Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 18:40:11 (7753)


[18:40]

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst fagna því að hv. þm. Egill Jónsson er mættur til umræðunnar. Hann hefur nokkuð verið til umræðu í dag og er ánægjulegt að hann sé kominn hingað. Vona ég að þingmaðurinn sjái sér fært að vera hér sem lengst.
    Hæstv. landbrh. kaus á laugardaginn að fara með sögukenningar um að það hefði verið sérstakt kappsmál Alþb. að Áburðarverksmiðja ríkisins og ýmsar aðrar verksmiðjur hér væru í ríkiseign. Ég hélt satt að segja að þessar yfirlýsingar ráðherrans á laugardaginn hefðu stafað af almennum óróleika stjórnarsinna vegna hugsanlegra þingloka þann dag. Nú hefur hins vegar hæstv. ráðherra endurtekið þessar fullyrðingar sínar hér í dag. Þá er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að verja nokkrum tíma til að leiðrétta hæstv. ráðherra. Hver var það, hæstv. ráðherra, sem lagði fyrir Alþingi frv. um að þjóðnýta Áburðarverksmiðju ríkisins? Getur hæstv. ráðherra svarað því úr sæti sínu? Hæstv. landbrh., kýs hæstv. landbrh. að svara ekki úr sæti sínu hver hafi lagt fyrir þingið . . .  
    ( Forseti (SalÞ) : Það á ekki að talast við úr sætum.)
    Nei, það er út af fyrir sig rétt, hæstv. forseti, almennt er það nú ekki en hins vegar hefur hæstv. landbrh. á þingferli sínum manna mest rætt við ræðumenn úr sæti sínu þannig að ég reiknaði ekki með að hæstv. ráðherra yrði skotaskuld úr því að nefna eitt mannsnafn úr sæti sínu. En hv. þm. Egill Jónsson kom hins vegar hæstv. landbrh. til hjálpar og nefndi nafn Ingólfs Jónssonar. Það er alveg rétt. Sá ráðherra sem lagði til að Áburðarverksmiðja ríkisins yrði þjóðnýtt árið 1969 hét Ingólfur Jónsson. Hver var Ingólfur Jónsson? Veit hæstv. landbrh. það? Jú hann var landbrh. Sjálfstfl. Forustumaður landsbyggðarhóps Sjálfstfl. var sá maður sem Morgunblaðið sagði fyrir nokkrum mánuðum síðan að núv. hæstv. landbrh. hefði náð að vera arftaki í Sjálfstfl. ( Gripið fram í: Það er ekki lítið.) Staðreyndin er nefnilega sú, hæstv. landbrh., að það var Sjálfstfl. sem lagði til að Áburðarverksmiðja ríkisins yrði þjóðnýtt. Áburðarverksmiðja ríkisins var nefnilega hlutafélag og það var umtalsverð einkaeign af Áburðarverksmiðju ríkisins. Hvaða flokkur kom til þingsins og lagði til að þessi einkaverksmiðja yrði þjóðnýtt? --- Ég skil vel að hæstv. landbrh. staulist nú úr salnum. --- Það var Sjálfstfl. Svo langt gekk Sjálfstfl. í þessari þjóðnýtingar- og ríkisrekstrarviðleitni sinni að hann bað á Alþingi um heimild í lögum til að fá að taka hlutabréfin með eignarnámi. Það var ekki nóg að Sjálfstfl. bæði um heimild til að kaupa hlutabréfin á frjálsum markaði, nei, það dugði þjóðnýtingarflokknum Sjálfstfl. ekki. Hann þurfti heimild frá Alþingi um eignarnám á hlutabréfunum.
    Þess vegna er það auðvitað fullkomin hótfyndni og sögufölsun hjá hæstv. landbrh., Halldóri Blöndal, að endurtaka það dag eftir dag á Alþingi í umræðum um Áburðarverksmiðju ríkisins að Alþb. hafi verið sérstakur ábyrgðarflokkur á því að hér væri rekin þessi ríkisverksmiðja. ( VE: Þetta er misskilningur greinilega.) Já, það er alveg rétt hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að það var algjör misskilningur hjá ráðherranum og er ánægjulegt að þingmenn Sjálfstfl. skuli hver um annan þveran hér í salnum vera farnir að átta sig á því hvers konar endaleysa það er sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur farið með í þessu máli.
