Þróunarsjóður sjávarútvegsins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 20:44:08 (7759)


[20:44]
     Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Í fjarveru hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar mæli ég fyrir nefndaráliti minni hluta sjútvn.
    ,,Samkomulag stjórnarflokkanna um framlagningu sjávarútvegsfrumvarpa á sl. vetri fól í sér frumvarp þetta um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem svo er nefnt. Sjóðnum fylgir að yfirtaka á skuldbindingar atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar og hlutafjárdeildar og leggja sérstakt gjald á aflaheimildir frá og með árinu 1996 til að standa straum af starfrækslu sjóðsins og yfirtöku þessara skuldbindinga. Óttast margir að þar sé á ferðinni vísir að upptöku auðlindaskatts og hefur reyndar annar stjórnarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, túlkað málið í þá veru. Ýmislegt fleira orkar tvímælis, svo sem ákvæði frumvarpsins um úreldingu fiskvinnslustöðva, og hefur gengið illa að fá það útskýrt hvernig það ákvæði eigi að ganga upp í framkvæmd.
    Nú eru að vísu lagðar til af hálfu meiri hlutans lítils háttar lagfæringar sem m.a. ganga í þá átt að rýmka reglur og möguleika sjóðsins til að taka þátt í þróunarverkefnum á sviði sjávarútvegsins, þar með talið verkefnum á erlendri grund, og ber að fagna því. En eftir stendur að frumvarpið í heild sinni, eins og það kemur fyrir, er meingallað enda á það sér formælendur fáa. Satt best að segja hefur ekki fundist í umfjöllun sjávarútvegsnefndar í reynd einn einasti stuðningsaðili frumvarpsins eins og það er í óbreyttri mynd fyrir utan ríkisstjórnina sjálfa og stjórnarflokkana.
    Ljóst er á hinn bóginn að bagalegt er að óvissa ríki lengi um þær leikreglur sem gilda eiga um endurnýjun og úreldingu fiskiskipa. Þar sem legið hefur í loftinu um alllangt skeið eða allt frá því að tvíhöfða nefnd var að ljúka störfum að úreldingarprósentan yrði hækkuð og þaki á heildargreiðslum vegna úreldingar yrði lyft leggur minni hlutinn til að tekið verði á þeim þætti strax. En í ljósi þess að frumvarpið og það fyrirkomulag sem þar er lagt til er meingallað er það afstaða minni hlutans að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Þess í stað verði fluttar breytingartillögur við lögin um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins þar sem í fyrsta lagi verði úreldingarprósentan færð upp í þau 45% sem frumvarpið um Þróunarsjóð gerir ráð fyrir og heildarupphæðin hækkuð með sama hætti. Einnig verði gengið frá því, samanber margendurtekinn tillöguflutning stjórnarandstöðunnar, að veiðiheimildum sjóðsins verði úthlutað án endurgjalds til jöfnunar á móti þeim samdrætti í afla, einkum þorskafla, sem gengið hefur yfir og á meðan það ástand varir. Jafnframt verði ákveðið að nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila skuli í sumar vinna að heildarendurskoðun lagaákvæða um hagræðingar- og þróunarmálefni sjávarútvegsins og skila

af sér frumvarpi með haustinu sem lagt verði fyrir Alþingi í upphafi þings. Verði þar einnig til skoðunar verðjöfnunar- eða sveiflujöfnunarmál greinarinnar og sá möguleiki kannaður að þessi verkefni verði sameinuð í einum deildaskiptum sjávarútvegssjóði.
    Fulltrúi Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, er situr fundi sjávarútvegsnefndar sem áheyrnarfulltrúi, er samþykk áliti þessu.``
    Undir þetta rita Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Ásgrímsson, Jóhann Ársælsson og Stefán Guðmundsson.
    Mig langar til viðbótar við álit minni hlutans að ræða um þetta frv. fáum orðum og langar fyrst að segja það að ég á ekki von á því að það hafi gerst oft áður að þeir aðilar sem hafi verið kallaðir til viðtals við þingnefnd hafi verið jafnsammála um að mál sem verið væri að fjalla um væri til óþurftar og ætti að hætta við að flytja og kom í ljós við umræður um þetta mál og viðtöl við hagsmunaaðila sem mættu á fundi nefndarinnar enda hefur öll tilurð þessa máls verið með eindæmum. Í raun og veru má rekja niðurstöðu málsins til þeirra lokaátaka sem fóru fram um skýrslu tvíhöfða nefndarinnar. Eins og menn rekur auðvitað minni til þá var það undir lokin, þegar tvíhöfða nefnd var að skila af sér og hafði verið tekist á um niðurstöður í nefndinni nokkuð lengi og voru það fyrst og fremst átökin um auðlindaskattinn sem Alþfl. vildi koma á, að tvíhöfða nefndin var lengi vel stödd í þeim sporum að vera búin að semja sína skýrslu en lokaniðurstaða fékkst ekki vegna átakanna um auðlindaskattinn. Það gerist síðan í einhvers konar kaupskap milli stjórnarflokkanna að niðurstaðan varð sú sem nú liggur fyrir, þ.e. þetta auðlindagjald sem er sett fram í þessum Þróunarsjóði. Ég vil rifja upp að síðasti liðurinn í upptalningu tvíhöfða nefndarinnar á þeim markmiðum sem hún lagði til að yrðu uppfyllt í nýjum lögum um stjórn fiskveiða og stefnu í sjávarútvegsmálum var eftirfarandi bókun: ,,Þá bendir nefndin á samkomulag í ríkisstjórn um stofnun svonefnds þróunarsjóðs sjávarútvegsins, en með því samkomulagi var leitt til lykta eitt mikilvægasta viðfangsefni nefndarinnar, gjaldtaka fyrir veiðiheimildir.`` Þeim var sem sagt ekkert að vanbúnaði að skila af sér þegar búið var að ná þessu samkomulagi um þróunargjaldið sem er innifalið í þessum tillögum hér.
