Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 11:48:43 (7707)


[11:48]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna komu hæstv. viðskrh., sem fulltrúa ráðherra Alþfl. hér, en eins og þeir vita sem hafa verið hér frá upphafi fundar þá hefur mjög verið óskað eftir nærveru hæstv. alþýðuflokksráðherra þar sem þeir eru vissulega miklir gerendur í því máli sem hér er til umræðu og þeirri makalausu niðurstöðu sem orðin er, þar sem í rauninni menn koma hér einn á eftir öðrum, bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar, og lýsa því yfir að þeir séu í raun mjög óánægðir með þá niðurstöðu sem orðið hefur og þann bræðing sem við sitjum uppi með, en a.m.k. allmargir stjórnarsinnar og slæðingur af stjórnarandstæðingum úr röðum framsóknarmanna ætla þó að una því sem þeir ekki sætta sig í rauninni við. Og ég held að það sé að öðrum ólöstuðum hægt að segja það að alþýðuflokksmenn eigi mestan hlut þarna að máli hvernig komið er. Að öðrum ólöstuðum er kannski nokkur þversögn vegna þess að niðurstaðan er jú eins og við vitum ákveðinn bræðingur sem fólk er almennt ekki sátt við.
    Í þeirra hópi, hinna óánægðu, hljóta að teljast allmargir úr röðum alþýðuflokksmanna því að t.d. er í frv. sextánmenninganna að finna ákvæði eða tillögur sem eru hreint ekki í takt við þá niðurstöðu sem hér varð. Og ég held að ég verði að spyrja þá þingmenn sem t.d. eru hér, Sigbjörn Gunnarsson og Petrínu Baldursdóttir, hvort þau geti með góðri samvisku sagt að þau séu ánægð með þá niðurstöðu miðað við þær andstæður sem eru annars vegar í þeim bræðingi sem við sitjum nú uppi með og svo hins vegar í þeim hugmyndum sem voru lagðar fram í frv. sextánmenninganna, en það er 572. mál þessa þings.
    Það er ekki síst vandamálið með veiðigjaldið sem hefur leitt okkur út í þessar ákveðnu ógöngur og um það munum við nánar ræða þegar Þróunarsjóður sjávarútvegsins kemur á dagskrá. En mér þótti það og þykir enn mjög athyglisvert að það er sagt fullum fetum í niðurstöðum tvíhöfða nefndarinnar að það sé djúpstæður skoðanamunur um veiðigjald sem hafi þurft að leysa og mér vitanlega hefur sú lausn út af fyrir sig ekki komið fram nema að það eru mismunandi túlkanir á því hvort við séum með Þróunarsjóði að stíga fyrsta skref í átt til veiðigjalds eður ei. Ég óttast að svo muni verða og ég hafna þeim áherslum.

    Ég þarf ekki að fjölyrða um það hér að við kvennalistakonur höfum þvert á móti viljað fara allt, allt aðra leið í stjórn fiskveiða, en það er að taka upp byggðakvóta. Ég gerði það í 2. umr. að meginefni máls míns að það væri ástæða til að berjast fyrir því að 7. gr. frv. fengi að halda sér eins og hún lá fyrir, ekki síst þar sem ljóst var að hún naut víðtæks stuðnings m.a. úr röðum stjórnarliða. Og það hlálega er að hv. 5. þm. Norðurl. v., annar tvíhöfða og fulltrúi Sjálfstfl. í sjútvn. eða einn af þeim, hefur átt alveg afskaplega mörg orð yfir það hvað það sé hart að þurfa að slaka þessari ágætu grein, um að fiskvinnslustöðvar geti eignast kvóta, í þessum hrossakaupum sem átt hafa sér stað. Ég held að það væri í rauninni langskynsamlegast að gera nokkrar einfaldar breytingar sem óhjákvæmilegar eru, m.a. vegna stöðu smábáta, núna á vordögum og reyna til þrautar að ná einhverri heildstæðri lausn í sjávarútvegsmálum og hafa þar einhverja glóru. Því það er ekki hægt að segja að ef að meðaltali allir eru eitthvað óánægðir, þá sé niðurstaðan góð. Þvert á móti, ef að meðaltali allir eru eitthvað óánægðir, þá er niðurstaðan vond og það er það sem mér sýnist að hafi orðið hér.
    Ég ætla ekki að fara mikið út í þá baráttu sem við kvennalistakonur höfðum fyrir því að halda inni einni tillögu tvíhöfða nefndar um kvóta fiskvinnslustöðva. Ég gerði það í 2. umr. Það hefur þegar gengið til atkvæða. En það er annað atriði sem einnig er grundvallarþáttur í stefnu okkar kvennalistakvenna, en það er verndun fiskimiðanna og hverra kosta er völ í þeim efnum, sem mig langar sérstaklega að taka fyrir núna.
