Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 16:39:59 (7722)


[16:39]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að beina nokkrum spurningum til hæstv. viðskrh. og iðnrh. og hæstv. landbrh. Í greinargerð fyrir þessu frv. kemur fram að önnur veigamikil rök fyrir að breyta rekstrarformi Áburðarverksmiðju ríkisins yfir í hlutafélagaform sé að rekstur fyrirtækisins verði hagfelldari og sveigjanlegri á ýmsa lund, svo vitnað sé orðrétt í greinargerðina. Það má því ráða af greinargerð frv. og einnig almennum rökum með frv. að við þessa breytingu verði reksturinn, eins og hér segir, hagfelldari og þá væntanlega arðbærari fyrir eigendur hlutabréfanna en áður.
    Ég hef lesið þessa greinargerð mjög rækilega en ég hef hvergi séð minnst á tvö atriði sem ég held að hljóti að verða mjög veigamikil þegar staða þessa fyrirtækis verður metin eftir að breytingarnar hafa átt sér stað. Annað atriðið er orkuverðið sem fyrirtækið greiðir og hefur greitt um langan tíma og hitt atriðið er hugsanlegar kærur annarra fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu út frá almennum samkeppnisreglum sem gilda á svæðinu.
    Á Íslandi hefur það tíðkast í verðlagningu á orku að fyrirtæki sem eru alfarið í eigu erlendra aðila eða með blandaðri eignaraðild og um eru sett sérstök lög hafa notið velvildar í verðlagningu á orku. Síðan eru önnur tilvik þar sem Landsvirkjun hefur tekið ákvörðun um að styrkja óbeint rekstur fyrirtækisins með því að selja orkuna ódýrari en öðrum samkeppnisfyrirtækjum í iðnaði er seld orkan á. T.d. er starfandi á höfuðborgarsvæðinu mikill fjöldi myndarlegra fyrirtækja í iðnaði sem þurfa að kaupa orkuna á miklu hærra og dýrara verði en Áburðarverksmiðja ríkisins hefur gert fram til þessa. Ég vil spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh. hvort hann telji í fyrsta lagi eðlilegt að Áburðarverksmiðjan njóti áfram þeirra hagstæðu kjara í orkusölu ef fyrirtækið er selt á þann hátt að það verður eins og hvert annað einkafyrirtæki.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh. að því hvort hann telji að það sé framkvæmanlegt út frá almennum samkeppnisreglum Evrópska efnahagssvæðisins og þeirri löggjöf sem tekið hefur gildi hér á landi að halda áfram þeim samningum sem gerðir hafa verið um orkusölu til Áburðarverksmiðjunnar eftir að hún er orðin hlutafélag í einkaeign og starfar þannig á almennum samkeppnisgrundvelli innan svæðisins. Í greinargerðinni kemur fram að í Vestur-Evrópu standa áburðarverksmiðjur með mikla ónýtta framleiðslu. Það er þess vegna alveg ljóst að aðrir samkeppnisaðilar á Evrópska efnahagssvæðinu munu mjög fylgjast með því hvaða starfsskilyrði þessu fyrirtæki eru búin. Með því að breyta fyrirtækinu í hlutafélag og selja hlutabréfin, eins og stefnt er að samkvæmt þessu frv., er augljóslega verið að gera fyrirtækið þannig úr garði að um það geta ekki gilt nein sérstök réttindi. --- Virðulegi forseti. Nú er vont að missa hæstv. landbrh. úr salnum og er lágmark að þeir ráðherrar sem eru að leggja kapp á það að frumvörp þeirra séu afgreidd hér séu í salnum, sérstaklega þegar það eru ekki langar ræður sem maður ætlar að flytja.
    ( Forseti (GHelg) : Hæstv. landbrh. er kominn.)
    ( Landbrh.: Landbrh. heyrði hvert einasta orð.) Það hef ég enga tryggingu fyrir vegna þess að hann var ekki hér í augsýn. ( Landbrh.: Enda er þingmaðurinn skýrmæltur.)
