Röð mála á dagskrá, afgreiðsla þingmála og viðvera ráðherra

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 10:45:45 (7688)


[10:45]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær raddir sem hafa komið hér fram um að fá ráðherra í salinn til að hægt sé að tala við þá undir lokin því að ekki hafa þeir setið hér svo mikið í vetur að það ætti að vera hægt að offra einum degi til þess að tala við þingheim. En það er misskilningur hjá hv. 4. þm. Vesturl. að það sé nóg að hv. þm. Alþfl. séu hér þó að þeir séu alls góðs maklegir. Landsfundurinn er nefnilega ekki búinn og þeir eru ekki orðnir formenn flokksins enn þá. Þó að hv. 4. þm. Vesturl. hafi haldið hér góðar ræður í vetur, þá er hann ekki orðinn talsmaður flokksins enn þá eða forustumaður þannig að ég vil taka undir það mjög rækilega að það er mál til komið að ríkisstjórnin mæti hér til fundar því að sannleikurinn er sá að þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar þeir fundir í Alþingi í vetur þar sem hafa verið fleiri en einn ráðherra mættur þannig að það væri nú gott að þeir mættu allir, hæstv. ráðherrar, þessa síðustu daga.