    Ein ástæða þess að það var fyllilega vert að líta á frv. sextámenninganna var einmitt fiskverndarsjónarmið, þ.e. að menn fari ekki í meira mæli en nú er að líta svo á að vegna ranglátra reglna í stjórn fiskveiða sé óhjákvæmilegt og jafnvel sjálfsagt að henda afla, en það er nákvæmlega það atriði sem verið er að reyna að taka á í þessu frv. Það má að sjálfsögðu deila um það hvort nákvæmlega rétt útfærsla er þarna í því frv. En það sem mér finnst þó skipta verulegu máli er það að þarna er verið að reyna að taka á raunverulegum vanda sem er fyrir hendi hér og nú. Og ég lái þeim alþýðuflokksþingmönnum ekki, t.d. hv. 11. þm. Reykn., Petrínu Baldursdóttur, og hv. 7. þm. Norðurl. e., Sigbirni Gunnarssyni, þótt þau hafi verið í þessum uppreisnarhópi, sem litið var á að væri svo, því ég held að þarna hljóti að ráða, og menn hljóti að sjá það, heilbrigð skynsemi og virðing fyrir gæðum náttúrunnar. Og með einni breytingu get ég mjög vel tekið undir þau sjónarmið að það eigi að rýmka reglur um að koma með meðafla að landi. Mér finnst þó að það ættu að vera ákveðnar skorður, kannski meira eftirlit heldur en þarna er og kannski meiri krafa um tilfærslur heldur en nákvæmlega í þessari útfærslu.
    Einnig get ég tekið undir það að það hníga ákveðin rök að því að hafa ekki aflamark á þeim tegundum sem hafa reynst vannýttar, en með hámarki. Og það er kannski það sem vantaði inn í þetta frv., sem þó var að mörgu leyti góðra gjalda vert. Ég hefði viljað sjá þar ákveðið hámark og að því tilskildu hefði ég getað stutt þá grein frv. sem laut að þessu. En ég held að hér hafi hrein fiskverndarsjónarmið verið á ferðinni og þau sjónarmið að sólunda ekki auðlindum hafsins. Og ég held að það sé mikill skaði skeður ef það verður ekki farið út í að taka umræðu á öðrum nótum heldur en verið hefur um sjávarútvegsmál. Það er ljóst að verði þetta frv. að lögum þá verður það afgreitt í bullandi ágreiningi, nema kannski við nokkra framsóknarmenn, og það verður fyrst og fremst aulalausn til að leysa raunverulegt vandamál sem er verkfall sjómanna og það þurfti að sjálfsögðu að leysa. Um það er enginn ágreiningur. En mér þykir ansi hart ef það er skilið eftir kerfi sem er innbyrðis sundurlynt og alls konar sérkennileg hrossakaup eiga að leysa málin. Það á t.d. að hugga einhverja stjórnarsinna úr hópi sextánmenninganna með því að gefa einhver afskaplega loðin fyrirheit, svo ekki sé meira sagt, um nefndir, og þær a.m.k. tvær, sem eiga að taka bæði á meðaflamálum og einnig á þeim tegundum sem ekki hefur tekist að fullnýta og þetta er auðvitað algerlega ávísun á óvissu og ekkert annað. Fyrir kemur að nefndir skila góðu starfi, en það er engin trygging fyrir því að það sé tekið mark á því. Þannig hefði ég gjarnan viljað sjá eitthvað bitastæðara heldur en einhverja nefndarskipan.
    Hv. 4. þm. Vesturl., Gísli Einarsson, taldi að náðst hefði áfangasigur og nefndi þar sérstaklega rýmkun á rækjukvóta. Vissulega er þetta eitthvað sem er rætt, en þetta er ekkert sem er bundið við einhver lög, þetta er ekki það sem við erum að fjalla um, þetta er framkvæmdarvaldið að slaka einhverjum fyrirheitum hingað og þangað. Og ég verð að segja það að mér finnst það fremur ógeðfellt þegar farið er að koma með svona fyrirheit inn í lagasetningu, enda var það kannski engin tilviljun að það var útilokað að fá á blaði, af hálfu stjórnarsinna, nokkuð um þessi fyrirheit. Það var í lagi að skýra sjútvn. munnlega frá þessu samkomulagi. Menn gátu að sjálfsögðu glósað og sum okkar gera það óspart. En þarna virtist vera slíkt feimnismál á ferðinni að það var ekki einu sinni hægt að setja það á blað sem minnisblað, hvað þá meira.
