horft er á þróunina síðan held ég að segja megi að það sé mjög gott að þannig fór því sannleikurinn er sá, virðulegi forseti, að það hefur margt gerst í einkavæðingarmálum ríkisstjórnarinnar sem veldur því að það er ástæða til að staldra við og huga mun betur að þessum málum.
    Þegar við vorum með þetta mál til meðferðar í fyrra skrifuðum við nál., hv. þm. Ragnar Arnalds og sú sem hér stendur, og þá byggðist mín afstaða til málsins fyrst og fremst á því að það var og er um EES-mál að ræða. Það er verið að breyta Áburðarverksmiðjunni í kjölfar þeirra ákvæða sem er að finna í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og mín afstaða þá réðst af því að ég var mjög ósátt við það að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði skyldi knýja menn til að breyta þessari verksmiðju. En hitt er annað mál að ég var þá þeirrar skoðunar og er það svo sem enn að það sé ástæða til að breyta forminu á Áburðarverksmiðju ríkisins, þ.e. mér finnst Áburðarverksmiðjan vera dæmi um rekstur sem ekkert endilega á að vera í höndum ríkisins. Mér þætti ekkert óeðlilegt að bændur héldu þar um stjórnvöl og ættu verksmiðjuna eins og mér er tjáð að hafi verið fram yfir 1960 þegar ákvörðun var tekin um það að ríkið yfirtæki reksturinn að fullu. En, virðulegi forseti, reynslan af því sem gerst hefur í einkavæðingarmálum á þessu eina ári, það mun vera rétt um ár síðan hæstv. forsrh. sleit þinginu svo skyndilega, hefur gert það að verkum að ég leggst eindregið gegn því að þessar breytingar verði gerðar.
    Ég vil ítreka það að ég hef vissa samúð með þeim sjónarmiðum sem fram komu hjá framkvæmdastjóra Áburðarverksmiðjunnar þegar hann kom á okkar fund sem voru þau að hlutafélagsformið og breytingar á verksmiðjunni gæfu verksmiðjustjórninni meiri möguleika til að bregðast við breyttum aðstæðum, bregðast við samkeppni og að þeir gætu betur lagað sig að því sem fram undan er. Ég hef vissa samúð gagnvart þeim sjónarmiðum. En eftir að hafa horft á það hvernig ríkisstjórnin framkvæmir sína einkavæðingu er niðurstaðan einfaldlega sú að ríkisstjórninni er ekki treystandi til þess að gera þetta. Það er niðurstaða málsins. Annars vegar er það hvernig hún einfaldlega hefur staðið að sölunni á þessum hlutafélögum, þ.e. ríkisstofnun sem breytt hefur verið í hlutafélög, og hins vegar eru það auðvitað þau mál sem snúa að starfsfólkinu. Nú erum við að endurtaka umræðuna um bæði SR-mjöl og um Lyfjaverslun ríkisins því þetta eru allt saman hliðstæð mál þar sem þessi trúarbrögð ríkisstjórnarinnar um að það sé nauðsynlegt að einkavæða ríkisfyrirtæki eru í öndvegi. Þetta er trúarbragðastefna og þar af leiðandi er verið að knýja þessi mál í gegn þrátt fyrir nöturlega reynslu. En staðreyndin er sú í fyrsta lagi að það sem snýr að starfsfólki, og það eru hliðstæðar greinar í öllum þessum frv., í þessu tilviki er um að ræða 6. gr. þar sem vísað er til gildandi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það er sagt í þessum frumvörpum að þær breytingar sem sé verið að gera nái ekki til þeirra laga sem þýðir að það er verið að taka af starfsmönnum biðlaunaréttinn.
    Nú getum við deilt um það og rætt um það hvort sá réttur sé í takt við tímann, hvort það sé rétt að hafa biðlaunaréttinn við lýði þegar ljóst er að fólk fer beint í önnur störf. En þetta eru einfaldlega gildandi lög og hið rétta í þessum málum hefði auðvitað verið það að gera samninga við stéttarfélögin og ná samkomulagi um að breyta þessum lögum í stað þess að ganga svona á rétt starfsmanna og vera eilíflega

að kalla yfir sig málaferli. Því það mun gerast og er á leiðinni. Það er að gerast að BSRB er að undirbúa málaferli vegna þess sem gerðist hjá SR-mjöli. Þessi mál eru að fara fyrir dómstólana vegna þess að stéttarfélögin telja að það sé verið að ganga þarna á rétt starfsmanna og þessar breytingar feli í sér stjórnarskrárbrot. Hvorki meira né minna. Það er verið að ásaka ríkisstjórnina um stjórnarskrárbrot. Þannig getur Alþingi Íslendinga ekki staðið að málum. Það er ekki hægt að framkvæma málin á þennan hátt og segja bara: Sjáum bara hvað setur, sjáum bara hvað kemur út úr þessum málum.