    Mig langar þess vegna að lesa fyrir hæstv. landbrh., ef hann getur stillt sig um að lesa Politiken, það sem landbrh. Sjálfstfl., Ingólfur Jónsson, fyrirrennari hv. þm. Halldórs Blöndals, sagði. Ég held ég fari rétt með það, hv. þm. Egill Jónsson leiðréttir mig þá ef ég fer ekki rétt með það, að Ingólfur Jónsson hafi verið sá maður úr Sjálfstfl. sem síðast gegndi embætti landbrh. á undan hv. þm. Halldóri Blöndal. ( Gripið fram í: Nei, Pálmi Jónsson.) Það er að vísu rétt en Pálmi Jónsson var ekki gæðastimplaður af þingflokki Sjálfstfl. í því embætti. Hann var talinn uppreisnarseggur og þingflokkur Sjálfstfl. lýsti algerri andstöðu og vantrausti á þeim ráðherradómi. ( JGS: Og hefur ekki viðurkennt hann almennilega enn.) Hefur ekki viðurkennt hann enn eins og hv. þm. grípur fram í. Að vísu ekki Egill Jónsson heldur hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Þess vegna mun það vera rétt hjá mér að það er enginn landbrh. úr Sjálfstfl., eiginlega frá því að Ingólfur Jónsson lagði fram frv. um að þjóðnýta Áburðarverksmiðjun þar til Halldór Blöndal, næsti landbrh. Sjálfstfl., kemur og fer fram á að hægt sé að afþjóðnýta Áburðarverksmiðjuna.
    Þess vegna spyr maður nú hv. þm. og ráðherra, Halldór Blöndal, hvers konar hringlandaháttur er þetta í stefnu Sjálfstfl. í málefnum þessa fyrirtækis? Síðast þegar Sjálfstfl. fór með landbúnaðarmál þá vildi hann endilega að verksmiðjan væri þjóðnýtt. Nú kemur Sjálfstfl. og biður endilega um að þetta verði hlutafélag á ný. ( JGS: Eru ekki bara fá ár á milli?) Í sjálfu sér eru ekki fá ár á milli, hv. þm. Við vitum að það getur liðið nokkur tími milli þess sem flokkar fara með ráðuneyti. En ég er að rifja þetta upp hér vegna þess að hv. landbrh. kaus að fara í sögulegar umræður um þetta fyrirtæki. Það var ekki að frumkvæði okkar þingmanna sem þær umræður hófust, við héldum okkur við frv. sem hér er til umræðu. En hæstv. landbrh. kaus að koma hér með sögulegar yfirlýsingar í merkingunni sagnfræði um þetta fyrirtæki. Þess vegna fannst mér rétt að rifja það upp fyrir ráðherranum hver það var sem lét þjóðnýta Áburðarverksmiðjuna og gekk svo hart fram í því að honum dugði ekki heimild til að kaupa hlutabréf á markaði heldur vildi hann fá heimild til að hrifsa hlutabréfin með eignarnámi frá þeim einkaaðilum sem höfðu þau í höndum. ( VE: Það er mál til komið að flokkurinn fari að snúa af villu síns vegar í þessu máli.) Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir að mál sé til komið að flokkurinn fari að snúa af villu síns vegar. Það má vel vera, hv. þm., en það er innanhússmál í Sjálfstfl. En mér finnst alveg óþarfi að blanda okkur alþýðubandalagsmönnum, eins og hæstv. landbrh. hefur gert hvað eftir annað, inn í þennan hringsnúning Sjálfstfl. í málefnum þessa fyrirtækis.
    Með leyfi virðulegs forseta, langar mig til að lesa stuttan kafla úr framsöguræðu landbrh. Sjálfstfl., Ingólfs Jónssonar, 1969 þegar hann óskar eftir því að fá heimild til að þjóðnýta Áburðarverksmiðjuna hf.:
    ,,2. maí sl. voru samþykkt lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa upp hlutabréf í Áburðarverksmiðju ríkisins, sem eru í einkaeign, á allt að fimmföldu verði. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að nota þessa heimild. Í tilefni af því var hluthöfum skrifað á sl. sumri og spurst fyrir um það hvort þeir vildu selja með þessum kjörum, á fimmföldu verði og að hlutabréfin yrðu greidd með jöfnum afborgunum á fimm árum. Flestir hluthafarnir hafa svarað játandi en örfáir hafa ekki svarað. Þeir sem ekki hafa svarað eiga hlutafé að upphæð kr. 30 þúsund, þeir sem hafa neitað eru með hlutaféð 5 þúsund en þeir sem hafa svarað játandi með fyrirvara eru með hlutafjáreign 6 þúsund kr. en hlutabréfaeign einkaaðila í Áburðarverksmiðjunni er eins og flestir alþingismenn vita 4 millj. kr., en ríkið á aftur á móti 6 millj. kr. og þannig hefur það verið frá byrjun að ríkið hefur átt 3 / 5 hlutafjárins en einkaaðilar 2 / 5 hluta.``
    Þessari tilvitnun lýkur og síðan kemur hér næsta tilvitnun í framsöguræðu Ingólfs Jónssonar.
