Þróunarsjóður sjávarútvegsins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 21:38:44 (7761)


[21:38]
     Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það mætti snúa þessari spurningu til baka líka og hv. þm. útskýrði fyrir hv. Alþingi hvernig stendur á því að hann er hættur að taka mark á aðilum í sjávarútvegi þegar hann er að fjalla um Þróunarsjóðinn. Það væri kannski líka hægt að snúa því við. Auðvitað geta menn haft mismunandi skoðanir á þessum hlutum hvað eigi að taka mikið mark á eða taka mikið tillit til þessara aðila. En ætli við séum ekki í sömu súpunni báðir, hv. þm. ég og Vilhjálmur Egilsson þegar málin eru skoðuð út frá því sjónarmiði.
    Auðvitað mótmælti útgerðin í landinu því að farið yrði að fjármagna Hafrannsóknastofnun með því að selja veiðileyfi eins og ætlunin var hjá hæstv. ríkisstjórn og það er ekki nema eðlilegt að þeir hafi brugðist illa við því því að það er auðvitað auðlindaskattur sem verið er að koma á. Og hvað sem hv. þm. segir nú um þennan þúsundkall, þá er það á honum sem Alþfl. fékkst til að samþykkja aðra hluti í sambandi við stjórn fiskveiðanna. ( EgJ: Það þarf nú ekki alltaf mikið með.) Það kann að vera að mönnum finnist það lítið, en ég er hræddur um að það séu æðimargir, hv. þm. Egill Jónsson, það eru æðimargir sem finnst þessi þúsundkall vera stefnumarkandi og það er þannig sem hv. alþýðuflokksmenn hér á Alþingi líta á málið, að það sé verið að byrja að innheimta gjaldið af sjávarútveginum og það verði léttara að hækka það eftir að búið er að koma því á.