Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 17:39:34 (7740)


[17:39]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var auðvitað ekki mikið að vöxtum þetta svar hæstv. ráðherra. Hann klifar á því að það verði til þess að tryggja fólkinu sem vinnur núna hjá Áburðarverksmiðjunni atvinnuna að gera þetta fyrirtæki að hlutafélagi. Ég vildi gjarnan fá nánari útskýringar á því hvernig það á að tryggja starfsmönnum Áburðarverksmiðjunnar atvinnu. Ég held að það sé þvert á móti ekki neitt sem bendir til þess að þetta hf. verði þeim til neinnar tryggingar og það hefur reyndar ekki orðið í þeim fyrirtækjum sem hafa verið seld mönnum nein sérstök trygging og síst ætti það að verða trygging því fólki sem vinnur hjá Áburðarverksmiðjunni vegna þess að þar er enga framtíð að sjá eins og er. Auðvitað verður þetta fyrirtæki ekki selt neinum aðila og það verður ekki rekið nema nokkra mánuði eins og nú horfir nema menn finni einhverjar nýjar leiðir sem þeir hafa ekki verið tilbúnir að segja frá hér og sem ég því miður efast um að séu fyrir hendi. Það er auðvitað ákvörðun ríkisstjórnarinnar þegar hún skrifaði undir EES-samningana með þeim hætti eins og frá þeim var gengið sem varð til þess að setja þetta fólk sem vinnur þarna út á gaddinn og í þá atvinnuóvissu sem nú er. En ekki það hvort hv. Alþingi samþykki frv. um það að gera fyrirtæki að hlutafélagi.