Þróunarsjóður sjávarútvegsins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 20:31:10 (7758)


[20:31]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum frá meiri hluta sjútvn. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Hv. sjútvn. hefur fjallað um þetta mál á mörgum fundum og fengið til sín allmarga gesti sem taldir eru upp á einni síðu í nefndarálitinu. Ég hyggst ekki lesa þann lista upp, enda sjálfsagt ekki áhugavert að hlusta á þann lista af nöfnum.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir nokkrar tillögur til breytinga á frv. og mun ég rekja þær.
    Í fyrsta lagi er gerð brtt. við 1. gr. frv. sem gengur út á það að sjóðnum verði heimilt að veita lán og ábyrgðir til nýsköpunar í sjávarútvegi og til að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis. Það sem er nýtt í þessu er að sjóðnum verður heimilt að veita lán og ábyrgðir til nýsköpunar. Í frv. var ekki gert ráð fyrir að það væri gert. Þetta er m.a. hugsað til þess að sjóðurinn nýtist betur til þróunar í sjávarútvegi en verði ekki eingöngu til þess að styðja úreldingu bæði á skipum og fiskvinnslustöðvum.
    Í öðru lagi er gerð breyting á 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að þeir 4 milljarðar sem talið er að ríkissjóður setji í sjóðinn komi á árunum 1994 og 1995, en í frv. var gert ráð fyrir því að þeir kæmu á árunum 1993, 1994 og 1995.
    Í þriðja lagi er gerð brtt. við 4. gr. þannig að 1. málsl. 1. mgr. hljóði svo, með leyfi forseta: ,,Eigendur fiskiskipa, sem skráð eru á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins 1. jan. ár hvert og leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, skulu árlega greiða gjald til Þróunarsjóðs. Undanþegnir gjaldinu eru bátar minni en 6 brúttórúmlestir sem stunda veiðar með línu og handfærum við dagatakmarkanir.``
    Þetta þýðir að allir þeir bátar, stórir sem smáir, sem eru á aflamarki fá aðgang að Þróunarsjóðnum og úreldingarkerfinu. Upphaflega miðaði frv. við það að eingöngu bátar sem væru 10 brúttótonn eða stærri greiddu inn í sjóðinn og væru í þessu úreldingarkerfi, en nú nær þetta til allra báta, stórra sem smárra, sem eru á aflamarki.
    Þá bætist enn fremur við 2. mgr. nýr málsliður sem orðast svo, með leyfi forseta: ,,Ráðherra ákveður í reglugerð hvernig innheimtu gjalds skv. 1. mgr. skuli háttað hjá þeim aðilum sem ekki falla undir 5. og 7. gr. laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.``
    Hér er sem sé við það miðað að ráðuneytið setji reglugerð um hvernig innheimta skuli þetta tonnagjald á minnstu bátunum undir 10 brúttórúmlestum sem eru í kerfinu.
    Í fjórða lagi er gerð brtt. við 7. gr. sem felur það í sér að 75 millj. kr. þak á úreldingarstyrk til skips hækkar upp í 90 millj. Þetta er leiðrétting á þeirri tölu sem er í frv.
    Í b. lið breytingartillögunnar er gert ráð fyrir því að 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. orðist þannig: ,,Sjóðurinn veitir eingöngu styrki til úreldingar þeirra skipa sem gjaldskyld eru eða hafa verið skv. 1. mgr. 4. gr. enda hafi gjald vegna viðkomandi skips samkvæmt lögum þessum eða lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins verið greitt í hann í a.m.k. þrjú ár.``
    Það sem skiptir máli í þessu er þessi þriggja ára regla sem er hugsuð til að koma í veg fyrir að skip séu flutt til landsins og skráð hér eingöngu í því skyni að fá út á þau úreldingarstyrk.
    Þessu ákvæði tengist seinna ákvæðið til bráðabirgða í tillögunum þar sem gert er ráð fyrir því að ákvæðið um þriggja ára greiðsluskyldu eigi ekki við um þau skip sem skráð voru á skipaskrá fyrir 1. jan. 1994 þannig að ákvæðið verði ekki afturvirkt gagnvart þeim aðilum sem hafa í góðri trú jafnvel fengið staðfestar úreldingarbætur og hafa gert sínar fjármálalegu ráðstafanir út frá því að þetta yrði eins og hér er lagt til.