    ,,Ástæðan til þess að þetta frv. er flutt og rétt þykir að breyta hlutafélaginu Áburðarverksmiðjan hf. í Áburðarverksmiðju ríkisins er sú að nú stendur fyrir dyrum stækkun Áburðarverksmiðjunnar sem kostar mjög mikið og er gert ráð fyrir að sá áfangi sem stefnt er að að byrja á á þessu ári kosti nokkuð á þriðja hundrað millj. kr. Hlutaféð er hins vegar ekki nema tíu millj. og það er ekki reiknað með því að hluthafar hafi áhuga á því að auka hlutafjáreign sína í verksmiðjunni og reyndar alveg víst að einkaaðilar kæra sig ekki um það.``
    Virðulegur landbrh. Er það ekki merkileg staðreynd að ástæðan fyrir því að Sjálfstfl. taldi nauðsynlegt að þjóðnýta Áburðarverksmiðjuna á sínum tíma var sú að það fundust ekki einkaaðilar sem voru reiðubúnir til að leggja peninga í það að stækka verksmiðjuna. Væri ekki umhugsunarvert fyrir hæstv. landbrh., í stað þess að fara hér með sögufalsanir um Alþb., að hann rifjaði það upp, fyrst hann á annað borð kýs að ræða sagnfræði í umræðum um þetta frv., útskýrði fyrir okkur hinum hvers vegna Sjálfstfl. taldi að enginn einkaaðili hefði þá trú á stækkun Áburðarverksmiðjunnar að hann væri tilbúinn að leggja í það peninga. Var þá kannski stækkun Áburðarverksmiðjunnar, hæstv. landbrh., mistök? Væntanlega segir ráðherrann nei. En ef hann segir nei þá er hann jafnframt að játa því að markaðurinn hafi haft rangt fyrir sér. Hluthafarnir hafi haft rangt fyrir sér. Þeir hafi haft rangt mat á því hvað var arðbært og ríkið rétt. Ríkið undir forustu Sjálfstfl. hafði betra og réttara mat á arðseminni en einkaaðilarnir sem áttu hlutabréfin. Og væri nú fróðlegt fyrir hv. þm. Vilhjálm Egilsson að kynna sér það sögulega dæmi þegar Sjálfstfl. dæmir sjálfan sig æðri að dómgreind en markaðinn. ( VE: Sjálfstfl. réð niðurgreiðslunum.) Sjálfstfl. réð niðurgreiðslunum. Það er mjög fróðleg skýring. Sjálfstfl. réð niðurgreiðslunum. Eða með öðrum orðum, þegar pólitískt vald hafði rétt á því að skekkja markaðinn þá taldi Sjálfstfl. rétt að þjóðnýta og það er kenning sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er að játa hér í þingsalnum með frammíkalli. Mér sýnist á öllu að þessi sögulega umræða um þjóðnýtingu Áburðarverksmiðjunnar og forgöngu Sjálfstfl. um það varpi ansi skemmtilegu ljósi á hugmyndir innan Sjálfstfl. um þjóðnýtingu. --- Er nú þingmaðurinn Eggert Haukdal sérstaklega boðinn velkominn til þessarar umræðu.
    Ingólfur Jónsson, þáv. landbrh., sagði hins vegar meira, með leyfi hæstv. forseta.
    ,,Þetta út af fyrir sig er vitanlega ekki hvetjandi fyrir aðila að festa fjármagn í þannig fyrirtæki og geta flestir farið í eigin barm með það því að þegar menn leggja fram fé, hvort sem það er í hlutafélag eða annað, þá mun það nú oftast vera að samfara því að menn trúa því að þeir séu að gera gagn með því að mynda gott fyrirtæki, að leggja fé í það, þá ræður hagnaðarvonin alltaf talsverðu.``
    Hér setur fyrirrennari hæstv. landbrh., Ingólfur Jónsson, fram þá kenningu að hluthafar, einkahluthafar, hafi tvenns konar markmið, annað er að gera gagn og hitt er að græða. Hvenær vék sú kenning, hæstv. landbrh., Halldór Blöndal, úr forustusveit Sjálfstfl. að ekki ætti að taka tillit til þess að gera gagn? Ég held að sumum ungum þingmönnum Sjálfstfl. hér í dag væri hollt að kynna sér þessi sjónarmið fyrirrennara hv. þm. Eggerts Haukdals, sem þingmanns Sjálfstfl. á Suðurlandsundirlendi og í Rangárvallasýslu sérstaklega, og fagna ég því að hér eru nú komnir í salinn þrír arftakar hv. þm., á sínum tíma, Ingólfs Jónssonar. Hv. þm. Eggert Haukdal, sem tók við sæti hans hér á Alþingi sem fulltrúi sjálfstæðismanna á Rangárvöllum, hv. þm. Halldór Blöndal, sem næstur settist á landbúnaðarstól á eftir Ingólfi Jónssyni . . .  ( StG: Nei.) Frá Sjálfstfl. --- Jú, það er rétt, hv. þm. Stefán Guðmundsson, ef frá er skilinn Pálmi Jónsson, sem Sjálfstfl. skrifaði aldrei upp á þegar hann var í þeim ráðherrastóli. Síðan hv. þm. Egill Jónsson sem um árabil er búinn að vera helsti gúrú Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum hér á Alþingi þannig að ekkert er gert hér í landbúnaðarmálum nema hann samþykki, en slíkt vald hafði Ingólfur Jónsson á sínum tíma. --- Ég fagna því að þessir menn séu allir mættir hér til að hlýða á upprifjun á ræðu Ingólfs Jónssonar um það sama mál og við erum nú að ræða hér.
