Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 17:42:45 (7743)


[17:42]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Satt að segja er hún orðin nokkuð athyglisverð þessi umræða í dag um þetta fyrirtæki og ég ætla fyrst aðeins að víkja að því sem fram kom, áður en ég kem að meginefni ræðu minnar, í máli hæstv. iðnrh. hér áðan varðandi orkusölu og orkuverð til þessa fyrirtækis og annarra iðnfyrirtækja.
    Það er alveg ljóst að stjórn Landsvirkjunar ræður lögum samkvæmt yfir orkuverði þess fyrirtækis. Það er hins vegar jafnljóst að auðvitað hefur iðnaðar- og orkuráðherra á hverjum tíma vissa möguleika til þess að reyna a.m.k. að hafa áhrif á niðurstöður stjórnar Landsvirkjunar og fyrir því eru mörg dæmi. Ég er alveg sannfærður um það, hæstv. forseti, að ef staðan er þannig að við erum með einkafyrirtæki sem framleiðir þessa vöru, stórt efnaiðnaðarfyrirtæki, fær raforkuna á þessu tiltekna verði þá er náttúrlega um leið alveg ljóst að önnur einkafyrirtæki í iðnaði í landinu munu þrýsta á iðnrh. um það að hann sæki það til orkumálaráðherra að verðið verði lækkað til annarra iðnfyrirtækja líka. Og þó að svo vilji til að Landsvirkjun eigi allt of mikið af raforku um þessar mundir og það sé verið að framleiða þar í raun og veru langt umfram þarfir og Landsvirkjun þar af leiðandi m.a. rekin með bullandi tapi þá er það væntanlega svo að það eru takmörk fyrir því hversu langt Landsvirkjun getur gengið í því að líta svo á að orka sem hún

selur í dag megi fara á miklu lægra verði vegna þess hvernig ástandið er hjá fyrirtækinu. Auðvitað hlýtur Landsvirkjun að reyna að halda utan um sínar tekjur og stjórn Landsvirkjunar eins og kostur er og þess vegna má auðvitað líka færa rök að því að stjórn Landsvirkjunar muni frekar vilja selja þessu fyrirtæki raforku við því verði sem greitt er í dag heldur en ekki neitt. En það þýðir ekki að staðan sé þannig að Landsvirkjun muni hafa áhuga á því að öll iðnfyrirtæki í landinu borgi jafnlítið fyrir raforkuna og þetta fyrirtæki. Ég tel þess vegna að þau svör sem fram komu hjá hæstv. iðnaðar- og orkuráðherra í þessum efnum hér áðan séu á misskilningi byggð.
    Ég tel hins vegar, hæstv. forseti, að það megi leiða gild rök að því að það sé skynsamlegast fyrir ríkið að eiga þetta fyrirtæki enn um sinn. Fyrst og fremst af þremur ástæðum: Í fyrsta lagi vegna þess að ríkið á líka, ásamt Reykjavíkurborg, Landsvirkjun og það er skynsamlegt fyrir Landsvirkjun að losa sig við raforku þó við þetta lágu verði sé einhvern tíma í viðbót. Í öðru lagi vegna þess að hér er um að ræða mannafla í landinu umfram það sem vinnumarkaðurinn kallar eftir eins og sakir standa í dag. Það er ekki svo að þeir menn sem vinna núna hjá Áburðarverksmiðjunni mundu fá vinnu áfram annars staðar um leið og fyrirtækið hefði lagt niður störf. Þannig eru rök fyrir því fyrir ríkið --- af því að ríkið á stóran hlut í Landsvirkjun og af því að ríkið ber ábyrgð á Atvinnuleysistryggingasjóði þá eru einmitt rök fyrir því að ríkið eigi þetta fyrirtæki áfram og það hefur ekkert með það að gera hvaða skoðun flokkur eins og Alþb. hefur á því hvort fyrirtæki eigi að vera ríkiseign eða ekki. Mín skoðun í því sambandi er sú, hæstv. ráðherra, að það skipti engu máli út af fyrir sig hvort fyrirtæki er í ríkiseign eða einkaeign. Það er ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er það hvernig þjónar fyrirtækið sínu almenna félagslega og efnahagslega umhverfi. Það er það sem skiptir máli en ekki það hvort fyrirtækið er í einkaeign eða ríkiseign. Þess vegna er það gömul deila, úrelt deila, gamaldags deila, sem engu máli skiptir lengur hvaða sjónarmið menn kunna að hafa uppi í þessum efnum. Staðreyndin er auðvitað sú að einu kreddurnar sem eftir lifa í íslenskum stjórnmálum varðandi rekstrarform fyrirtækja eru ekki í Alþb. þær eru í Sjálfstfl. Þar eru kreddurnar uppi vaðandi. Þær kreddur að engin fyrirtæki megi vera í félagslegri eigu og þau eigi öll að selja hvað svo sem í boði kann að vera. Maður sér auðvitað handarbakavinnubrögðin í þessu sambandi, t.d. í sambandi við SR-mjöl, þar sem kreddurnar eru látnar ná yfirhöndinni og endar með því að þau kjör sem þjóðin eða ríkið fær fyrir þessar eignir eru slök og varla boðleg.