    Ég held að það séu tvö sjónarmið sem óhjákvæmilega hljóti að koma inn í fiskverndarmál og æskilegustu nýtingu þess afla sem við drögum úr sjó, sem er vissulega sífellt minnkandi. Það er annars vegar það að við nýtingu sé hugað að því að það sé sköpuð sem mest vinna í landi. Þetta er að mínu mati liður í því að það sé gengið með ákveðinni virðingu um auðlindina og það er engin tilviljun að smábátar hafa verið nokkuð til umræðu í þessari umræðu. Ég held að það sé alveg nauðsynleg umræða út af fyrir sig og ég vil vekja athygli á upplýsingum sem komu í umsögn Landssambands smábátaeigenda frá því í haust, 30. sept. sl., en þar er bent á að í faglegri úttekt sjáist að það séu jafnmörg ársstörf á smábátaflotanum og á öllum ísfisktogaraflota landsmanna, en hins vegar er tvennt sem kemur þarna inn. Í fyrsta

lagi er hent miklu meira af fiski af togurum heldur en af smábátum og meira flutt í land. Þar að auki er hagkvæmnin slík að fjárfesting er svo mikil í togurunum, og sérstaklega reyndar þeim allra stærstu, að með sömu hagkvæmni er unnt að skapa margfalt fleiri störf á smábátum án þess að þar verði um að ræða að reksturinn standi ekki undir sér.
    Það sem hins vegar hefur verið vandamál, bæði hjá krókabátum og ekki síst aflamarksbátum, er einfaldlega að samdrátturinn hefur komið miklu verr við þessa aðila heldur en aðra. Gagnvart krókaleyfisbátunum sitjum við uppi með þær tillögur hér að það er dálítið erfitt að ráða í það hvort þeim verður mögulegt að halda áfram sínum rekstri eða ekki og þetta skiptir verulegu máli, m.a. vegna þess að við erum nú um þessir mundir einnig að takast á um 506. mál þingsins, sem er sérstök aðstoð við Vestfirði, en í raun væri hægt að styðja ýmis byggðarlög á Vestfjörðum sem standa höllum fæti með því að tryggja afkomu smábátanna.
    Ég tek bara dæmi um það að á Suðureyri t.d. eru smábátarnir mjög stór hluti, en hlutdeild krókaleyfisbáta þar er 64% af heildarbotnfiskafla sem þar kemur. Síðan eru þarna nokkrir staðir, Bolungarvík, Tálknafjörður og Patreksfjörður, í kringum 16--27% og Flateyri aðeins minni með 15%. Þar að auki má nefna Grímsey og Bakkafjörð og þarna erum við bara að tala um krókaleyfisbátana.
    Varðandi aflamarksbátana þá hef ég nú þegar rakið það að þeirra afkoma hefur verið skert alveg gífurlega, sumir segja alveg upp í 70%, og það er náttúrlega fyrst og fremst vegna þess að þeim hefur ekki tekist að bæta sér upp þann kvóta sem þeir hafa tapað vegna heildarsamdráttar.
    Þetta allt saman er að mínu mati mjög mikilvægt ef við erum að hugsa um hvernig við göngum um auðlindina, vegna þess að hluti af því sem við erum að reyna að skapa eru störf í landi og það þarf örugglega miklu meiri afla inn til landsins ef við erum með flota sem byggist nánast eingöngu á togurum, ég tala nú ekki um verksmiðjutogurum, og þar af leiðandi erum við að tala um miklu, miklu meiri fisk að landi og hættu á miklu meiri ofveiði þar af leiðandi. Þannig að ég vil í nafni fiskverndar og virðingar fyrir okkar auðlindum sérstaklega ítreka þetta því mér hefur fundist að menn tali dálítið gáleysislega á köflum um smábáta. Vissulega hafa fulltrúar smábátaeigenda verið býsna drjúgir í umræðunni, en það á ekki að liggja þeim á hálsi fyrir það þó að þeim hafi tekist að koma sjónarmiðum sínum vel á framfæri vegna þess að allar þeirra ábendingar hafa reynst mjög þarfar, þó deila megi um einstakar tölur, prósentur og reikninga. Það virðist vera hægt að reikna sig út í slíkar öfgar í báðar áttir að það eitt út af fyrir sig er mjög dapurlegt.