    Hv. þm. og þáv. ráðherra, Ingólfur Jónsson, telur sem sagt að það sé nauðsynlegt að hafa það markmið í huga að gera gagn en ekki bara að græða. En þáv. landbrh., Ingólfur Jónsson, sagði meira, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þess vegna er það þegar ráðast á í þessar miklu framkvæmdir við stækkun verksmiðjunnar að það þykir rétt að leysa þetta hlutafélag upp og að Áburðarverksmiðjan verði eftirleiðis algerlega í eigu ríkisins.``
    Þegar á að setja kraft í fyrirtækið, skapa grundvöll fyrir vexti og sterkari stöðu, þá er nauðsynlegt að leggja einkaeignina til hliðar segir þessi landbrh. Sjálfstfl., Ingólfur Jónsson. Síðan fer hann fram á það í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. að geta ráðist að þeim hluthöfum sem ekki vilja selja hlutabréf sín með

fúsum og frjálsum vilja með eignarnámsheimild. En þáv. landbrh., Ingólfur Jónsson, segir í framsöguræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Heimilt er ríkisstjórninni að taka lán í þessu skyni. Ríkisstjórnin tekur eignarnámi þau hlutabréf í Áburðarverksmiðjunni hf. sem verða í einkaeign að kvöldi hins 30. apríl 1969. Kemur eignarnámið til framkvæmda hinn 1. maí 1969 og við það ber að gera þá athugasemd sem ég minntist hér á áðan.``
    Eða með öðrum orðum, landbrh. fer fram á lántökuheimild til að geta farið í eignarnámsaðgerðina. Og hann gerir það alveg skýrt að ef hluthafarnir af fúsum og frjálsum vilja selja ekki hlutabréfin fyrir kvöldið 30. apríl þá ætlar landbrh. Sjálfstfl. að heilsa 1. maí með því að taka hlutabréfin eignarnámi. Lengra er nú varla hægt að ganga í þjóðnýtingarþjónkun Sjálfstfl. heldur en að velja baráttudag verkalýðsins 1. maí sem upphafsdag eignarnámsins. Svo leyfir hæstv. ráðherra Halldór Blöndal sér að koma hér hvað eftir annað, bæði í dag og á laugardaginn, og flytja þá kenningu að Alþb. hafi verið sérstakur baráttuaðili um þjóðnýtingu þessa frv.