    Hér hefur verið farið aðeins yfir þetta fyrirtæki, Áburðarverksmiðju ríkisins, og ég vil fyrst segja það að ég tel að þar hafi bersýnilega náðst stórkostlegur rekstrarárangur á undanförnum árum. Það kemur í ljós t.d. að verð á áburði frá Áburðarverksmiðjunni hefur lækkað um 43% á föstu verðlagi frá árinu 1985 til ársins 1993. Það er í raun og veru alveg ótrúlega mikil breyting sem þarna er um að ræða.
    Í ársskýrslu Áburðarverksmiðju ríkisins fyrir árið 1993 er aðeins fjallað um framtíðarhorfur fyrirtækisins og þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hér að framan var þess getið að nokkur óvissa ríkti um framtíð áburðarframleiðslu hér á landi. Íslenski áburðarmarkaðurinn er mjög lítill eða um 50--53 þús. tonn. Ef áburðarnotkun dregst ekki meira saman en orðið er og ef Áburðarverksmiðjunni tekst að halda 95--100% hlutdeild í markaðinum hefur hún möguleika á að framleiða áburð á samkeppnishæfu verði.``
    Ég vek athygli þingheims á þessu. Þetta er nokkuð til umhugsunar miðað við það sem mér virðist að menn hafi almennt talið að þetta fyrirtæki væri svo komið að fótum fram að það væri ekki hægt að reka það áfram. En niðurstaðan í ársskýrslu Áburðarverksmiðjunnar er sú að miðað við allar aðstæður þá sé hugsanlegt að halda starfsemi verksmiðjunnar áfram og framleiða áburð á samkeppnishæfu verði.
    Síðan segir: ,,Minnki framleiðsla og sala Áburðarverksmiðjunnar um 15--20% frá því sem hún er nú mun verksmiðjan verða undir í samkeppninni við innfluttan áburð.``
    Það er sem sagt forsendan sem menn gefa sér, segjandi sem svo að það sé ekki hægt að reka þetta fyrirtæki áfram ef framleiðsla og sala Áburðarverksmiðjunnar minnkar um 15--20% frá því sem hún er nú. --- Hæstv. landbrh. er væntanlega enn þá í kallfæri, er það ekki hæstv. forseti? Já, mér heyrist að svo sé.
