Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 17:12:22 (7672)


[17:12]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér koma fullyrðingar á fullyrðingar ofan í framhaldi af þeim fullyrðingum sem fram koma í greinargerðinni með frv. Ég ítreka þá spurningu sem ég bar fram til hæstv. landbrh.: Hvers vegna tryggir hlutafélagsformið betur framtíð og rekstur verksmiðjunnar en núverandi staða? Það eru engin svör að segja af því bara. Það verður að rökstyðja það og ég get ekki séð hvers vegna óbreytt ástand, sem er leyfilegt samkvæmt EES-samningnum, það er leyfilegt að reka ríkisfyrirtæki, er eitthvað verra fyrir starfsfólk. Það sem er vont fyrir starfsfólkið er auðvitað að vita ekki hver framtíðin verður. Þó við breytum fyrirtækinu þá verður það ekki úr sögunni vegna þess að í rauninni veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég hygg að með því að breyta fyrirtækinu og með því hugsanlega að setja það út á hinn frjálsa hlutabréfamarkað þá gæti það gerst, sem ég nefndi áðan, að erlendir aðilar keyptu verksmiðjuna til þess að leggja hana niður.