Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 18:12:37 (7749)


[18:12]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að hv. 3. þm. Vestf. skuli taka undir það sjónarmið sem fram kom hjá mér áðan að hér væri um að ræða sterkt og öflugt fyrirtæki þrátt fyrir allt. Það er hins vegar ljóst að þetta fyrirtæki er, eins og hv. þm. sagði, að ganga inn í nýjan veruleika, veruleika sem hv. þm. ber talsverða ábyrgð á að hafa leitt fyrirtækið inn í, engu að síður nýjan veruleika. En mín niðurstaða áðan var sú að þegar við skoðum orkusamningana sem fyrirtækið hefur, skoðum ástandið á vinnumarkaði, skoðum tæki, skoðum tækniþekkingu, skoðum lóð og lendur sem þarna er um að ræða, að það sé skynsamlegt að beita sér fyrir því að þetta fyrirtæki verði rekið áfram, a.m.k. með þá framleiðslu sem hefur verið, miðað við 50--53 þús. tonna áburðarsölu á ári, þannig að það séu allar forsendur til þess að þetta fyrirtæki geti starfað þrátt fyrir þessa erfiðu ytri samkeppni a.m.k. þann tíma sem ástandið á orkumarkaðnum og vinnumarkaðnum er eins og það er. Þess vegna tel ég að hv. þm. sé í raun og veru sammála mér um það að rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að fyrirtækið sé lélegt fyrirtæki sem þurfi þess vegna að losa sig við eru röng.