    Það kom síðan mjög glöggt í ljós þegar farið var að ræða um þessi mál að stuðningurinn við þetta er ákaflega takmarkaður. Eins og ég sagði áðan eru nánast allir aðilar í sjávarútvegi, a.m.k. sem ég hef heyrt gefa álit sitt á málinu, sammála um að þennan þróunarsjóð eigi ekki að stofna. Það eigi ekki að stofna til hans með þeim hætti sem hér er lagt til. Það er líka rétt að minna á að það hefur komið í ljós að stuðningurinn við Þróunarsjóðinn er í öðrum stjórnarflokknum ákaflega tæpur og þar eru menn nauðbeygðir til að taka þátt í þessu samkomulagi sem hér liggur á borðum. Reyndar hefur það aldrei orðið alveg ljóst og mun ekki verða fyrr en við lokaatkvæðagreiðslu á hv. Alþingi hvort nægilega margir stjórnarliðar eru tilbúnir til að ganga gegn sannfæringu sinni í málinu því að sumir hverjir af þeim hafa a.m.k. sett það skýrt fram að þeir væru á móti þessum sjóði. Þeir væru á móti ákveðnum atriðum sem í honum eru og það kann vel að vera að þeir aðilar verði ekki mættir til atkvæðagreiðslu þegar þar að kemur, en það er ástæða til að velta því fyrir sér, a.m.k. meðan annað liggur ekki fyrir, hvort nægilegur stuðningur sé við frv. í Sjálfstfl.
    Það er líka ástæða til að velta því fyrir sér hvort framkvæmdin á þeim markmiðum sem sett hafa verið fyrir Þróunarsjóðinn í þessum tillögum sé eðlileg. Ég vil a.m.k. spyrja hvort ekki hafi verið ástæða til að taka t.d. á þeim skipulagsvanda sem er í sjávarútveginum og ég held að a.m.k. margir séu sammála um að þurfi að taka á og sem verkalýðshreyfingin er farin að láta heyra til sín fullum hálsi vegna, þ.e. að það er verið að flytja atvinnuna úr landi og út á haf. Það er nákvæmlega ekkert um slík atriði í þessum tillögum um Þróunarsjóðinn. Úrelding fiskiskipa og úrelding frystihúsa er hér á dagskrá en það er engin stefnumörkun gagnvart fullvinnslu á hafi úti. Það hefði a.m.k. verið full ástæða til að skoða slík mál í tillögum sem settar eru fram um þróun í sjávarútvegi. Ég held að það sem helst brenni á mönnum í sjávarútveginum í dag sé t.d. það að fólkið í landi er að missa atvinnuna. Samkeppnishæfni fiskvinnslustöðva í landi við fullvinnslu úti á sjó er ekki nægileg og á því er nákvæmlega ekkert tekið.
    Þetta hefur allt saman verið hin mesta hörmungarsaga hjá stjórnarflokkunum og hv. þm. þeirra hafa í allan vetur verið að berjast við þessi mál. Við sjáum núna fyrir endann á lagasetningunni um stjórn fiskveiða, lagasetningunni sem tengist sjómannadeilunni og síðan Þróunarsjóðnum. Allt er þetta að taka enda á lokadögum þingsins og hefur verið einhver erfiðasta fæðing, a.m.k. sem ég hef séð þau þrjú ár sem ég hef verið á Alþingi, á máli sem ríkisstjórnin hefur verið að skila af sér. En ég ætla ekki að fara út í að rifja upp þá sögu hér.
    Mig langar til að vitna í ummæli nokkurra aðila sem mættu á fundi sjútvn. og létu álit sitt í ljós á stofnun þessa sjóðs. Ég vil fyrst vitna í álit Félags um nýja sjávarútvegsstefnu sem mætti á fundi nefndarinnar og lagði fram sínar ályktanir í þessu efni, en þar stendur:
    ,,Stjórn Félags um nýja sjávarútvegsstefnu er mótfallin stofnun Þróunarsjóðs í þeim tilgangi og á þeim forsendum sem fyrirliggjandi frumvarp gerir ráð fyrir.
    Verði frumvarpið lagt fram vill stjórn félagsins leggja til að eftirfarandi efnislegar breytingar verði gerðar á því:
    Að úrelding verði einskorðuð við fiskiskip.
    Að Þróunarsjóðurinn fái tekjur af lönduðum afla í stað gjaldtöku ,,af úthlutuðu aflamarki``.
    Að sjóðnum sé heimilt að veita ábyrgðir, lán og styrki til að greiða fyrir nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi, þó ekki til fjárfestinga erlendis.``

    Félagið telur að aflagjald væri eðlilegri og skynsamlegri leið heldur en sú sem frv. gerir ráð fyrir.
    Ég er á þeirri skoðun að það sé nákvæmlega rétt sem kemur fram hjá þessum aðilum í Félagi um nýja sjávarútvegsstefnu. Ég hef haldið því fram að þessi sjóður ætti eingöngu að halda sig við úreldingu fiskiskipa. Ég tel að úrelding fiskvinnsluhúsa eins og hún er sett fram --- ég hef a.m.k. ekki séð neina hugmynd sem ég get skrifað upp á í sambandi við úreldingu fiskvinnslustöðva í landi --- sé nánast sjálfdauð og muni misheppnast, því miður. Það verður mjög erfitt að stjórna þeirri úreldingu þannig að nokkurt vit sé í, enda er það þannig að ef það gengur að úrelda fiskvinnsluhús með þeim hætti sem hér er lagt til þá er þessi uppfinning um úreldingu húsa í fiskvinnslu alveg jafngóð í aðrar atvinnugreinar. Ætla menn virkilega að fara út í það að setja upp einhvers konar úreldingarsjóði í öllum atvinnugreinum í landinu? Hvar enda menn í þessari vitleysu? Ég tel að þetta sé ekki góð hugmynd og ég held reyndar að sú úrelding sem menn eru að tala um muni engum koma til gagns nema fyrst og fremst kannski þeim lánastofnunum sem eiga peninga hjá þessum fyrirtækjum.
