Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 17:07:33 (7730)


[17:07]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það væri í sjálfu sér alveg hægt að ná samkomulagi við mig um þetta frv. ef það væri punktur á eftir orðinu ,,félaginu`` í 3. gr. en það er bara ekki punktur þar. Þar stendur: ,,Honum er heimilt að selja öll hlutabréf í félaginu eða hluta þeirra.``
    Hér er sem sagt með þessu frv. verið að fela einum manni skilyrðislausa heimild til þess að selja þessa ríkiseign. Ég vek athygli ráðherrans á því að í fyrstu setningu greinargerðarinnar er vísað til hinnar almennu stefnu ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu svo ég vitni bara orðrétt í þetta þannig að hið merka hugtak ,,ábyrgðarvæðing``, sem ég fagna að er komið hér fram, er bara hvergi í þessu frv.
    Ég vil hins vegar nota seinna andsvar mitt til þess að draga í efa þá fullyrðingu hæstv. ráðherra að stofnanir EES-svæðisins mundu ekki gera athugasemdir við það að raforka til Áburðarverksmiðju ríkisins væri seld á öðru verði en raforka til almennra iðnfyrirtækja eftir að búið væri að selja fyrirtækið. Það er viðurkennt af ráðherranum sem ég sagði áðan að væri raforkan seld áfram á lægra verði væri um form af ríkisstyrk að ræða. Orkusölufyrirtækið er samfélagsleg eign ríkis og sveitarfélaga. Verðlagningarstefna til einkaaðila sem fæli í sér lægra orkuverð en til almennra iðnfyrirtækja væri bara annað form á ríkisstyrk.
    Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það að eftirlitsstofnanir Evrópska efnahagssvæðisins kynnu að kveða upp þennan úrskurð en ég tel ekki að það sé einsýnt að þær mundu ekki gera það því auðvitað er hægt að koma ríkisstyrkjum á framfæri með margvíslegum hætti. Það er einmitt hlutverk eftirlitsstofnunar EES að kanna það að menn séu ekki að koma ríkisstyrkjum á framfæri með óbeinum hætti og skekkja

þannig samkeppnisstöðuna.
    Áburðarverksmiðjur á Evrópska efnahagssvæðinu sem greiddu hærra orkuverð gætu þess vegna hæglega bent á það að það væri verið að mismuna samkeppnisaðilum á Evrópska efnahagssvæðinu ef þessi skipan héldist áfram.