Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 11:38:13 (7699)


[11:38]
     Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson vék að afstöðu okkar framsóknarmanna til tillögu þeirra alþýðubandalagsmanna, m.a. um kaup á fleiri frystiskipum, að banna þau í eitt ár. Ég undirstrika það að markvissari stefnu vantar í vinnslu sjávarfangs. Það vil ég undirstrika og hef gert æði lengi. En frysting um borð í veiðiskipi er aðferð, hv. þm. Frysting um borð í veiðiskipi er aðferð, en þróunin til uppþíðingar afla í landi og frekari fullvinnslu, þar sem, ef ég má segja, að verði stofnað til nýtískulegri verksmiðju í vinnslu í landi heldur en verið hefur. Ég tel að það sé einmitt þarna sem skortir á. Það hefur skort fjármagn til þess að geta þróað upp þá aðferð að til uppþíðingar á þeim afla sem heilfrystur er um borð í þessum skipum, þannig að vinnslan fari fram í landi, þannig að við njótum margfeldisáhrifa vinnslunnar.
    En þessari þróun verður auðvitað að fylgja fjármagn á viðráðanlegum kjörum fyrir þessi fyrirtæki til að þróa starfsemina á þennan jákvæða hátt. Ég held að við eigum ekki að vera að beita okkur svo mjög fyrir boðum og bönnum, ég held að við þurfum frekar að þróa okkur áfram þarna. En rekstrarskilyrði hafa knúið menn í auknum mæli til að fara út í þessa útgerð.