Röð mála á dagskrá, afgreiðsla þingmála og viðvera ráðherra

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 10:34:57 (7679)


[10:34]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Forseta er vel kunnugt um það að sá siður hefur verið á þessu þingi og undanförnum þingum að atkvæðagreiðslur eru teknar í upphafi fundar og ég vek athygli forseta á því að það er ekki boðaður nýr fundur að loknu hádegisverðarhléi þannig að skýring forseta á því að samkvæmt venju fari atkvæðagreiðsla fram að loknu hádegisverðarhléi, þá er það ekki venja hér í þinginu. Venjan hefur verið sú að atkvæðagreiðslur fari fram í upphafi þingfundar.
    Forseti vék ekkert að því sem ég spurði um, hver væri skýringin á fjarveru nánast allrar ríkisstjórnarinnar nema eins ráðherra og ég óska eftir skýringu á því hvernig stendur á því að enginn ráðherra Alþfl. er t.d. mættur. Heldur forseti virkilega að við ætlum að fara að ræða sjávarútvegsmálin hér þess að nokkur forustumaður Alþfl. í ríkisstjórninni sé mættur? Þetta mál er búið að vera eitt helsta ágreiningsmálið á milli stjórnarflokkanna. Þeir hafa haldið þannig á þessu máli í tvö ár að margvíslegar spurningar hljóta að beinast að forustu Alþfl. í þessum málum og það er gersamlega út í hött að hægt sé að halda áfram með þessar umræður án þess að a.m.k. formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., sem hefur verið aðaltalsmaður Alþfl. í sjávarútvegsmálum á undanförnum missirum sé hér mættur. Ef það er virkilega ætlun ríkisstjórnarinnar að reyna að ljúka þinginu á þessum sólarhringum, þá er það krafa að ráðherrarnir séu mættir í umræður um a.m.k. þau meginmál sem hér eru til afrgreiðslu og sjávarútvegsmálin eru tvímælalaust meginmál. Ég set fram þá ósk að þessi umræða um sjávarútvegsmálin hefjist ekki fyrr en formaður Alþfl. er mættur til umræðunnar.