    Ég hef heldur ekki séð hvernig menn ætla að stjórna þessum hlutum. Í mörgum fiskibæjum allt í kringum landið eru tiltölulega fá fiskvinnslufyrirtæki. Þau eru staðsett við hafnirnar og fari menn út í úreldingu á fiskvinnsluhúsum þá er verið að loka fyrir mögleika á því að nýta þau til atvinnusköpunar. Það er að vísu gengið skref til baka í brtt. meiri hlutans og ég skal ekki lasta það. Ég tel að það sé þó til bóta að viðurkenna að það geti verið rétt að endurskoða málið. En eftir sem áður er samt verið að tala um að kippa þessum húsum út úr þeim möguleikum sem eru fyrir hendi, alla vega tímabundið og kannski til frambúðar. Ég held að umræðurnar um þetta atriði hafi svo sem sannað að það er ekki skynsamlegt að úrelda fiskvinnsluhús með neinum hætti. Ég held að það megi einfaldlega segja að svona vinnuaðferðir séu ekki til annars en að efna til afskipta hins opinbera af atvinnurekstri og það langt fram yfir það sem eðlilegt er.
    Sú athugasemd að Þróunarsjóðurinn eigi að fá tekjur af lönduðum afla í stað gjaldtöku af úthlutuðu aflamarki er líka það sem ég vil taka undir. Ég er sannfærður um að þær tekjur sem á að taka sameiginlega fyrir sjávarútveginn til að nota honum til hagsbóta er eðlilegast að taka sem aflagjald. Að menn borgi ákveðið gjald af þeim afla sem að landi kemur í takt við það hvaða fisktegund er um að ræða, hvert verðmæti hennar er og jafnvel er hugsanlegt að að einhverju leyti verði tekið tillit til hvaða áhrif veiðar af þeirri tegund sem um er að ræða hafa á lífríkið í sjónum. Alla vega er langeðlilegast að menn greiði í takt við hvað þeir taka mikið úr lífríkinu í þá sjóði sem sjávarútvegurinn þarf að nýta sér sameiginlega. Ég tel að það hafi mikla yfirburði yfir aðrar gjaldtökur sem menn hafa verið að leggja til að yrðu viðhafðar fyrir sjávarútveginn.
    Ég ætla ekki að draga úr því að auðvitað er hægt að hafa mjög margvísleg jákvæð áhrif á þróun sjávarútvegsins með sjóði sem þessum og það er eitthvað sem ég tel að sé full ástæða til að sinna og það er ekki þannig að opinber afskipti séu mér aldrei að skapi. En hins vegar vil ég meina það að með þessari sjóðsstofnun, eins og hún liggur fyrir núna með mótmælum allra aðila sem eiga raunverulega aðild að þessum sjóði og greiða það gjald sem til hans á að renna og njóta þess sem hann getur gert í staðinn, sé ekki vel til hlutanna stofnað enda hafa útvegsmannafélögin mótmælt. Ég ætla að lesa hér úr einu skjali sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þróunarsjóður sjávarútvegsins. Útvegsmannafélögin mótmæla harðlega áformum um sértækar aðgerðir sem miða að því að stofna enn einn sjóðinn. Hlutverk þessa svokallaða þróunarsjóðs er að innheimta sérstakt veiðileyfagjald af sjávarútveginum. Þetta gjald á að leggja á eins og aðstöðugjald, hvort heldur er um hagnað eða taprekstur að ræða. Slík mismunun milli sjávarútvegs og annarra atvinnugreina er óþolandi.
    Þá er einnig mótmælt að sjávarútveginum skuli ætlað að greiða með sérstökum skattstofni töpuð útlán og skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Tilurð þessara sjóða varð til þess eins að brengla samkeppnisstöðu innan greinarinnar og mismuna fyrirtækjum í sjávarútvegi. Það stríðir á móti öllu viðskiptalegu siðferði að ætla þeim aðilum í sjávarútvegi, sem þáðu ekki fyrirgreiðslu úr umræddum sjóðum, að greiða og ábyrgjast nú skuldir þessara sjóða með sérstökum skatti.
    Útvegsmannafélögin hafa ekki fengið neinar haldbærar upplýsingar um það hvernig á að standa að úreldingu fiskvinnsluhúsa. Hvernig á að koma í veg fyrir að fiskur sé unninn í tilteknu húsi, hvernig á að koma í veg fyrir að aðili, sem úreldir fiskvinnsluhús, fari ekki með fiskvinnslu í næsta hús eða byggi nýtt hús?
    Útvegsmannafélögin eru sammála því að hækka hlutfall bóta úr Hagræðingarsjóði í 45% til að stuðla að frekari úreldingu fiskiskipa.
    Hlutverk Hagræðingarsjóðs á ekki að vera annað en að stuðla að úreldingu fiskiskipa.
    Veiðiheimildum hans á að úthluta í réttu hlutfalli við veiðiheimildir hvers og eins.``
    Undir þetta rita Útvegsmannafélag Akraness, Útvegsmannafélag Austfjarða, Útvegsmannafélag Hafnarfjarðar, Útvegsmannafélag Hornafjarðar o.fl. Þetta er sýnishorn af afstöðu útvegsmannafélaga á nokkrum stöðum á landinu.