    Ég hef flett upp umræðunni um þjóðnýtingu Áburðarverksmiðjunnar 1969 og ég get frætt hæstv. landbrh. á því að það tók ekki einn einasti alþýðubandalagsmaður til máls einu sinni í þeirri umræðu. ( Gripið fram í: Það var ekki búið að stofna Alþb.) Árið 1969? Ég er nú hræddur um að það hafi verið búið að stofna það. Hér situr meira að segja í salnum formaður Alþb. það ár. Þannig að þessi ungi þingmaður Sjálfstfl. ætti nú að bíða með sagnfræðilegar fullyrðingar hér í frammíkalli. Það er enginn þingmaður Alþb. sem talar í þessari umræðu, en hlutur Sjálfstfl. í því að þjóðnýta Áburðarverksmiðjuna var hins vegar miklu meiri en það að landbrh. Sjálfstfl. flytti frv. Hver mælti fyrir samþykkt frv. í annarri deild Alþingis? Það var sjálfstæðisþingmaðurinn Steinþór Gestsson, sem einnig er fyrirrennari hv. þm. Eggerts Haukdals sem þingmaður á Suðurlandi. Og hver mælti fyrir samþykkt frv. í hinni deildinni? Það skyldi þó ekki vera að það hafi líka verið þingmaður Sjálfstfl.? Jú, það var Bjartmar Guðmundsson, sem var fyrirrennari hæstv. núv. landbrh., Halldórs Blöndals, og Halldór Blöndal lagði mikið kapp á það á sínum tíma að geta sest í þingsæti Bjartmars Guðmundssonar. Þannig að það er Sjálfstfl. sem ber þjóðnýtingu Áburðarverksmiðjunnar hér inn í þingsalinn við öll tækifæri. Þegar frv. er flutt sem stjfrv. þá er það landbrh. Sjálfstfl. sem mælir fyrir því. Þegar málið kemur úr landbn. neðri deildar þá er það þingmaður Sjálfstfl. sem blessar það og biður fyrir því. Og þegar það kemur úr landbn. efri deildar þá er það líka þingmaður Sjálfstfl. sem biður fyrir frv. og blessar yfir það. Það var aðeins einn þingmaður sem ekki var í Sjálfstfl. sem talaði í allri þessari þjóðnýtingarsögu Áburðarverksmiðjunnar og það var virtur drengskaparmaður úr hópi Framsfl., sem yfirleitt lét lítið fyrir sér fara, hv. þáv. þm. Páll Þorsteinsson. Málið er nefnilega þannig vaxið að það er nánast enginn annar flokkur sem kom nálægt þjóðnýtingu Áburðarverksmiðjunnar en Sjálfstfl. Svo leyfir landbrh. sér að koma hér hvað eftir annað og fara með fullkomið fleipur um hlut Alþb. í þjóðnýtingu Áburðarverksmiðjunnar og lýsa því yfir að nú sé Sjálfstfl. að taka að sér að afþjóðnýta það sem Alþb. lét þjóðnýta á sínum tíma. ( JGS: Í hvaða flokki var þingmaðurinn þegar þetta var?) Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson spyr mig að því í hvaða flokki ég hafi verið þegar þetta var á dagskrá. Það veit auðvitað þingmaðurinn. Ég var þá í Framsfl. með hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og Páli Þorsteinssyni og við stóðum að því á flokksþingum flokksins, ég og hv. þm. Stefán Guðmundsson, að flytja ýmsar góðar tillögur. ( VE: Ekki þó um Áburðarverksmiðjuna?) Nei, við fluttum ekki tillögu um Áburðarverksmiðjuna. ( Gripið fram í: Það þurfti ekki.) Það þurfti ekki vegna þess að Sjálfstfl. var búinn að þjóðnýta hana. ( VE: Er ekki rétt að leiðrétta þetta sögulega slys?) Jú, það má vel vera að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson líti á það sem sögulegt slys að Sjálfstfl. hafi þjóðnýtt Áburðarverksmiðjuna, það má vel vera. Ég ætla ekki að blanda mér í það. En þá hefði bara verið heiðarlegra, hæstv. núv. landbrh., að flytja málið þannig hér í þingsalinn að nú væri hann mættur hér, arftaki Bjartmars Guðmundssonar á Sandi, til að leiðrétta það slys sem Bjartmari Guðmundssyni frá Sandi varð á í lagasetningunni 1969. Nú væri fyrsti eiginlegi landbrh. Sjálfstfl. frá því að Ingólfur Jónsson lét af embætti mættur til að leiðrétta þetta sögulega slys Sjálfstfl. og nú væri hann mættur með Eggert Haukdal sér við hlið til að leiðrétta það sögulega slys að Steinþór Gestsson skyldi mæla með að þessi vitleysa væri samþykkt.
    Ég vil spyrja hæstv. landbrh., fyrst hann kaus að hefja hér sögulegar umræður um þessi mál: Getur hann nefnt eitthvert annað dæmi um að ráðherra hafi komið til þings og beðið um að fá að þjóðnýta einkafyrirtæki og krafist þess að fá dagsetta eignarnámsheimild til að hrifsa hlutabréfin af einkaaðilunum? Er einhver annar flokkur á Alþingi en Sjálfstfl. sem hefur gengið svona langt í þjóðnýtingarákafanum, að biðja um slíka eignarnámsheimild? Ég skora á hæstv. landbrh. að nefna slíkt dæmi hér.
