Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 19:26:27 (7757)


[19:26]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Svo illa líður ráðherranum eftir þessa umræðu að hann reynir enn á ný að hlaupa í skjól sögufalsana. Það sem ég var að lýsa hér mjög rækilega er sú forusta sem Sjálfstfl. hefur haft um þjóðnýtingu atvinnulífs á Íslandi. Það er meiri forusta en Alþb. hefur haft um þjóðnýtingu, það er bara staðreynd málsins. Í verki er Sjálfstfl. þess vegna meiri þjóðnýtingarflokkur en Alþb. og það eru ekki bara einstök tilvik þetta eru stærstu og umfangsmestu verksmiðjur í eigu Íslendinga. Það er ekki hægt að nefna verksmiðjur í einkaeign á Íslandi sem hafa tekið fram þessum ríkisverksmiðjum í veltu eða að umfangi. ( Landbrh.: Hvað með Flugleiðir og hvað um . . .  ) Flugleiðir eru nú ekki verksmiðja, hæstv. landbrh. Ég hélt að landbrh., sem einnig er samgrh., væri a.m.k. búinn að læra það að flugfélag er ekki verksmiðja og skipafélag er ekki verksmiðja. Og ef ráðherrann kann ekki mun á skipafélagi og flugfélagi og verksmiðjum þá er honum auðvitað ekki viðbjargandi í þessari umræðu, en auðvitað er þetta bara enn eitt dæmið um ruglið sem hæstv. ráðherra fer með í þessari umræðu.
    Varðandi orkuverðið þá var ég einfaldlega að benda á það að þegar ég hér fyrr í dag hélt því fram að orkuverðið væri svo afgerandi þáttur í rekstrarstöðu fyrirtækisins að breytingar á orkuverðinu til samræmis við orkuverð til annarra einkafyrirtækja í landinu gætu haft afgerandi áhrif á útkomu fyrirtækisins þá svaraði hæstv. ráðherra mér eingöngu með því að koma hér upp og benda á það að orkuverðið væri bara 7%. Það segir auðvitað ekki neitt, eins og ég benti á í minni seinni ræðu, vegna þess að það er samhengi þess hlutfalls við afkomu fyrirtækisins sem verður að skoða. Og eins og ég hef nú bent ráðherranum á og hann viðurkennir hér að lokum þá er orkuverðið svo afgerandi þáttur að einföld breyting í þá veru að Áburðarverksmiðjan borgi sama orkuverð og önnur einkafyrirtæki þegar búið er að selja Áburðarverksmiðjuna hefur það einfaldlega í för með sér að reksturinn er með halla.