    Auðvitað geta menn haft misjafnar skoðanir á því sem útvegsmannafélögin eru að segja um t.d. úreldingu fiskvinnsluhúsanna. En það hefur ekki komið fram hvernig á t.d. að stjórna því sem minnst er á í þessum athugasemdum. Er það t.d. þannig að stór fiskvinnslufyrirtæki sem eiga fjölmörg hús og stór, eins og við þekkjum allt í kringum landið, geti farið að úrelda hluta af sínum húsum og hvað af þeim húsum eru þá fiskvinnsluhús í dag? Það er öllum hv. alþm. a.m.k. kunnugt að flest af þessum stóru fiskvinnslufyrirtækjum eiga miklu meira en þau hafa þörf fyrir af fiskvinnsluhúsum og það af eðlilegum ástæðum. Það

er ekki bara vegna þess að samdráttur hafi orðið í þorskveiði eða fiskveiðum yfirleitt heldur vegna breyttra atvinnuhátta. Saltfiskverkunarstöðvar t.d. sem þurftu gífurlegt húspláss fyrir fáum árum til þess að salta fisk og geyma yfir vetrartímann þurfa ekki í dag nema brot af því húsnæði sem þær höfðu áður og það er vegna þess að saltfiskur er nú fluttur úr landi miklu fyrr en áður, kannski hálfum mánuði, þrem vikum eftir að hann kemur að landi. Það þarf miklu minna húspláss til þess að salta fisk og selja úr landi en áður var. Fyrir utan það að margar þessara fiskvinnslustöðva hafa miklu minni fisk til að vinna og þar af leiðandi þurfa þær minna húspláss. Eiga þessi fyrirtæki að geta t.d. úrelt stóran hluta af sínum húsum, fengið fyrir það úreldingarstyrki og haldið síðan áfram að vinna með sama hætti og áður? Það er út af fyrir sig ekkert athugavert við það að þau haldi áfram sinni starfsemi, en til hvers er þá þessi úreldingarstarfsemi ef hún verður eingöngu til þess að fyrirtæki sem eru fyrir í sjávarútveginum geti nánast sett nýtt skilti á hurðina hjá sér að það sé nú vélageymsla sem áður hét saltfiskverkunarhús eða eitthvað slíkt?
    Það er verið að bjóða upp á slíka hluti með stofnun á þessum úreldingarsjóði sem á að vera tilbúinn til þess að úrelda fiskvinnsluhús.
    Það eru miklu fleiri sem hafa skoðanir á því hvernig þessi sjóður virkar. Hér er eitt tilskrifið til nefndarinnar:
    ,,Stjórn SASS óskar að gera eftirfarandi athugasemdir við frv. til laga um Þróunarsjóð sjávarútvegs.`` Þær eru í nokkuð mörgum liðum. Ég ætla ekki að lesa þá alla upp, en vekja athygli á sumu af því sem hér kemur fram. Hér segir:
    ,,Samkvæmt 3. gr. ber sjóðnum að yfirtaka eignir og skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs. Allt bendir til að þessar eignir séu stórlega ofmetnar, sem og eignir hlutafjárdeildar.
    Með þessu er því verið að leggja á mörg starfandi sjávarútvegsfyrirtæki stórkostlegar byrðar sem þau stofnuðu ekki til sjálf og hlýtur því að vekja upp spurningar um hvort slíkt sé réttlætanlegt.``
    Það er ástæða til þess að minna á hvað t.d. formaður stjórnar Byggðastofnunar hefur sagt um þessar skuldbindingar sem á að yfirtaka og færa yfir í þennan nýja, stóra sjóð. Hv. þm. Matthías Bjarnason hefur látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum að þarna séu á ferðinni 3--4 milljarðar. (Gripið fram í.) Það eru að vísu ekki sams konar tölur og við höfum séð frá þeim sem hafa gert upp reikninga þessara fyrirtækja. En það liggur ekkert mat fyrir, sem er algerlega óhlutdrægt, á því hvers virði þær skuldbindingar eru sem eru í þessum sjóðum. Það hlýtur því að vera til mikillar umhugsunar hvort ekki þurfi að vinna þetta mál betur og átta sig á því hvort það er ekki hægt að ná a.m.k. samkomulagi um hvað er þarna á ferðinni, hvaða tölur eru réttar í sambandi við skuldbindingar og eignir þeirra sjóða sem á að yfirtaka.
    Síðan stendur, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt 4. gr. fær Þróunarsjóður samsvarandi tekjur og Hagræðingarsjóður hafði. Athygli vekur að gjaldið er að hámarki 285 þús. kr. sem þýðir að eftir að 300 brúttótonna stærð er náð greiðist ekki gjald af þeim tonnum sem umfram eru. Þessi gjaldtaka mismunar því skipum eftir stærðum.``
    Það er ástæða til þess að láta þetta sjónarmið koma hér fram að það er skoðun þessara aðila að þarna sé verið að mismuna útgerðarmönnum eftir því hvaða stærð skipa þeir eru að gera út. Það væri gaman ef hv. þingmenn stjórnarflokkanna segðu okkur af hvaða ástæðu svona var staðið að málinu að gjaldtakan er ákveðin með þessum hætti af skipunum. Og ég bendi enn á það og spyr: Kom það aldrei til greina að nota aflagjald, sem hefði þá a.m.k. komið jafnt niður á alla sem stunda sjávarútveg, til þess að fjármagna þennan sjóð? Á einum stað stendur hér um 7. gr., með leyfi forseta:
    ,,Sú regla að greiða út 30% húftryggingarverð sem úreldingarstyrk hefur í raun sett lágmarksverð á skipsskrokka, óháð ástandi þeirra. Hækkun á þessum úreldingarstyrk í 45% mun aðeins búa til aukin gerviverðmæti sem greiða þarf fyrir í hærra kaupverði skipa milli manna.
