Röð mála á dagskrá, afgreiðsla þingmála og viðvera ráðherra

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 10:41:18 (7685)


[10:41]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef búið við það að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hæstv. viðskrh., hefur litið á mig sem aðalsökudólg fiskveiðistefnu minnst einn mánuð fyrir kosningar í hvert einasta skipti á Vestfjörðum síðan sú stefna var upp tekin. Ég tel að sækjandinn megi vera við þegar þessi umræða fer fram og var búinn að óska eftir því við 2. umr. að það yrði tryggt að hann yrði við 3. umr. þessa máls. Það er sagt vegna þess að ég hygg að það sé sjaldgæft að mönnum sé helgaður heill Skutull með ósvífni fyrir kosningar út af fiskveiðimálum. Ég hefði gjarnan viljað fá það upplýst hvort hægt er að tryggja það að hæstv. ráðherra verði við.
    Einnig vil ég undirstrika það sem kom fram í máli hv. 6. þm. Suðurl. að þeim málum sem vísað er til nefndar er áður vísað til 2. umr. Það er samþykkt hér í þinginu að þau fari til 2. umr. í atkvæðagreiðslu, svo er þeim vísað til nefndar. Ef ætlunin er að standa þannig að málum að þau séu bara sett til geymslu í nefndum, þá er miklu auðveldara að fella það að þeim sé vísað til 2. umr. þannig að menn séu ekki dregnir á asnaeyrunum hvað þetta snertir. Og þess vegna er það skaði að það er farið út úr þingsköpunum sem var hér í gömlum þingsköpum að forseti átti að stjórna formönnum nefnda í þinginu, kalla þá saman til funda og fylgjast með þeirra störfum. Þetta ákvæði var alveg skýrt og það var inni til þess að tryggja það að vinnan í nefndunum væri lýðræðisleg.