Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 18:16:16 (7751)


[18:16]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem ég sagði um orkuverðið áðan var fyrst og fremst það að önnur iðnfyrirtæki í landinu munu leita eftir því að fá a.m.k. jafnhagstæða samninga og þetta fyrirtæki hefur. Það er alveg augljóst mál.
    Varðandi hitt atriðið sem hv. þm. nefndi þá vil ég vitna í grg. hæstv. ríkisstjórnar á bls. 3. Hvað stendur þar? Þar er fyrirtækið í raun og veru afskrifað. Hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Sú hætta blasir við að sala Áburðarverksmiðjunnar dragist verulega saman og að verksmiðjunni reynist ókleift að ná viðunandi rekstrarhagkvæmni miðað við framleiðslumagn.``
    Hér er í raun og veru verið að segja að þetta fyrirtæki sé óhjákvæmilega úr sögunni. Ég tel að hvað sem menn ætla að gera þá sé rangt að stíga ný skref í þróun þessa fyrirtækis með þessa grundvallarhugsun í huga. Menn eiga auðvitað að setja sér það að fara yfir mál fyrirtækisins. Mín vegna má skoða það að gera fyrirtækið að hlutafélagi en menn eiga að gefa sér aðrar forsendur en þær sem hér liggja inni.
    Svo bæti ég því við, hæstv. forseti, að það hefur ekki verið sýnt fram á það á neinn hátt eða ég spyr: Hvað breytist, hvað lagast út af fyrir sig við það að fyrirtækið verði hlutafélag? Ég hef ekki séð neitt sem sannar fyrir mér að það muni gjörbreyta og bæta stöðu fyrirtækisins. Ef það er hægt þá mundi ég taka þeim rökum með þökkum. Ég hef ekki heyrt þau enn þá.