    Hagur þeirra sem hætta útgerð virðist batna með þessari breytingu en þetta eykur á erfiðleika þeirra sem eru að hefja útgerð eða stunda hana.
    Einnig má benda á að stærðarsamsetning flotans hefur raskast á kostnað millistærðar skipa þannig að sóknarmynstur hefur breyst en þrátt fyrir fækkun skipa stendur stærð flotans í stað og sóknargeta hefur að líkindum aukist. Því hljóta að vakna upp efasemdir um gildi þessara aðgerða.``
    Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessum hlutum. Hvað mun gerast í framhaldi af því að þessir styrkir verða hækkaðir? Það mun auðvitað ekkert gerast annað en þetta verð á skipsskrokkunum hækkar og það þýðir auðvitað að fjárfesting í útgerðinni, stofnkostnaðurinn hækkar. Þeir sem þurfa að greiða fyrir það að komast í útgerð eða smíða ný skip þurfa að borga hærri stofnkostnað. Þessir aðilar segja um 9. gr., þ.e. um fiskvinnsluhúsin, að þeim hafi verið að fækka af eðlilegum ástæðum og því ætti að vera óþarft að greiða sérstaklega fyrir slíkt. Þeir segja:
    ,,Enn fremur er mjög vafasamt að ákveða við núverandi aðstæður að hús, sem mörg eru sérhæfð vegna uppbyggingar og staðsetningar, skuli aldrei framar verða nýtt til þeirrar starfsemi sem þau voru þó hönnuð til.``
    Síðan segja þeir að mótmæla verði sérstaklega 16. gr. ,,Fasteignagjöld eru til þess að bera uppi sameiginlegan kostnað við rekstur gatnakerfis, holræsa, brunavarna og svo má lengi telja. Þessi kostnaður vegna viðkomandi eignar leggst ekki af þó að hús standi ónotuð og Þróunarsjóður sé orðinn eigandi. Slíkt ákvæði styðst því ekki við önnur rök en að spara viðkomandi sjóði útgjöld og mundi mismuna sveitarfélögum gríðarlega.`` --- Það er alveg ástæða til að taka undir þessa skoðun. Þarna er það á ferðinni að ef Þróunarsjóður kaupir þessi fiskvinnsluhús og þóknast að hafa þau ónotuð árum saman, þá skuli sveitarfélögin sitja uppi með tapið, ekki Þróunarsjóðurinn. Hann á ekki að borga eins og aðrir aðilar í þessu þjóðfélagi til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin skulu sitja uppi með tapið. Þetta er ástæða fyrir a.m.k. þá hv. þm. sem hafa verið fulltrúar í sveitarstjórnum að taka vel eftir og átta sig á því hvort þeir eru tilbúnir að styðja við það tekjutap sveitarfélaganna sem þarna er verið að samþykkja.
    Í umsögn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi kemur fram m.a. að framkvæmdaráðið þar hefur ýmislegt við frv. að athuga, en fellst að sjálfsögðu á það markmið að stefna beri að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Ráðið hefur þó ákveðnar efasemdir um nokkur atriði, telur m.a. einsýnt að með samþykkt frv. muni aukast skattheimta á greinina og er þeirrar skoðunar að ná mætti sömu markmiðum með breytingum á Hagræðingarsjóðnum. Þetta er nánast skoðun minni hlutans í sjútvn. að það sé hægt að ná þeim markmiðum sem þarf að ná núna með því að styrkja Hagræðingarsjóðinn og með því að hækka úreldingarprósentur á fiskiskipum þar.
    ,,Verði þróunarsjóðurinn að veruleika`` stendur hér ,,telur ráðið að óhjákvæmilegt sé að breyta frv. verulega frá núverandi mynd og hefur mestan fyrirvara um gjaldtökuna.`` Síðan segja þeir frá sínum athugasemdum við það og ég ætla út af fyrir sig ekki að vera að lesa það upp fyrir menn. Það er svolítið í samræmi við það sem ég hef verið að segja um þessa hluti.
    Skyldi Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum styðja þetta frv.? Í umsögn þeirra stendur m.a., með leyfi forseta:
    ,,Varðandi Þróunarsjóð getur stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum ekki annað en mótmælt þeim hugmyndum að einstaka aðilar geti fengið undanþágu frá fasteignagjöldum. Það eru grundvallaratriði í augum sveitarstjórnarmanna að markaðir tekjustofnar sveitarfélaganna verði ekki skertir með þessum hætti og þeir minna á að nýlega var aðstöðugjaldið fellt niður til að rétta stöðu atvinnuveganna.
    Stjórn SSS telur einnig varhugavert að auka álögur á sjávarútvegsfyrirtæki í ljósi fjárhagserfiðleika undanfarinna ára.``
    Það er eins og ég sagði áðan full ástæða fyrir þá hv. þm. sem hafa þekkingu á sveitarstjórnarmálum að velta því fyrir sér hvort það sé skynsamlegt að láta sveitarfélögin sitja uppi með það tekjutap sem hér er verið að ákveða. Það er nöturleg staðreynd að sveitarfélögin mörg hver hafa haldið áfram að innheimta af þessum sjávarútvegsfyrirtækjum sem mörg hver standa illa, hafa haldið áfram að innheimta gjöld auðvitað í þeirri nauðsyn að hafa tekjur handa sveitarfélaginu en núna þegar hið opinbera ákveður að setja á einhvers konar úreldingarsjóð, þá skuli vera hægt með einu pennastriki að kippa þessum tekjum af sveitarfélögunum ofan á það tekjutap sem sveitarfélögin sitja uppi með eftir að hæstv. ríkisstjórn ákvað að minnka tekjur þeirra verulega með ýmsum tilfæringum sem við þekkjum hér og hafa farið í gegnum hv. Alþingi.
    Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra segir sitt um þetta líka. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Umsögn um þróunarsjóðsfrv. Við teljum ekki rétt að skattleggja allan sjávarútveginn til að greiða skuldir hluta fyrirtækja í greininni og erum því alfarið á móti þeim hugmyndum þar að lútandi sem settar eru fram í þróunarsjóðsfrv. Núverandi úreldingarsjóður ásamt frjálsu kvótaframsali dugar að okkar mati til að standa undir eðlilegri hagræðingu í greininni.
    Við mótmælum öllum hugmyndum um sérstaka gjaldtöku á sjávarútveg.``
    Þetta segja þeir Norðlendingarnir og það eru margir aðrir sem tala líkum rómi og því miður fyrir hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn sem styðja hæstv. ríkisstjórn eru engir sem leggja til að þetta frv. verði að veruleika. Það er full ástæða til þess að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar endurskoði hug sinn gagnvart þessu frv. Er það mjög björgulegt og er það líklegt til gæfu að svona stórt mál eins og þetta sé sett á stað með þvílíkum mótmælum frá þeim aðilum sem eiga við þetta að búa sem raun ber vitni?
    Samtök fiskvinnslustöðva hafa líka sent sínar athugasemdir við þetta frv. og það er ástæða til þess að við förum yfir það hér hvað þeir aðilar segja um þessi mál því að þeir ættu að hafa dálítið öðruvísi skoðanir á þeim en útgerðaraðilarnir. Umsögn þeirra til sjútvn. Alþingis hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Um frv. til laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Stjórn samtaka fiskvinnslustöðva er þeirrar skoðunar að gera þurfi veigamiklar breytingar á þróunarsjóðsfrv. Yfirtaka skuldbindinga atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar og hlutafjársjóðs langt umfram eignir kemur ekki til greina að okkar áliti. Að auki hefur yfirtaka Þróunarsjóðs á Hlutafjársjóði í för með sér mikil áhrif á stjórnun þeirra níu sjávarútvegsfyrirtækja sem sjóðurinn á hluti í. Telja verður afar óeðlilegt að hlutverk Þróunarsjóðsins, ef af stofnun hans verður, fari með slík völd.``
    Ég hef gert mér fulla grein fyrir því, hv. þm. Gísli S. Einarsson, að þið takið ekki mark á nærri öllum sem skipta máli í þessu sambandi. ( GE: Ekki þú heldur.) En það sem er kannski verra, þið takið ekki mark á nokkrum einasta aðila. Þið takið ekki mark á neinum af hagsmunaaðilunum í sjávarútvegi.
    ( Forseti (VS) : Ekki nota 2. persónu.)
    Ég biðst afsökunar, hæstv. forseti, ef ég hef ekki notað rétt ávarpsorð og skal reyna að vanda mig það sem eftir er ræðunnar.
    Ég var að enda við að segja að ég teldi að hv. þingmenn stjórnarflokkanna tækju ekki tillit til neinna af þeim aðilum sem eiga að búa við þetta frv. sem hér hefur verið lagt fram. Það er ekki tekið tillit til sjómannanna, það er ekki tekið tillit til útgerðarmannanna, það er ekki tekið tillit til sveitarfélaganna og það er ekki tekið tillit til fiskvinnslustöðva eða yfirleitt neinna aðila sem hafa hagsmuna að gæta í þessu sambandi. ( GE: Öll góð málefni eiga erfitt uppdráttar í fyrstu.) Ég verð nú að segja það, hæstv. forseti, að ef það er mælikvarði á málefni, að séu menn nógu margir sammála um að þau séu vitlaus, þá séu þau góð, þá er nú illa komið og þá held ég að starfsemi Alþingis verði erfið í framkvæmdinni ef menn eiga að leita eftir bestu málunum með því að finna sem mesta andstöðu við þau eins og hér virðist vera. En þeir forsvarsmenn fiskvinnslustöðvanna segja hér til viðbótar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Forsendan fyrir því að úrelding fiskvinnsluhúsa á kostnað þeirra fyrirtækja sem eftir verða komi til álita er að tryggt verði að ekki rísi upp önnur sambærileg fiskvinnslufyrirtæki í staðinn.``
    Það er auðvitað hluti af þessum vanda að það er mjög erfitt að stjórna þessum málum með þeim hætti sem hér er raunverulega verið að leggja til. Það er í sjálfu sér alveg ótrúlegt að menn skuli á Íslandi í dag, og það ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl., vera að koma til hv. Alþingis og leggja til að það eigi að fara að stjórna atvinnulífinu með þeim hætti sem hér kemur fram. Að það eigi nánast að fara að merkja í hvaða húsum megi vinna fisk og í hvaða húsum ekki. Það er a.m.k. aldeilis ótrúlegt að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem hefur skrifað mörg bréf fyrir Verslunarráðið, skuli taka þátt í tillöguflutningi af þessu tagi þar sem þeir aðilar a.m.k. halda því fram að frelsi til atvinnureksturs sé það mikilvægasta af öllu til þess að atvinnureksturinn geti skilað arði. Hvað er hér á ferðinni? Það er alla vega ekki frelsi, það er eitthvað annað. Það er afskiptasemi ríkisvaldsins, það er miðstjórnarvald og hugmyndir um miðstýringu sem ganga lengra en menn hefur dreymt um fram að þessu í sjávarútveginum. ( VE: Hvaða vitleysa er þetta?) Það er ekki vitleysa, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Það hlýtur að vera býsna erfitt fyrir menn sem dá viðskiptafrelsið að bera fram slíkar tillögur hér í hv. Alþingi. Ég trúi því ekki að hugmyndir af þessu tagi gangi yfirleitt upp í þeim fræðum sem hv. þm. hefur gluggað í. Og ef þær ganga upp í sambandi við sjávarútveginn og fiskvinnsluna, hvers vegna ganga þær þá ekki upp í sambandi við verslun, í sambandi við allan atvinnurekstur? Af hverju leggur ekki hv. þm. fram frv. um einn allsherjar úreldingarsjóð þar sem sé hægt að úrelda t.d. verslunarhúsnæði hérna í Reykjavík? Eða bara öll fyrirtæki þar sem fjárfestingin hefur orðið of mikil? Er það ekki svoleiðis braut sem menn eru á þegar þeir koma með slíkar tillögur inn í hv. Alþingi?