    Áburðarverksmiðja ríkisins er ekki eina ríkisverksmiðjan sem Sjálfstfl. hefur beðið um heimild til að setja á stofn hér á Alþingi. Það er nefnilega þannig að nánast allar ríkisverksmiðjur sem hér hafa starfað hafa verið settar á laggirnar með ábyrgð og undir forustu Sjálfstfl. Það er enginn flokkur, ekki einu sinni Framsfl., sem hefur jafnoft verið í ríkisstjórn þegar ríkisverksmiðjur hafa verið settar á laggirnar eins og Sjálfstfl. ( Gripið fram í: Það er mál til komið að breyta því.) Ég nefni Sementsverksmiðju ríkisins. Hvaða flokkur hafið forustu um það að þjóðnýta sementsframleiðslu á Íslandi og stofna slíka verksmiðju á Akranesi ef það var ekki Sjálfstfl.? Ég er hér með tilvitnanir í þáv. atvinnumálaráðherra, Ólaf Thors, formann Sjálfstfl., þar sem hann er að styðja það eindregið að þingið veiti heimild til þess að ríkisverksmiðjan Sementsverksmiðja ríkisins verði sett á laggirnar. Ég er hér með tilvitnanir í umræður um Síldarverksmiðju ríkisins, sem var nú í reynd eins konar fjölskylduríkisfyrirtæki hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, þegar hans ágæti

frændi Sveinn Benediktsson tók að sér að vera oddviti ríkisins og helsti forustumaður og ábyrgðarmaður ríkisins í stjórn Síldarverksmiðju ríkisins. ( VE: Það var vel ráðið.) Það var vel ráðið segir hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Það er alveg rétt hjá honum. En á ummælum hæstv. landbrh. um það eignarform hér í dag og á laugardaginn mátti helst ráða að slíkir menn sem því hefðu mælt bót og slíkum störfum hafa gegnt væru alveg sérstakir ónytjungar og skaðræðismenn fyrir íslenska þjóð.
    Getur hæstv. landbrh. nefnt einhvern annan flokk hér á Alþingi en Sjálfstfl. sem hefur átt jafnmikla aðild að að setja á laggirnar og starfrækja stærstu verksmiðjur á Íslandi, Áburðarverksmiðjuna, Sementsverksmiðjuna, Síldarverksmiðjur ríkisins og Járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði? Ég held að ráðherrann geti það nefnilega ekki. Hin sögulega staðreynd er nefnilega sú að það er enginn flokkur sem ber eins mikla ábyrgð á þjóðnýtingu í iðnaðarframleiðslu á Íslandi eins og Sjálfstfl. Það er hin sögulega staðreynd. Hér sat ríkisstjórn eftir ríkisstjórn þar sem Sjálfstfl. fór með iðnrn., með forsrn. og hvarflaði ekki að honum að leggja til að ríkisrekstri þessara verksmiðja væri hætt. Og það sem meira er, þegar verksmiðjurnar voru stofnsettar og þeim valin stjórn og blómaskeiðið í rekstri þeirra var þá var það iðulega Sjálfstfl. sem þar var í forustu, bæði í stjórn fyrirtækisins og í ráðuneytunum. Má ég nefna Halldór H. Jónsson sem dæmi, sem stundum var kallaður stjórnarformaður Íslands. Var hann ekki lengi í stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins? Var hann ekki valinn af Ingólfi Jónssyni til að stýra þessu ríkisfyrirtæki eftir þjóðnýtinguna, hv. þm. og núv. landbrh., Halldór Blöndal? Ef Halldór H. Jónsson gat setið í þessu þjóðnýtta fyrirtæki var þá eitthvað að rekstrinum sérstaklega? Var það eitthvert tilefni til að flytja einhverjar sérstakar háðsglósur um það rekstrarform, eins og ráðherrann hefur leyft sér í þessari umræðu? Auðvitað ekki.
    Í sjálfu sér er það spurning hvort það á að verja hér tíma til að kenna hv. þm. Sjálfstfl. og hæstv. landbrh. þessa sögulegu lexíu. En ég kaus nú að gera það þegar hæstv. ráðherra hélt áfram í dag að fara með þetta rugl, þetta sögulega rugl og rangfærslur, um hverjir bera ábyrgð á þjóðnýtingu Áburðarverksmiðjunnar, þjóðnýtingu Sementsverksmiðjunnar, þjóðnýtingu Síldarverksmiðja ríkisins og Járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði.
