Þróunarsjóður sjávarútvegsins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 22:04:55 (7764)


[22:04]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er mikilvægur þáttur í starfi löggjafarstofnunar að vera í heyranda hljóði. Í flestum Vesturlanda hefur sá siður verið tekinn upp í kjölfar nýrrar tækni að sjónvarpað er beint frá fundum þjóðþingsins. Nú hefur það gerst í kvöld að einn framboðsaðili í Reykjavík hefur keypt upp tíma á Sýn fyrir kosningaáróður vegna sveitarstjórnarkosninga sem fram fara eftir tæpar þrjár vikur. Sú sjónvarpsstöð sem gerði samninginn við Alþingi hefur rofið samninginn eins og forseti lýsti á forsetastól og heldur áfram að sjónvarpa kosningaáróðri Sjálfstfl. í Reykjavík. Þetta er mjög alvarlegur atburður í okkar lýðræðiskerfi og gagnvart þjóðþinginu. ( ÓÞÞ: Þetta hefði getað gerst í Sovétríkjunum.)
    Ég fer þess vegna fram á það við forseta að fundarhöldum í kvöld verði hætt. Það er ljóst að það er enginn í skapi nú til þess að halda áfram þessari umræðu eftir það sem hér hefur gerst vitandi það að við tölum bara hér í þingsalnum án nokkurrar áheyrnar sem við venjulega höfum. Ef þjóðþingið ætlar að halda áfram að starfa eftir að Sjálfstfl. í Reykjavík er búinn að beita tökum sínum á Stöð 2, því það er sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, Páll Magnússon, sem undirritar þennan samning og stjórnarformaður Stöðvar 2 er Ingimundur Sigfússon sem lengi hefur verið í fjáröflunarnefnd Sjálfstfl. og sérstakur stuðningsmaður núv. hæstv. forsrh. hafa brotið þennan samning, þá er alveg ljóst að það er enginn grundvöllur til þess að halda áfram umræðum á Alþingi í kvöld.
    Ég fer þess vegna fram á það að forseti hugleiði að gera hlé á fundum og íhugi alvarlega að ljúka fundarhaldi nú svo að menn geti borið saman bækur sínar um framhaldið.