    Íslenskar sjávarafurðir senda sitt tilskrif til hv. sjútvn. og mig langar til að vitna í þeirra umsögn. Þar stendur:
    ,,Hagsmunanefnd Íslenskra sjávarafurða hf. hefur iðulega rætt um nauðsyn þess að úrelda fiskiskip og fiskvinnsluhús í því skyni að koma á aukinni hagræðingu og bæta þannig afkomu bæði veiða og vinnslu en þó þannig að gætt sé mannlegra sjónarmiða gagnvart einstökum byggðarlögum. Hagsmunanefndin er þess vegna hlynnt því að sett verði lög um slíka úreldingu. Hins vegar er margt í því frv. sem hér liggur fyrir sem nefndin getur ekki fallist á. Meginsjónarmið nefndarinnar byggist á eftirfarandi:
    Að stofnaður verði deildaskiptur sjóður til úreldingar fiskiskipa og fiskvinnslustöðva.
    Að innheimt verði á þessu ári og áfram gjald af öllum fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum til þess að standa undir kostnaði við úreldinguna. Ríkissjóður láni nauðsynlegt fé til þess að úrelding geti gengið hratt. Ekki verði lagt á gjald sem geti orðið vísir að auðlindaskatti. Atvinnutryggingardeild og hlutafjárdeild Byggðastofnunar verði ekki blandað inn í þetta mál.``
    Þarna er einhver jákvæðasta umsögnin sem kom til hv. nefndar. Þarna voru aðilar sem voru sammála markmiðunum, þ.e. þeir vildu og leggja á það áherslu að það verði haldið áfram að reyna að koma á meiri hagkvæmni í útgerð í landinu með því að úrelda fiskiskip og þeir eru líka á þeirri skoðun að það væri gott að úrelda fiskvinnsluhús. En niðurstaða þeirra er eftir sem áður sú að þessar tillögur séu óbrúklegar. ( Gripið fram í: Þó það nú væri.) Þó það nú væri, sagði hv. þm. Hvers vegna í ósköpunum eru allir á móti þessu frv.? Líka þeir sem hafa þó sömu markmið. Það er vegna þess að sá kaupskapur sem fór fram í kringum þetta frv. var með þeim hætti að það var nánast engum málum ráðið til lykta með skynsamlegri niðurstöðu. Það hljóta að hafa verið erfið spor fyrir hv. þm. Vilhjálm Egilsson að taka þátt í þessum leik og þessum kaupskap. ( VE: Hver segir að ég hafi tekið þátt í honum?) ( StG: Vilhjálmur er gefinn fyrir viðskipti.) Ég verð nú að segja það, hæstv. forseti, að það eru auðvitað fréttir fyrir mig ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem er forsvarsmaður ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum nú um þessar mundir, hægri hönd hæstv. sjútvrh. og framsögumaður fyrir þeirra álitum meira og minna, ef hann hefur ekki tekið þátt í því að ráða þessum málum til lykta, sjálfur tvíhöfði eða sjálfur formaður tvíhöfða nefndar. ( VE: Varstu ekki að lesa áðan úr skýrslu nefndarinnar?) Ég las úr skýrslu nefndarinnar, jú. En ég tel það víst að hv. formaður tvíhöfða nefndar hafi tekið þátt í því að ráða þeim málum til lykta og a.m.k. virðist hann ekki vera á einhverri annarri skoðun því að það hefur komið skýrt fram að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson ætlar að styðja þessi mál öll sömul sem hér liggja fyrir og hefur verið ötull í því að mæla þeim bót þrátt fyrir það að hann hafi orðið að viðurkenna að það er ekki mjög margt af tillögum tvíhöfða nefndarinnar sem hefur náð til enda og komist til afgreiðslu hér í þinginu samkvæmt þeim hugmyndum sem tvíhöfða nefndin hafði. Og því miður fyrir hv. þm., þá eru það örfá atriði sem hafa náð landi í þessu sundi tvíhöfða og síðan ríkisstjórnar með þær hugmyndir sem uppi voru í umræðunni áður en frumvörpin litu dagsins ljós og breytingar á þeim urðu ljósar hér á hv. Alþingi.
