Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 11:44:40 (7704)


[11:44]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hefur ekki hvarflað að mér að halda því fram að það ætti að koma í veg fyrir að fiskur sé fluttur milli byggðarlaga. Ég hef hins vegar haldið því fram mjög ákveðið og stíft að það eigi ekki að hafa fiskveiðistjórnunarkerfið þannig uppbyggt að menn geti notfært sér aðganginn að fiskimiðunum til þess að þvinga fram lægra fiskverð og á grundvelli þess sé síðan verið að flytja afla milli

byggðarlaga. Það er það sem ég hef verið að mótmæla hér. Menn eiga auðvitað að vera frjálsir að því að kaupa fisk og keyra honum milli byggðarlaga eins og þeim sýnist. Það er ekkert við það að athuga, ekkert nema bara gott um það að segja.
    Það að hv. þm. nefndi áðan að þessi 15% regla hefði verið svona óskaplega vond, að það hefði nægt að það yrði fallið frá henni eftir árið til þess að framsóknarmenn skiptu um skoðun, fær mig til þess að minna á það að tillögur hv. framsóknarmanna gengu út á það að hafa þessa reglu áfram. Breyta bara prósentunum. Það var allt og sumt. Þeir vildu þessa reglu.