Þróunarsjóður sjávarútvegsins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 22:07:30 (7765)


[22:07]
     Kristín Ástgeirsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Við höfum orðið vitni að mjög sérkennilegum atburðum og ég hygg að þann tíma sem ég hef setið á hinu háa Alþingi þá hafi Alþingi ekki verið sýnd önnur eins óvirðing og við urðum hér vitni að. Hér er skrúfað niður í þingmönnum og það heyrist önnur rödd þar yfir að lesa einhvern áróður. Það er alveg ljóst að hér er um að ræða brot á þeim samningi sem Alþingi gerði við sjónvarpsstöðina Sýn og forseti vitnaði til áðan. Ég held að við getum ekki annað en mótmælt vinnubrögðum af þessu tagi. Alþingi hlýtur að þurfa að skoða samskipti sín við þessa sjónvarpsstöð og ég harma það mjög að þetta skuli hafa gerst því það er alveg ljóst að þessar beinu sjónvarpsútsendingar frá Alþingi hafa orðið til þess að breyta ímynd Alþingis og hafa opnað fjölda fólks leið til að fylgjast með því sem hér fer fram. Þess vegna er alveg makalaust að svona lagað skuli gerast, að menn skuli leyfa sér það skrúfa niður í þingmönnum og meðan þeir standa í ræðustól þá heyrist önnur rödd. Ég hef ekki heyrt þetta sjálf en fólk hefur verið að hringja hingað og láta vita af þessu og ég ítreka það að mér finnst mergurinn málsins vera sá að hér er verið að sýna Alþingi hina megnustu óvirðingu vegna þeirrar pólitísku baráttu sem á sér stað í borginni. Það er auðvitað algjörlega ólíðandi.