    Í fimmta lagi er lagt til að síðari málsl. 2. mgr. 10. gr. falli brott þar sem segir að þeirri kvöð skuli þinglýst á fasteignirnar sem úreltar eru í sjávarútvegi að þær verði ekki framar nýttar til fiskvinnslustarfsemi. Markmiðið með þessu er í rauninni að gera þetta kerfi sveigjanlegra gagnvart fiskvinnslustöðvunum þannig að hægt sé að taka þær í notkun á nýjan leik ef aðstæður breytast eftir að þær hafa einu sinni verið úreltar. Nú er það svo að jafnvel þó að fiskvinnslustöðvar geti á einstökum stöðum verið of margar í augnablikinu og ástæða til að fækka þeim og aðstoða við þá fækkun, þá er ekkert sem segir að aðstæður geti ekki breyst með veiðum á nýjum tegundum og nýrri starfsemi, alls kyns þróun sem verður og einnig geta komið upp aðstæður sem kalla tímabundið á aukið húsnæði. Það væri því ekki neinum í hag í sjálfu sér að það væri þinglýst kvöð á viðkomandi eignir að þangað mætti ekki fara inn fiskur. Því er nauðsynlegt að gera þessa breytingu.
    Reyndar er gengið út frá því í þessum breytingartillögum að það sem viðkemur fiskvinnslustöðvunum í

Þróunarsjóðnum verði spilað dálítið niður og ekki verði lögð jafnmikil áhersla á þann þátt, þ.e. úreldingu fiskvinnslustöðva, og upphaflega var ætlað að gera heldur að sjóðurinn nýtist fremur til nýsköpunar og þróunarverkefna innan lands og þannig muni sjóðurinn nýtast betur fyrir sjávarútveginn.
    Í sjötta lagi er gerð brtt. við fyrri málsgrein 11. gr. frv. þar sem rætt er um það hvað sjóðurinn eigi að gera. Í fyrsta lagi breytist fyrirsögn greinarinnar og verður: ,,Þátttaka í þróunarverkefnum``. Í öðru lagi verði verkefni sjóðsins að stuðla að vöruþróun og markaðssetningu íslenskra sjávarafurða og annarri nýsköpun í sjávarútvegi sem og þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis og í því skyni sé sjóðnum heimilt að veita lán og styrki.
    Í sjöunda lagi er gerð brtt. við 15. gr. og þar er gert ráð fyrir því að greinin orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán, þó ekki með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, í því skyni að jafna misræmi milli innborgana af skuldabréfum í eigu sjóðsins og afborgana og vaxta af lánum sem sjóðurinn á að standa skil á.``
    Hér er um tæknilega breytingu að ræða vegna þess að sjóðurinn þarf að uppfylla tiltekin skilyrði til þess að geta verið í útgáfu á svokölluðum markaðsverðbréfum, en það er ekki meiningin að sjóðurinn uppfylli slík skilyrði.
    Í áttunda lagi er gerð brtt. við 23. gr. frv. Þar er kveðið á um að gjaldtaka á fiskiskip skuli koma til framkvæmda á árinu 1995, enda er of seint að láta þetta taka gildi á þessu ári. Sama gildir um gjald á fiskvinnslustöðvar sem á að koma til framkvæmda við álagningu gjalda árið 1995.
    Þá er að lokum, virðulegi forseti, lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem segir að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs sé heimilt að taka að láni allt að 2.720 millj. kr. til þess að leggja í sjóðinn.
    Virðulegi forseti. Ég hef rakið þær brtt. sem meiri hluti sjútvn. vill gera á frv. Þetta mál er að sjálfsögðu hluti af þeirri endurskoðun sem hefur farið fram á löggjöfinni um stjórn fiskveiða og þeim breytingum sem eru að verða á þeirri löggjöf og sjóðakerfi sjávarútvegsins. Hluti af þessu máli er að sjálfsögðu gjald sem er lagt á aflahlutdeildir, þ.e. 1.000 kr. á hverja þorskígildislest, enn fremur gjald á fiskvinnslustöðvar og gjald á skip. Þessi þróunarsjóðsgjöld munu standa undir tekjuöflun sjóðsins til þess að standa undir starfsemi hans. Þessu tengist einnig að úr gildi falla lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins en eins og kunnugt er mundi, ef frv. yrði ekki að lögum, það taka gildi nú eða á næsta fiskveiðiári að kvóti Hagræðingarsjóðs yrði seldur í því skyni að fjármagna Hafrannsóknastofnun. Í stað þess að sú fjármöngun sé til staðar fyrir Hafrannsóknastofnun er reiknað með því að ríkissjóður standi undir kostnaði af þeirri starfsemi en í stað þess er tekið upp hið svokallaða 1.000 kr. gjald sem renni í Þróunarsjóðinn.