    Auðvitað á að bíða eftir niðurstöðu dómstólanna úr því sem komið er. Við hefðum átt að fresta einkavæðingu Lyfjaverslunar ríkisins og fresta þessum lögum um Áburðarverksmiðjuna og bíða niðurstöðu dómstóla fyrst málin eru komin í þann farveg. En það er vaðið áfram og þetta keyrt í gegn hér þrátt fyrir hörð mótmæli stéttarfélaganna. Að vísu gildir það fyrst og fremst um BSRB og BHMR sem eiga hér í hlut en ég furða mig reyndar á því hve lítið heyrist frá Alþýðusambandinu varðandi þessi mál vegna þess að reynslan sýnir það að starfsfólki er fækkað í kjölfar þessara breytinga. Það kann að vera að það sé um ofmönnun að ræða í þessum verksmiðjum en á tímum sem þessum þegar atvinnuleysi er jafnmikið og raun ber vitni þá er auðvitað betra að halda fólki í vinnu en að vera að senda það út á atvinnuleysismarkaðinn. Það er einfaldlega betra fyrir alla aðila. Það er ekkert betra fyrir ríkið að vera að greiða fólki atvinnuleysisbætur en að fólk hafi vinnu og fái laun fyrir það.
    Þá ætla ég að víkja að þeim tíma enn einu sinni --- og erum við að endurtaka sömu umræðuna aftur og aftur --- þeim tíma sem ríkisstjórnin velur til einkavæðingar sinnar. Það er samdráttur í efnahagslífinu og það er afar ólíklegt að sanngjarnt verð fáist fyrir sölu þeirra hlutabréfa sem til stendur að selja. Það er afar ólíklegt. Hverjir eiga að kaupa? Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég efa það stórlega að einhver áhugi sé á því að kaupa hlutabréf í Áburðarverksmiðju ríkisins þegar menn eru að spá því að henni verði einfaldlega lokað eftir nokkur ár vegna samkeppni utan frá. Það er afar ólíklegt að það sé mikill áhugi á að kaupa þau bréf. Til hvers er þá verið að gera þessar breytingar? Maður spyr sig auðvitað að því.
    Við vitum að það er vilji þeirra sem reka verksmiðjuna að halda henni gangandi og að aðlaga verksmiðjuna þeim breytingum sem fram undan eru og reyna að standast samkeppnina. En þeir hafa líka bent á það að það er afar auðvelt fyrir stóra aðila eins og Norsk Hydro að kaupa þetta allt saman. Það er enginn fyrirvari á því hér að það megi ekki selja nema helming hlutabréfanna eins og tókst þó að koma inn í lögin um Lyfjaverslun ríkisins. Það er enginn slíkur fyrirvari hér og þá gilda þau lög sem í gildi eru varðandi kaup erlendra aðila á hlutabréfum. Þegar búið verður að breyta lögunum um fjárfestingar erlendra aðila verður harla auðvelt fyrir aðila eins og Norsk Hydro að kaupa Áburðarverksmiðju ríkisins. Stjórnendur verksmiðjunnar bentu á að Norsk Hydro vílaði ekki fyrir sér að kaupa upp svona litla verksmiðju vegna þess að það er samdráttur í þessum iðnaði og hver markaðseining er mikilvæg. Þannig að sá möguleiki er fyrir hendi að verksmiðjan verði keypt og þá auðvitað fyrst og fremst til að leggja hana niður.