    En mér finnst að þetta sé snúningspunkturinn í málinu, að menn gefa sér þá að framleiðsla á áburði hljóti að minnka um 15--20% og þar með sé fyrirtækið ekki í þeirri stöðu að það borgi sig að reka það lengur. Þetta er það sem kemur hérna fram. Hvað mundum við þá gera berandi ábyrgð á þessu fyrirtæki? Mundum við þá ekki fyrst spyrja: Er það óhjákvæmilegur dómur að áburðarnotkun verði að minnka um 15--20% hér á Íslandi á næstu árum? Verður það að vera þannig? Og hvaða rök hafa menn fyrir því? Jú, þau rök sem menn hafa fyrir því eru m.a. samdráttur í landbúnaðarvöruframleiðslu hér á landi og það kemur fram á bls. 3 í greinargerð ríkisstjórnarinnar með frv. þar sem stendur, með leyfi forseta:
    ,,Verði samþykktar nýjar reglur sem nú er fjallað um á vettvangi GATT má vænta enn frekari samdráttar í framleiðslu búvöru hér á landi sem búast má við að dragi úr notkun tilbúins áburðar.``
    Þetta er sem sagt ástæða nr. eitt, að GATT-samningurinn gerir það að verkum að það verði einhver innflutningur á búvörum og þess vegna dragi úr notkun tilbúins áburðar. Og nr. tvö, með leyfi forseta, segir hér í greinargerð:
    ,,Loks ber að nefna að samkvæmt fyrrgreindum samningi um Evrópskt efnahagssvæði fellur niður ríkiseinkaréttur til sölu á tilbúnum áburði hér á landi frá og með 1. janúar 1995. Telja verður líkur á því að þessi atriði sem hér hefur verið drepið á kunni að leiða til umtalsverðs samdráttar í sölu á tilbúnum áburði hér á landi.`` --- Þetta segir í greinargerð frv., um fyrirtæki sem á að fara að selja. Það er nokkuð magnað að sverta það með þessum hætti en hér stendur, með leyfi forseta: --- ,,Sú hætta blasir við að sala Áburðarverksmiðjunnar dragist verulega saman og verksmiðjunni reynist ókleift að ná viðunandi rekstrarhagkvæmni miðað við framleiðslumagn.``
    Sem sagt, ríkisstjórnin sem ætlar að fara að selja fyrirtækið afskrifar það, hún afskrifar fyrirtækið og það er það sem hlýtur að vera sérstakt umhugsunarefni. Erum við sammála því hér að það sé rétt að afskrifa fyrirtækið? Erum við sammála því að það sé útilokað að fá það verð fyrir fyrirtækið sem geti heitið skaplegt og að útilokað sé að tryggja því verkefni þannig að hægt sé að reka það áfram? Mín skoðun er sú eftir að hafa hugleitt þetta aðeins að það sé hægt og skynsamlegt að reka fyrirtækið áfram miðað við það að salan á áburði dragist ekki mikið saman frá því sem nú er. Ég tel sem sagt að við þessar aðstæður hljóti ríkisstjórnin að velta því fyrir sér hvort eitthvað sé hægt að gera til þess að auka notkun á því sem kallað er tilbúinn áburður til þess að fyrirtækið verði rekið áfram með skynsamlegum og hagkvæmum hætti. Þegar það mál er skoðað, þá er það alveg ljóst eða ég held alla vega að menn ættu að velta því fyrir sér og ég spyr hæstv. landbrh.: Hafa menn farið yfir það hvað er hægt að gera, m.a. í gróðurverndarátaki af ýmsu tagi, til þess að auka framleiðslu á áburði eða a.m.k. koma í veg fyrir að hún minnki? Ég held að það sé alveg augljóst mál að það væri hagkvæmt að það gerðist og mun ég nú rökstyðja það nokkuð nánar.
    Í fyrsta lagi er það auðvitað vegna þess að þarna er um að ræða mjög verulega tækniþekkingu í þessari verksmiðju sem færi forgörðum ella ef henni yrði lokað. Þarna er um að ræða mikinn fjölda vel þjálfaðra og góðra starfsmanna og það væri tjón fyrir ríkið, fyrir þjóðina ef þessi tækniþekking nýttist ekki.
    Í öðru lagi er það auðvitað þannig að fyrirtækið er þrátt fyrir allt með þennan orkusamning þar sem verðlagið á orkunni er mjög lágt. Engu að síður munar pínulítið um þá peninga upp í þann halla sem Landsvirkjun er núna að berjast við og kom mjög glöggt fram á fundi Landsvirkjunar fyrir nokkrum dögum þannig að rök nr. tvö fyrir því að halda fyrirtækinu gangandi enn um sinn um nokkurra ára skeið er ástandið á orkumarkaðnum. Það eru sjálfstæð rök í málinu að mínu mati.
    Í þriðja lagi er ljóst að þarna er um að ræða tæki og búnað sem ekki væri hægt að láta skapa verðmæti af neinu tagi ef fyrirtækinu yrði lokað.
