Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 11:40:58 (7701)


[11:40]
     Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þingmaðurinn vék einnig að afstöðu okkar framsóknarmanna til frv. í heild sinni og að við hefðum tekið þar einkennilegum sinnaskiptum. Ég vil að það komi skýrt fram að við framsóknarmenn töldum að með vinnu í sjútvn. þingsins og með umræðum í þingsölum hefðu fengist fram veigamiklar breytingar á slæmu frv. sem hér lá á borðum þingmanna, en ég undirstrika það að við erum langt frá því að vera sáttir við þetta frv. En það tókst þó að lagfæra það og koma í veg fyrir stærra tjón. Þetta er staðreyndin í málinu og þess vegna var afstaða okkar framsóknarmanna sú að við drógum þær tillögur sem við fluttum til baka vegna þess að það var komið til móts við þær að nokkru leyti. Ég sagði þegar ég talaði fyrir þessum tillögum að ég teldi að með þeim væri opnuð leið til þess að ná fram lagfæringum á þessu frv. Ég viðurkenni að það var orðið við því þó ég vildi að það hefði verið gengið miklu lengra.