    Það er í sjálfu sér hægt að hafa langt mál um þessar breytingar og þessa sölu sem hér á að fara fram en ég ítreka það að andstaða mín við þetta mál er af sömu rótum runnin og giltu um Lyfjaverslun ríkisins, þ.e. það sem snýr að starfsmönnum og ekki síst að það eru viðræður í gangi milli BSRB og ríkisins um samstarf og samvinnu ríkisstarfsmanna og ríkisins og hvernig því skuli háttað og þar koma þessi einkavæðingarmál inn í. En menn eru auðvitað í þessu máli öllu saman að horfa til reynslunnar erlendis frá og þess hvaða afleiðingar einkavæðing hefur haft í ýmsum löndum. Það er nöturlegt upp á að horfa að menn skuli halda áfram með þetta á þessum tímum. Ég veit að hæstv. landbrh., sem er á rólinu einhvers staðar í hliðarsölum, er þeirrar skoðunar að þessi breyting á verksmiðjunni sé hugsanlega eina leiðin til að bjarga henni og ég vildi gjarnan biðja hann að koma í pontu og rökstyðja þá skoðun hvers vegna hann telur að það sé vænlegra fyrir verksmiðjuna að lifa með þessum breytingum en hafa ríkið sem bakhjarl í óbreyttum rekstri. Mér finnst ég ekki hafa heyrt nein rök fyrir þessu og ég beini þeirri spurningu til hans: Hvernig rökstyður hann það að verksmiðjan eigi meiri lífsmöguleika í þessu formi en á því formi sem nú er? Mér finnst það afar mikilvæg spurning.
    Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég hef skilning á því gagnvart stjórnendum verksmiðjunnar að hlutafélagsformið feli í sér ákveðinn sveigjanleika, að menn geti hreinlega verið fljótari að bregðast við aðstæðum en grundvallarspurningin sem við stöndum frammi fyrir er: Ætlum við að eiga áburðarverksmiðju í landinu eða ekki? Það er grundvallarspurningin. Og hvaða leiðir eru bestar til þess að halda verksmiðjunni gangandi? Ég hef miklar efasemdir um það að einkavæðing á verksmiðjunni verði henni til bjargar.
    Ég ætla að geta þess að meiri hluti landbn. leggur til breytingar á frv. og ég get tekið undir fyrri brtt. þar sem mér fannst vanta algjörlega inn í frv. um Áburðarverksmiðjuna öll ákvæði um stjórn verksmiðjunnar. Það er aðeins vísað til þess að ákvæði hlutafélagalaga skuli gilda en í ýmsum öðrum frumvörpum sem við höfum haft til meðferðar hafa verið ákvæði um það hversu fjölmenn stjórnin skyldi vera. Ég tel að það sé þó til bóta að inn í lögin komi ákvæði þess efnis. Hin breytingin lýtur náttúrlega bara að gildistöku laganna í ljósi þess hve það dróst að frv. kæmi fram.
    Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur umfang verksmiðjunnar dregist saman. Það hefur orðið mikill samdráttur í sölu, bæði í kjölfar þess samdráttar sem við höfum horft upp á í landbúnaði og einnig breytingar sem orðið hafa á ræktun þó að samdrátturinn í landbúnaði skipti mestu máli. Það er mikil áhersla

lögð á það núna að fara út í lífræna ræktun af ýmsu tagi sem felur það í sér að notkun tilbúins áburðar mun þá væntanlega minnka. Að vísu er það spurning um skilgreiningu og eftir því hvers konar vöru er verið að framleiða en þegar menn eru t.d. að tala um lífrænt ræktað grænmeti og slíkt þá er verið að tala um að reyna jafnvel að nota lífrænan áburð en ekki hinn tilbúna áburð sem hingað til hefur verið mest notaður. Það kunna því líka að vera fram undan breytingar sem fela í sér enn meiri samdrátt.
    Síðan eru menn auðvitað líka að velta fyrir sér ýmsum sóknarfærum í landbúnaði sem vonandi munu ýta undir hann og það gæti vegið upp á móti. Það er því svolítið erfitt að átta sig á framtíðinni en því er ekki að leyna að samkvæmt því sem fram kom í landbn. þá bera menn ugg í brjósti varðandi framtíð verksmiðjunnar og eins og ég nefndi áðan þá stöndum við frammi fyrir þeirri stóru spurningu: Ætlum við að tryggja rekstur og eiga áburðarverksmiðju í landinu eða ætlum við að eiga allt undir því að áburður sé fluttur inn? Þetta eru mikilvægar spurningar og ég held að bæði í ljósi þess og hvernig á málum hefur verið haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar, og þá vísa ég einkum til sölunnar og breytinganna á SR-mjöli, ættum við að staldra við, hæstv. landbrh. og láta þetta mál bíða.