    Það hefur svo sem kunnugt er verið mest talað um að takmarka aflann með því að takmarka árlegan heildarafla. Út af fyrir sig get ég tekið undir að slíkt verður að gera, en ég held að fyrst og fremst verði að fara að líta á sértækari aðgerðir eins og verndun smáfisks og hrygningarfisks og einnig hvernig gengið er um auðlindina. Það vekur athygli í skýrslu tvíhöfða nefndarinnar til sjútvrh. að það er reynt að draga dálítið úr því hversu miklu sé hent af fiski í sjóinn, en eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns þá höfum við í sjútvn. fengið upplýsingar um það að allt að 30% fisks sé hent í sjóinn af einstökum togurum og heyrst hafa enn hærri tölur. Það eru því miður mjög dapurlegar upplýsingar og fjarri þeim 5 eða 6% sem verið er að tala um í skýrslu tvíhöfða nefndarinnar.
    Það er mikil þversögn í því annars vegar að vera með ákveðnar tillögur og upplýsingar sem sjálfsagt væri að vinna úr um það hvernig beri að ganga um auðlindina og ná sátt um það og svo hins vegar að gera nánast ekkert í því. Því tókum við kvennalistakonur það að okkur að benda á eina ákveðna leið til þess í því frv. sem við flytjum til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, en það er 560. mál, þar sem við leggjum til að sett verði á laggirnar samstarfsnefnd eða samráðsnefnd þar sem sjómenn, fiskvinnslufólk, útgerðarmenn og eigendur fiskvinnslustöðva vinni með Hafrannsóknastofnun að því að ná sátt og niðurstöðu um tillögur þær um heildarafla sem á hverju ári koma til umræðu hér og ákvörðunar síðan sjútvrh. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem klögumálin hafa gengið á víxl og það er einnig mjög mikilvægt vegna þess að í hópi hagsmunaaðila í sjávarútvegi hefur mjög verið bent á að það þurfi að fara meira út á braut staðbundinna friðana og athugana á veiðarfærum og slíku og ég held að þessi tillaga gæti tvímælalaust verið til bóta í þessu. Mér þykir mjög skrýtið að það skuli ekki hafa verið tekið inn í þessa athugun að kanna þessi mál, en kannski eru menn komnir í slíkan spreng í þessum erfiðu málum að þeir eru ekki reiðubúnir til þess að ganga lengra núna.
    Ég hef áður nefnt það að vera má að ein af sáttum sem muni nást sé að tvískipta okkar sjávarútvegskerfi t.d. eitthvað í áttina að því sem Japanir hafa gert þar sem þeir skipta sínum miðum og sínum veiðum í strandveiðar, veiðar innan eigin fiskveiðilögsögu og síðan úthafsveiðar eða veiðar á fjarlægum miðum. Og ég held að kannski sé í framtíðinni hægt að líta svo á að varðandi strandveiðarnar og að miklum hluta til veiðar innan fiskveiðilögsögu þá eigi að taka upp byggðakvóta. Þetta er það sama og Japanir gera. Þeir eru með slíkt á aldagömlum merg og það má segja að það erum við líka. Við höfum átt sjávarútvegsbyggðarlög sem eru mjög háð einmitt strandveiðunum eða veiðunum sem eru næst landi og við höfum staðið í eilífðarbaráttu um það að þessar veiðar verði bara einfaldlega ekki slegnar af. Með einhverri slíkri skiptingu mætti kannski tryggja þetta í sessi og ná sátt um þann byggðakvóta sem við kvennalistakonur höfum látið okkur dreyma um og teljum að væri til mjög mikilla hagsbóta og kannski værum við ekki með þessa voðalegu Vestfjarðatillögu sem leysir í rauninni því miður ekki þann vanda sem henni er ætlað, gerir það a.m.k. á snarvitlausan hátt ef hún leysir eitthvað, ef við byggjum svo vel að hafa tekið upp

slíkt kerfi.
    Það er sagt í skýrslu tvíhöfða nefndar að Japönum hafi tekist að marka sína sérstöku leið til fiskveiðistjórnunar og þeir hafi forðast grimmilegustu örlög samkeppnisfiskveiða, þ.e. algera sóun fiskveiðiarðsins og hrun fiskstofna. Þetta er ekkert lítið og ég held að við ættum, fyrst þessi skýrsla er sá grunnur sem við erum að vinna á núna, að taka svolítið meira mark á því sem þar stendur og kannski fara að leita betur vegna þess að það er alveg ljóst að sú umræða sem verið hefur hér að undanförnu hefur leitt í ljós að það er ekki bara bullandi ágreiningur um þá niðurstöðu sem nú er verið að reyna að keyra í gegn á vordögum, heldur eru menn alls ekki búnir að sjá fyrir allar afleiðingarnar. Þar af leiðandi eru þeir að ávísa á óvissu í þessu mikilvægasta hagsmunamáli okkar Íslendinga sem eru fiskveiðarnar.