    Í fjórða lagi sem er mikilvægast í málinu er þetta: Verði fyrirtækinu lokað, þá er það þannig eins og staðan er á vinnumarkaði á Íslandi í dag að þetta fólk yrði atvinnulaust. Það eru milli 100--200 manns sem missti atvinnu sína og hvað er þetta fyrirtæki að borga mikið í vinnulaun? Það er að borga á síðasta ári tæpar 300 millj. kr. í vinnulaun. Það er býsna myndarlegt og það munar æðimikið um það að hafa þetta fólk í vinnu og að því sé greitt um 300 millj. kr. Þess vegna er staðan þannig að maður hlýtur að ætlast til þess að landbrh. svari þessu: Hefur hann leitað leiða til að auka notkun á áburði eða a.m.k. koma í veg fyrir að hún minnki þannig að Áburðarverksmiðjan verði samkeppnisfær við innfluttan áburð sem kemur hingað í vaxandi mæli eftir árslok 1995? Hvaða ráða hefur hæstv. landbrh. leitað í þeim efnum? Honum er skylt að leita þeirra áður en hann afskrifar fyrirtækið eins og mér finnst satt að segja gert í þeirri greinargerð með frv. ríkisstjórnarinnar sem hér er til umræðu.
    Ég vil síðan vekja athygli á því, hæstv. forseti, að auðvitað er það svo að fyrirtækið færi lóðbeint á hausinn ef snarhækkað yrði á því orkuverðið, það liggur alveg í augum uppi. Fyrirtækið borgaði á síðasta ári 107 millj. kr. fyrir raforku af samtals tæplega 1,1 milljarði í rekstrarkostnað. Og ef þetta verð yrði hækkað eitthvað í námunda við það sem menn gætu verið með á venjulegum orkumarkaði, segjum þrefaldað, þá náttúrlega er fyrirtækið farið á höfuðið vegna þess að 300 millj. kr. orkureikningur mundi þýða um 150 millj. kr. tap á fyrirtækinu á árinu 1993. Þar á móti kemur hins vegar það að staða þessa fyrirtækis er í raun og veru ótrúlega góð. Eiginfjárstaða þess er góð. Eigið fé samtals er 1.800 millj. kr. og miðað við það tal sem hér er uppi, þá gæti maður ímyndað sér að enginn vildi kaupa þetta fyrirtæki, þetta sé svo vont fyrirtæki að engin ástæða sé til þess að kaupa þetta fyrirtæki. Ég hygg að staðreyndin sé sú að það sé misskilningur. Í raun og veru sé hægt að gera nokkuð góðan slag í því að kaupa þetta fyrirtæki og kemur þá margt til. Eins og t.d. það að lausafjárstaða fyrirtækisins er upp á um það bil 820 millj. kr. eftir að skuldir hafa verið greiddar niður. Og ef fastafjármunir væru seldir fyrir 20% af skráðu verði, þá er sá sem keypti fyrirtækið á milljarð þegar með um 100 millj. kr. í gróða af fyrirtækinu þannig að hérna er ekki um að ræða eitthvað alveg vonlaust fyrirtæki eins og mér finnst menn stundum tala um hér.
    Síðan er því auðvitað við að bæta að þetta fyrirtæki hefur þennan orkusamning, sem er góður samningur, sem er verðmæti út af fyrir sig, geysilegt verðmæti. Síðan á þetta fyrirtæki þessar vélar sem auðvitað er hægt að tryggja að vinni áburð áfram nú eða má auðvitað hugsa sér að þær yrðu að einhverju leyti seldar í hlutum og ef menn halda að þessi tala upp á 820 millj. kr. í lausafé sé einhver glannaskapur, þá bið ég menn um að líta á ársreikningana því að hluti af henni er um 440 millj. kr. í áburðarbirgðum á framleiðsluverði sem auðvitað eru seldar með einhverri álagningu. Væri þetta selt með um 30% álagningu fengjust þar um 130 millj. kr. í viðbót þannig að hér er um álitlegt fyrirtæki að ræða fyrir þann sem vildi kaupa eitt stykki áburðarverksmiðju Málið liggur þannig svo að ég held að menn eigi ekki að slá því föstu að hér sé um að ræða eitthvert vonlaust fyrirtæki eins og menn eru að gera í greinargerð frv. eins og það lítur út.
    Út af fyrir sig geta menn sett dæmið þannig upp að þar með verður fyrirtækið vonlaust. Ef ríkið segir alltaf: Fyrirtækið er vonlaust, þá verður það fyrst vonlaust og staðan er auðvitað þannig að ef ríkið og forustumenn þess tala þannig um þessi mál að hér sé um að ræða vont fyrirtæki, þá verður það vont fyrirtæki.