    Landssamband ísl. útvegsmanna, sem er nú kannski einn af stærstu hagsmunaaðilum sem fjallar um þessi mál, setur fram sínar skoðanir á þessu. ( VE: Um kvótann?) Nei, hv. þm. Það er ekki um kvótann og ég ætla ekki að lesa mikið af því sem Landssamband ísl. útvegsmanna segir um þetta en hér stendur í lokaorðum greinargerðarinnar:
    ,,Ítrekuð er áður kynnt andstaða samtakanna við stofnun Þróunarsjóðs sem mun hafa það hlutverk með höndum að innheimta sérstakt gjald af útgerðum og skylda þannig alla útvegsmenn til þess að greiða töpuð útlán Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Það er óþolandi að útgerðir sem þáðu enga fyrirgreiðslu úr þessum sjóðum skuli með lögum vera þvingaðar til þess að standa skil á þessum útlánum sem stjórnvöld á sínum tíma ákváðu að veita einstaka fyrirtækjum einhliða. Slík vinnubrögð grafa undan eðlilegum starfsreglum og siðferðisvitund þeirra aðila sem starfa í sjávarútveginum. Lög um væntanlegan þróunarsjóð verða ekki skilin öðruvísi en svo að það skipti í raun ekki máli hvernig einstakir aðilar standa sig í greininni. Með stofnun Þróunarsjóðs er verið að refsa þeim aðilum sem staðið hafa skynsamlega að útgerðarrekstri á undanförnum árum og ekki hafa þegið styrki stjórnvalda í gegnum áðurnefnda sjóði.``
    Þetta eru þung orð en þau eru líka réttlætanleg. Það er auðvitað ekki eðlilegt að þeir aðilar sem ekki hafa notið stuðnings þessara sjóða séu látnir borga brúsann en það er það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera. Hún er að skenkja þeim aðilum þann bikar að borga það sem aðrir töpuðu.
    Fiskifélag Íslands er samtök frjálsra aðila í sjávarútvegi og þeir hafa líka sett fram sínar skoðanir á þessum Þróunarsjóði. ( ÓÞÞ: Virtustu samtökin í sjávarútvegi.) Það má örugglega segja að það sé hárrétt hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að Fiskifélag Íslands er ein af virtustu samtökum í sjávarútveginum á Íslandi. Hvað sögðu þau um stofnun þessa Þróunarsjóðs? Það var á fiskiþingi samþykkt um Þróunarsjóð sjávarútvegsins eftirfarandi tillaga:
    ,,Fiskiþing mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um stofnun sérstaks Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Fiskiþing leggur áherslu á að Hagræðingarsjóður verði efldur svo hækka megi úreldingarstyrki úr honum vegna úreldingar fiskiskipa.``
    Það fer sem sagt ekkert á milli mála hvað þessi virti aðili í sjávarútveginum segir um þessa hluti. Ég tel að öll umfjöllunin um þessi mál sem hefur farið fram allt frá því að hugmyndin um þennan Þróunarsjóð var sett fram af hæstv. ríkisstjórn hafi sýnt að hér er óeðlilega að málum staðið og óbjörgulegt í raun og veru að fara fram með þessum hætti þegar um er að ræða jafnmikið hagsmunamál okkar undirstöðuatvinnuvegar, þá er ekki hægt að leysa málin í þvílíkum ófriði eins og hér er verið að gera fyrir utan það að ekki er tekið á ýmsum málum sem hefði þurft að taka á við stofnun sjóðs sem þessa. Ég tel að það væri eðlilegast og ríkisstjórnarflokkarnir ættu að verða við því sem stjórnarandstaðan, og þá verða menn menn að meiri, hefur verið að segja um þetta mál. Það á auðvitað að taka þetta mál til baka, fara yfir það allt og vinna að þeim málefnum sem hér eru mörg hver ágæt á bak við stofnun sjóðsins sjálfs með þeim hætti að um þau fáist friður fyrir hagsmunaaðilana í sjávarútvegi. Menn eigi að láta af því að keyra þetta mál hér í gegnum hv. Alþingi eingöngu til þess að geðjast Alþfl. vegna þess að hann þarf að geta sagt á sínum fundum við sína stuðningsmenn að hann hafi komið á einhvers konar gjaldi á sjávarútveginn. Það virðist vera aðalatriði þessa máls að það sé hægt að mæta á fundum hjá Alþfl. og benda á það að Alþfl. hafi unnið sigur, hann hafi komið skattlagningu á sjávarútveginn. ( StG: Sem hann er að gera.) Ég held að sjálfstæðismenn sem ætla sér að styðja þetta frv. ættu nú að hugsa sig dálítið betur um áður en þeir láta það fara í gegnum Alþingi, áður en þetta verður samþykkt. Og þó að Alþfl. telji sig hafa unnið sigur í þessu máli þá nær sá sigur ekki nokkru máli einfaldlega vegna þess að það er engin sjávarútvegsstefna í raun og veru á bak við þennan sigur. Það getur ekki verið hægt að kalla það sjávarútvegsstefnu að hafa það fyrst og fremst á stefnuskrá sinni að koma á auðlindagjaldi í sjávarútveginum. Það þarf eitthvað fleira að fylgja með heldur en það. En það er því miður þannig að útlitið á þessu máli virðist vera að ríkisstjórnin sé tilbúin til þess að fylgja þessu máli til enda, stjórnarflokkarnir hafi hér stuðning nægilega margra þingmanna til að keyra þetta mál áfram þó það sé einungis um að ræða fullan stuðning við þetta mál frá hendi örfárra þingmanna. Ætli það sé mikið meira heldur en Alþfl. sem styður þetta mál heils hugar? Ég held ekki. Ég held að það hafi komið nægilega skýrt fram með þeirri þögn sem hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa ástundað hér um þetta mál í vetur að það er ekki mikill stuðningur við málið. Það kann samt að vera að flokksböndin haldi mönnum og mér sýnist atkvæðagreiðslurnar um sjávarútvegsfrumvörpin benda til þess að það geti verið að það sé búið að handjárna nógu marga í þessu máli af hv. þm. stjórnarflokkanna til þess að hér sé meiri hluti, en það á auðvitað eftir að koma í ljós og það verður gaman að sjá suma af þingmönnum Sjálfstfl. greiða atkvæði með þessum Þróunarsjóði sem þeir hafa ekki treyst sér til að mæla bót með nokkrum hætti.