    Ég er líka með ræðu annars fyrirrennara hv. þm., núv. hæstv. landbrh., Halldórs Blöndals. Ræðu sem Lárus Jónsson, þáv. hv. þm. Norðurl. e., flutti hér þegar var verið að samþykkja enn einn ríkisreksturinn í verksmiðjum á Íslandi. Það væri kannski fróðlegt fyrir núv. hæstv. landbrh. að rifja upp hvað þessi félagi hans til margra ára, Lárus Jónsson, sagði þá. Það var nú ekki aldeilis gagnrýnin á eignarhlutdeild ríkisins sem kemur fram í þeim ræðum. Nei, staðreyndin er auðvitað sú, eins og hv. þm. Svavar Gestsson vakti athygli á áðan, að ákveðinn hópur manna í Sjálfstfl. hefur náð því taki á flokknum á undanförnum árum að geta búið til eins konar hugmyndafræðilegan karlmennskumælikvarða sem felst í því hvað menn eru miklir einkavæðingarmenn, alveg án tillits til sögulegs aðdraganda viðkomandi rekstrarforma, alveg án tillits til aðstæðna í íslensku samfélagi, alveg án tillits til markaðsstöðu fyrirtækjanna, heldur skal bara hver ráðherra Sjálfstfl. hafa einkavætt eitthvað á sínum ráðherraferli. Það er í raun og veru málið. Það er bara búið að búa til pólitískan karlmennskumælikvarða í Sjálfstfl. þar sem ráðherrarnir eru látnir mæta á flokksfundum og þeim er hlýtt yfir: Hvað hefur þú einkavætt? Og ráðherra sem ekkert hefur einkavætt er í vondum málum innan flokksins vegna þess að grundvöllur skynseminnar hefur vikið fyrir kröfum hugmyndafræðinnar.
    Það er auðvitað þessi sami hugmyndafræðihópur sem hefur leikið Sjálfstfl. í Reykjavík það grátt að hann berst nú örvæntingarfullri baráttu við að halda stjórn borgarinnar og þeir sem þar voru aðallega í broddi fylkingar, fyrir einkavæðingu Strætisvagna Reykjavíkur og annarra fyrirtækja, var vikið úr sæti. Ég held það væri hollt fyrir hæstv. ráðherra, í stað þess að fara með stóryrði í okkar garð, að hugleiða hver hafa orðið örlög þeirra manna innan Sjálfstfl. á síðari mánuðum sem hafa farið offari í einkavæðingarmálum. Þeim hefur einfaldlega verið hafnað af fólkinu í flokknum.
    Í þessari umræðu hefur nokkuð verið vikið að því að framtíð þessa fyrirtækis sé í þó nokkurri óvissu. Ég beindi hér nokkrum spurningum til hæstv. iðn.- og viðskrh. og hæstv. landbrh. Hæstv. landbrh. taldi að orkukostnaður fyrirtækisins væri í lagi og gætu breytingar á orkuverði ekki haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækisins einfaldlega vegna þess að orkukostnaðurinn væri ekki nema um það bil 7% af núv. rekstrarútgjöldum. Þetta er nú lélegur lestur í reikninga fyrirtækisins, hæstv. ráðherra. Hér hefur komið fram að orkuverðið til Áburðarverksmiðjunnar er í kringum 10 mill. Hvað eru önnur iðnfyrirtæki að borga, hæstv. ráðherra? Veit ráðherrann það? Ætli það sé ekki á bilinu 20--40 mill sem önnur iðnfyrirtæki eru að borga fyrir raforkuna. Ef raforkan til Áburðarverksmiðjunnar væri eingöngu tvöfölduð, hún næði lægri mörkum þess orkuverðs sem önnur iðnfyrirtæki eru að greiða, þá hefði á árinu 1991 og 1992 verið um 80 millj. kr. tap á verksmiðjunni. Tap bæði árin, samtals á báðum árunum 80 millj. kr. Og ef við bætist markaðsóvissan þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins benda réttilega á það að 15% söluminnkun mundi kollsteypa rekstrinum og ef þetta tvennt færi saman, orkuverðsbreyting í samræmi við lægri mörk þess sem önnur iðnfyrirtæki greiða og 15% söluminnkun, þá er kominn taprekstur hjá Áburðarverksmiðju ríkisins upp á tæpar 300 millj. kr. Þess vegna er það alveg ljóst að staða þessa fyrirtækis á markaði er svo tæp að það er ekki hægt að koma með málið til þingsins nema gera einhverja grein fyrir því. Hvernig hyggst ráðherrann gera hlutabréfin að söluhæfri vöru? Eða er tilgangurinn bara að einkavæða til að einkavæða?
    Mér skilst að rökin fyrir einkavæðingunni séu þau að hlutabréfin eigi að vera markaðshæf vara. Þess vegna hefur einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin sett sér starfsreglur um sölu slíkra hlutabréfa. Þær starfsreglur miðast allar við það að hlutabréfin séu söluhæf vara. Ef þau eru það hins vegar ekki þá er auðvitað einkavæðingin og sala hlutabréfanna fullkomlega út í hött. Ég beini þess vegna þeim tilmælum til hæstv. ráðherra að hann geri skýrari grein fyrir því en hann hefur gert nú þegar, að hann telji kleift að tryggja á næstu mánuðum að hlutabréfin séu söluhæf vara.