    Ég ætlaði að spyrja hæstv. landbrh. að því hvort hann geti lagt fram í þinginu athugun á því hvernig arðsemi fyrirtækisins breytist við breytingar á orkuverði. Hver er arðsemi Áburðarverksmiðju ríkisins ef hún greiðir sama orkuverð og önnur iðnfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu þurfa að greiða? Getur hæstv. ráðherra lagt hér fram greinargerðir um það hvaða rekstrargrundvöll verksmiðjan hefur ef hún þarf að lúta slíkum almennum skilyrðum?
    Við sem höfum setið í stjórn Landsvirkjunar þekkjum það mjög vel að það hefur verið almennur skilningur þar í stjórninni um langt árabil að Áburðarverksmiðja ríkisins verði að njóta sérréttinda í verðlagningu á orku. Þess vegna er staðreynd málsins sú að Landsvirkjun hefur óbeint styrkt kaupendur á áburði í landinu um langt árabil með verðlagningu á orku til þessarar verksmiðju. Verði þetta frv. að lögum og salan síðan framkvæmd á grundvelli laganna, þá sýnist mér einsýnt að Landsvirkjun hafi enga möguleika til að halda áfram þeirri verðlagningu. Mér sýnist líka einsýnt út frá þeim upplýsingum sem ég hef að þar með verði slíkur bullandi taprekstur á Áburðarverksmiðju ríkisins, verði hún að kaupa orkuna með sama verði og önnur fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, að það muni ekki nokkur heilvita maður með vit á peningum kaupa hlutabréf í þessu fyrirtæki. Þess vegna sýnist mér að sé það ætlun ríkisstjórnarinnar að fá þetta frv. lögfest og framkvæma það, þá hljóti það að jafngilda því að Áburðarverksmiðja ríkisins verði lögð niður.
    Ég sakna þess mjög að í framlagningu málsins er engin grein gerð fyrir orkuverðsþættinum sem þó er afdrifaríkasti þátturinn í rekstrargrundvelli verksmiðjunnar og sem, eins og ég hef hér rakið, hlýtur

að taka breytingum við gildistöku frv. með hliðsjón af almennum samkeppnisákvæðum á Evrópska efnahagssvæðinu, enda bent á það í greinargerðinni að Áburðarverksmiðjur á þessu svæði eiga mikla ónýtta framleiðslugetu og hljóta þess vegna að huga vandlega að stöðu sinni í samanburði við Áburðarverksmiðju ríkisins. Mér sýnist þess vegna að ef hæstv. iðn.- og viðskrh. og hæstv. landbrh. geta ekki fullvissað þingið um það að Áburðarverksmiðjan muni áfram geta notið þeirra sérkjara sem hún hefur notið við kaup á orku, þá sé hér einfaldlega verið að lögtaka ákvörðun um það að leggja Áburðarverksmiðju ríkisins niður.
    Nú má í sjálfu sér alveg ræða það hvort hér eigi að vera starfandi áburðarverksmiðja eða ekki. Ég ætla ekki út í þá umræðu hér og nú. En mér finnst það vera mikill galli af hálfu þessara tveggja ágætu ráðherra að gera þinginu ekki grein fyrir þessum þætti málsins. Til viðbótar við það sem ég hef nefnt, þá er það líka ljóst að verði starfsemi Áburðarverksmiðjunnar hætt þá hverfur af markaðnum hér á höfuðborgarsvæðinu einn af stærri viðskiptavinum Landsvirkjunar. Þar með er enn minni þörf á framkvæmdum í orkumálum fyrir almenna orkunotkun á höfuðborgarsvæðinu á næstunni þannig að tímasetningu nýrra virkjana sem hæstv. núv. iðnrh. hefur verið að gera grein fyrir að undanförnu hlýtur að seinka enn frekar. Þess vegna hefur þetta frv. miklu víðtækari afleiðingar en þær sem grein hefur verið gerð fyrir í umræðum um málið fram til þessa.
    Ég ætla í sjálfu sér, virðulegi forseti, ekki að lengja þessa umræðu neitt frekar, en tel óhjákvæmilegt að þessir tveir virðulegu ráðherrar geri þinginu grein fyrir þessum þáttum málsins.