Sjónvarpsútsendingar frá þingfundum

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 10:13:59 (7775)


[10:13]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir þá gagnrýni á þá uppákomu sem varð hér í gær og samningsbrot er að sjálfsögðu ekki hægt að verja. En það sem mér finnst kannski skipta mestu máli núna er það hversu óglögg skil eru orðin á milli áróðurs borgaðra auglýsinga annars vegar og málefnalegrar umfjöllunar, frétta og útsendinga frá Alþingi, og að í skjóli þeirra útsendinga sem eru frá Alþingi og eiga að vera til upplýsingar þá flýtur með annað efni á sömu sjónvarpsrás og undir sama yfirskini og yfirbragði ákveðins hlutleysis eða fréttaflutnings. Það má ekki blanda saman áróðursefni annars vegar og svo hins vegar óhlutdrægri fréttamennsku eða frásögn af atburðum eins og útsendingar frá Alþingi á Sýn hafa verið. Þarna finnst mér að þurfi að draga skýr mörk þannig að menn viti að hverju þeir ganga, hvort þeir eru að fá fréttaflutning, hvort þeir eru að fá atburði eins og þeir verða á Alþingi eða hvort þeir eru að horfa á keyptan áróður þar sem fjármagið getur stýrt skoðunum fólks.