    Hér hefur komið fram, m.a. af hálfu hv. þm. Svavars Gestssonar, að í sjálfu sér höfum við alþýðubandalagsmenn enga sérstaka athugasemd við það að gera þó ríkisfyrirtækjum sé breytt í hlutafélagaform ef eingöngu er á ferðinni það sem hæstv. viðskrh. nefndi hér ábyrgðarvæðingu, um það er enginn sérstakur ágreiningur hér. En þetta frv. er bara um meira. Þetta frv. er um að heimila einum ráðherra fullkomið vald til að selja öll hlutabréfin. Ráðherra sem stóð hér upp fyrir nokkrum dögum á Alþingi og varði söluna á Síldarverksmiðju ríkisins þótt Ríkisendurskoðun hafi gagnrýnt hana og þótt nú fari fram málaferli fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Ætlar hæstv. ráðherra t.d. að telja þá sölu vera fullkomlega eðlilega ef dómur fellur nú gegn ríkinu og öðrum þeim sem fyrirtækið eignuðust og söluna önnuðust í héraðsdómi Reykjavíkur? Auðvitað ekki. Ég held að það væri meiri mannsbragur að því af hálfu hæstv. ráðherra að viðurkenna að salan á Síldarverksmiðju ríkisins er ekki gott fordæmi.
    Hæstv. ráðherra hefur verið inntur eftir því hvernig hann hyggist selja þessi hlutabréf. Ætlar hann að bjóða þau út öll í einu eða hvenær hyggst ráðherrann gera það? Ætlar hann að gera það á þessu ári eða því næsta? Engin svör fást við slíkum spurningum.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur flutt hér brtt. um það að fylgt verði þeim starfsreglum sem settar hafa verið varðandi söluna á hlutabréfunum. Ég minnist þess ekki að það hafi komið fram í umræðunni hvort hæstv. ráðherra er tilbúinn til að samþykkja þá brtt. Ég óska a.m.k. eftir að ráðherrann svari því áður en þessari umræðu lýkur og áður en sú atkvæðagreiðsla fer fram, hvort ráðherrann er tilbúinn til að samþykkja þá brtt. Brtt. er ekki um neitt annað en það að verklagsreglum ríkisstjórnarinnar sjálfrar verði fylgt í málinu. Þess vegna mun stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi greiða atkvæði um það hvort það eigi að lúta þeim verklagsreglum sem ríkisstjórnin hefur sett sjálfri sér.
    Hæstv. viðskrh., sem sjálfsagt er nú farinn hér úr húsi og ég ætla ekki að gera athugasemd við það í sjálfu sér, gerði tilraun til þess fyrr á fundinum, og það bera að virða, að svara þeim spurningum sem ég bar fram. Ég tel þó að hann hafi ekki hugað nægilega vel að ýmsum þeim þáttum í því svari. Munurinn á garðyrkjubændum annars vegar og Áburðarverksmiðju ríkisins hins vegar, með tilliti til samkeppnisreglna, er sá að garðyrkjubændur eru mjög margir og þeir eru í innbyrðis samkeppni hver við annan. Áburðarverksmiðjan er hins vegar eina fyrirtækið sinnar tegundar á Íslandi og það þarf ekki að verja mörgum orðum til að útskýra að sú markaðsstaða er allt önnur. Fjöldi garðyrkjubænda á Íslandi er nægilega mikill til að hann tryggi ákveðna innbyrðis samkeppni þeirra á milli og þess vegna er hægt að taka tillit til þess í ákveðnu mati eftirlitsstofnana Evrópska efnahagssvæðisins. Áburðarverksmiðjan er hins vegar ein á þessum markaði.
    Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt, í ljósi fáránlegra fullyrðinga hæstv. landbrh. um sögu Áburðarverksmiðju ríkisins, að rifja það hér rækilega upp að það var ráðherra Sjálfstfl. sem óskaði eftir heimild frá Alþingi til að þjóðnýta Áburðarverksmiðju ríkisins. Það voru þingmennn Sjálfstfl. sem mæltu með því í báðum deildum þingsins að það frv. yrði samþykkt. Staðreyndin er sú að það er enginn flokkur sem ber jafnmikla ábyrgð á þjóðnýtingu Áburðarverksmiðju ríkisins eins og Sjálfstfl. Og ég endurtek til áréttingar fyrir hæstv. ráðherra, að ef litið er á helstu ríkisverksmiðjur á Íslandi, Áburðarverksmiðjuna, Sementsverksmiðjuna, Járnblendiverksmiðjuna og Síldarverksmiðjur ríkisins á sínum tíma þá er enginn flokkur sem hefur jafnoft og jafnlengi stýrt þeirri þjóðnýtingu í atvinnurekstri á Íslandi eins og Sjálfstfl.