Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 17:06:35 (7729)


[17:06]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er enn um að ræða svör og andsvör við þeirri ræðu sem ég flutti áðan þannig að hæstv. landbrh. kemst ekki að fyrr en því er lokið en hann hefur þegar beðið um orðið. Ég vil aðeins þakka hv. þm. fyrir að benda á að ábyrgðarvæðing ríkisfyrirtækja er væntanlega af hinu góða. Ég skildi hans orð þannig og væntanlega styður hann þá þetta frv. þegar hann hefur fengið þá skýringu á því að að svo komnu máli er ekki um að ræða annað en ábyrgðarvæðingu, þ.e. breytt rekstrarform. Þá tel ég að við félagar getum fallist í faðma og afgreitt saman gott mál í anda þeirra sósíaldemókrata sem við teljum okkur báðir vera nokkuð skylda og eru að afgreiða sams konar mál í löndunum í kringum okkur.