    En fyrir utan orkusamninginn, fyrir utan tækniþekkinguna og fyrir utan þann mikla og góða mannskap sem þarna vinnur, þá kemur einnig til viðbótar hjá þessu fyrirtæki sem er sérstaklega hagstætt og til umhugsunar og það er landið. Ég bendi á að þetta fyrirtæki er á einu eftirsóttasta landi Reykvíkinga. Og það er alveg augljóst mál og menn þekkja það frá fyrri árum að við Reykvíkingar höfum dregið það mjög í efa að það sé að öllu leyti heppilegt að hafa þetta fyrirtæki einmitt á þessum stað í nágrenni við Grafarvogsbyggðina í seinni tíð þó að við höfum í sjálfu sér látið það yfir okkur ganga. Staðreyndin er hins vegar sú: Setjum sem svo að landið undir þessu fyrirtæki losnaði. Setjum sem svo að menn kæmust að þeirri niðurstöðu að loka þessari verksmiðju og landið losnaði. Ég er sannfærður um það að hér er um að ræða einhverjar dýrustu og eftirsóttustu byggingarlóðir sem hugsast geta á Reykjavíkursvæðinu. Þessi lönd eru sýnist mér metin í fljótu bragði á í kringum 200 millj. kr. í efnahagsreikningi fyrirtækisins og ég er sannfærður um að það er örugglega ekki ofmetið að ekki sé meira sagt, þannig að þegar maður skoðar þetta fyrirtæki og skoðar stöðu þess, þá verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst rökin fyrir því að staldra við og fresta þessu máli núna verða veigameiri og veigameiri, fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin leggur upp með málið á vitlausum forsendum, af því að ríkisstjórnin gefur sér það að þetta sé vont og vonlaust fyrirtæki. Staðreyndin er auðvitað sú að jafnvel þrátt fyrir samninginn að Evrópsku efnahagssvæði þá er hægt að leiða rök að því að það sé hægt að láta þetta fyrirtæki ganga áfram. Mér finnst það vera fyrst og fremst til marks um trúleysi á getu og möguleika fyrirtækisins hvernig hæstv. landbrh. leggur þetta upp vegna þess að ég tel mig hafa sýnt fram á að það sé hægt að færa sterk rök að því að þetta fyrirtæki eigi að geta starfað með þolanlegum hætti núna allra næstu árin a.m.k. þann tíma sem ástandið er jafnslæmt á vinnumarkaði og það er í dag og sem ástandið á orkumarkaðnum er jafnhörmulegt og það er í dag og reikningar Landsvirkjunar bera skýrast vitni um. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. landbrh. mjög eindregið til þess að hætta við það á þessu vori að selja þetta fyrirtæki vegna þess að ég held að það þurfi að skoða þessar forsendur miklu, miklu betur. Þær forsendur sem ríkisstjórnin gefur sér eru beinlínis rangar og leiða til þess að menn meta vitlaust þá möguleika sem felast í þessu fyrirtæki.
    Ég endurtek að lokum þá spurningu sem ég bar fram til hæstv. landbrh.: Hvað hefur landbrn. gert til að kanna möguleikana á því að sala á áburði geti orðið svipuð á allra næstu árum og hefur verið nú um nokkurt skeið, þ.e. miðað við árið 1992 og 1993 þar sem um er að ræða framleiðslu eða sölu upp á 50--53 þúsund tonn sem mér sýnist miðað við þær tölur sem ég hef hér að gæti dugað til þess að fyrirtækið gæti í grófum dráttum haldið áfram að ganga upp? Fyrirtækið skilaði þrátt fyrir allt hagnaði á síðasta ári upp á um það bil 50 millj. kr. Þetta er ekkert vandræðafyrirtæki eins og það hefur verið rekið á undanförnum árum. Það hefur verið myndarlega á þessu tekið, vandamálum þess af núverandi forustu fyrirtækisins og ég held þess vegna að það sé ástæða til að staldra við og ég hvet ráðherrann auðvitað til að svara spurningunni og jafnframt til að leggja málið til hliðar vegna þess að ég held að það sé á misskilningi byggt.